Bíósögustemmning í endurnýjuðum Sambíóum Kringlunni

Sambíóin Kringlunni opnuðu rétt fyrir síðustu áramót eftir miklar endurbætur. Nýr lúxussalur opnaði í janúar og á dögunum var tilkynnt um stofnun bíóklúbbs sem snýst um að kafa djúpt í kvikmyndasöguna.

Fordyri Sambíóanna í Kringlunni eftir miklar breytingar.

Alfreð Ásberg Árnason hjá Sambíóunum segir á Facebook síðu sinni um bíóklúbbinn sem kallast Bíótöfrar:

Við hjá Sambíóunum erum að fara í samstarf með þeim snillingum Jóhanni Leplat, forsprakka Facebook hópsins Kvikmyndaáhugamenn, og Hafsteini Sæmundssyni, þáttastjórnanda hlaðvarpsins Bíóblaður, með bíóklúbbinn Bíótöfrar. Þeir Jóhann og Hafsteinn mun stjórna klúbbnum með sinn brennandi kvikmyndaáhuga að leiðarljósi. Heimili klúbbsins verður í Sambíóunum Kringlunni.

Hugmyndin spratt upp úr þeim anda og viljanum til að styrkja kvikmyndamenningu á landinu enn frekar og skapa samfélagsklúbb þar sem allt kvikmyndaáhugafólk landsins, og allir sem hafa að einhverju leyti gaman af kvikmyndum, geti komið saman 1-2 sinnum í mánuði á kvikmyndaviðburði, horft á einstakar, sögulegar og heitt elskaðar kvikmyndir saman á stóra tjaldinu aftur.

Disney og Warner Bros eru 100 ára í ár og verður kafað djúpt í safnið þeirra.Fyrsta sýning verður fimmtudaginn 30. mars á stórmyndinni Heat (1995), fljótlega verða fleiri myndir kynntar til leiks.

Nýr lúxussalur í Sambíóunum Kringlunni heitir Ásberg. Þar verður heimili bíóklúbbsins Bíótöfra.

Lúxussalurinn Ásberg

Í annarri færslu frá janúarmánuði ræðir Alfreð um breytingarnar í Kringlunni og segir söguna á bakvið nafngift nýja lúxussalarins:

Það er stór dagur hjá bíófjölskyldunni í dag þar sem við erum að opna nýjan og stórglæsilegan lúxusbíósal í Sambíóunum Kringlunni sem fær nafnið Ásberg eftir Eyjólfi Ásberg sem var langafi minn.

Við minnumst hann með þessum glæsilega sal sem er eftir að taka bíóupplifun landans upp í hærri hæðir. Ásberg er nafn sem er samofið fjölskyldunni sem stofnaði Sambíóin og hefur rekið frá stofnun. Eyjólfur Ó. Ásberg (f. 1891, d. 1954) var bakari, verslunarmaður, útgerðarmaður og heildsali í Keflavík ásamt Guðnýju Jónasdóttur (síðar Ásberg) sem rak gisti- og greiðasölu á heimili þeirra hjóna og var máttarstólpi í samfélaginu.

Árið 1937 hófu þau rekstur kvikmyndahússins Nýja bíós í Félagshúsum við Túngötu, eða Verkó eins og það var kallað, og níu árum seinna opnaði sérstakt kvikmyndahús sem byggt var í þeim tilgangi og starfar enn. Eyjólfur og Guðný Ásberg eignuðust dótturina Elísabetu Ásberg sem síðar tók við rekstri kvikmyndahússins ásamt eiginmanni sínum, Birni G. Snæbjörnssyni. Börn þeirra, Guðný Ásberg (mamma mín) og Eyjólfur Ásberg Björnsbörn, tóku líka virkan þátt í starfseminni og gengu frá barnsaldri í öll störf. Eyjólfur Ásberg lést í voveiflegu bílslysi á Reykjanesbrautinni árið 1967, aðeins tvítugur að aldri. Hann var þá við nám í Samvinnuskólanum á Bifröst meðfram því að sinna rekstri kvikmyndahússins með fjölskyldu sinni og var á leið milli Keflavíkur og Reykjavíkur með filmu þegar slysið varð.

Mamma og pabbi tóku við bíórekstrinum og hafa sannarlega ávaxtað hann vel með uppbyggingu, framsýni og dugnaði. Ásberg-fjölskyldan hefur rekið kvikmyndahús samfellt í tæp hundrað ár; hefur glímt við gjaldeyrishöft og skammtanir, óðaverðbólgu og ríkisstyrkta samkeppni, en hrist það allt af sér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR