Framleiðendur sýna SÖLKU VÖLKU mikinn áhuga

Samkvæmt heimildum Klapptrés hafa ýmsir erlendir framleiðendur að undanförnu falast eftir réttinum að Sölku Völku Halldórs Laxness með það fyrir augum að gera úr verkinu þáttaröð fyrir alþjóðlegan markað.

Halldór Þorgeirsson hjá Kvikmyndafélaginu Umba, sem fer með réttinn að verkum Halldórs Laxness, sagðist lítið geta tjáð sig þegar þetta var borið undir hann en gat þó staðfest að viðræður hefðu átt sér stað við framleiðendur frá Finnlandi, Svíþjóð, Bretlandi og Bandaríkjunum og væru kunn nöfn í þeim hópi. Hann sagði ennfremur að engar ákvarðanir hefðu verið teknar á þessu stigi, en vissulega væri þeim hjá Umba umhugað um að verkið yrði á íslensku ef af yrði og helst með þátttöku íslenskra aðila.

Halldór vék síðan talinu að sérstakri samsöngssýningu á Karlakórnum Heklu sem fram fór í Bíó Paradís í gær sunnudag. Þar hefði verið mikil stemmning og góð fyrir fullum sal og væri hugmyndin að endurtaka leikinn í byrjun næsta mánaðar.

Gerð var bíómynd eftir Sölku Völku árið 1954. Sænskir aðilar stóðu að gerð myndarinnar að undirlagi Guðlaugs Rósinkranz hjá Edda film og var henni leikstýrt af Arne Mattson. Útitökur fóru að mestu leyti fram á Íslandi en innitökur í Stokkhólmi. Sven Nykvist stjórnaði myndatöku, en hann átti síðar eftir að öðlast mikla frægð fyrir samvinnu sína með Ingmar Bergman. Gunnel Broström lék Sölku Völku eldri en Birgitta Pettersson yngri, Folke Sundquist fór með hlutverk Arnaldar og Steinþór var leikinn af Erik Strandmark. Myndin hlaut mikla aðsókn þegar hún var sýnd hér á landi.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR