Þessvegna er ég andvígur ákvörðun meirihluta stjórnar

Sem stjórnarmaður vil ég taka það fram að ég er mótfallinn þeirri ákvörðun meirihluta stjórnar ÍKSA að heimila valnefnd að taka afstöðu til nýrrar innsendingar í flokkinn Handrit ársins, löngu eftir að tilnefningar hafa verið kynntar opinberlega.

Þetta gengur gegn þeim leikreglum sem lágu fyrir þegar ferlið hófst.

Við í stjórn höfum skoðað þetta mál ítarlega nú yfir helgina, meðal annars út frá því að finna einhverskonar lausn sem hægt væri að una við. Eftir þá yfirferð var að lokum mín niðurstaða að ekki væri réttlætanlegt að opna tilnefningaferlið á ný.

Ég dreg ekki í efa að einhverskonar misskilningur hafi upphaflega orðið við innsendingu verksins í handritaflokkinn. Það er vissulega leitt, en við því er ekkert að gera nú. Innsendingar eru á ábyrgð þeirra sem senda verk inn.

Reglur liggja auðvitað fyrir áður en innsendingar hefjast og ekkert í þessu máli gerir það verjanlegt að breyta þeim meðan á ferlinu stendur. Að auki blasir þetta við þegar innsendingarferli hefst, þar sem ítrekað er minnt á að skoða og fara yfir innsendinguna áður en skráningu er lokið:

Það er mjög mikilvægt að leikreglum sé fylgt og allir sem taka þátt í Edduverðlaununum geti treyst því að þeir sitji við sama borð og aðrir. Ákvörðun meirihluta stjórnar skapar það fordæmi að tiltekinn aðili þurfi ekki að lúta sömu reglum og aðrir, að gera megi sérstakar ívilnanir í hans þágu.

Fyrir liggur að skilafrestur innsendinga rann út 24. janúar síðastliðinn. Engu að síður er verið að heimila nú innsendingu í fagverðlaunaflokk, mörgum vikum eftir að frestur rann út og eftir að tilnefningar hafa verið opinberaðar (!). Starfsreglur kveða á um að tilnefningar skuli annaðhvort vera fimm eða þrjár eftir fjölda innsendinga. Nú er verið að opna á þann möguleika að þær verði sex í einum flokki. Þessu er verið að breyta eftir að tilnefningaferli er lokið, en kosningar eftir (!). Að breyta reglum meðan á ferlinu stendur gengur því miður ekki upp.

Ljóst er að aðstandendur Verbúðarinnar völdu ekki flokkinn Handrit ársins í innsendingarferlinu sem lauk 24. janúar síðastliðinn, sendu ekki inn handrit eins og reglur kveða á um og greiddu ekki innsendingargjald vegna handritsflokks. Þetta gerðu aðrir. Aðstandendur Verbúðarinnar sendu hinsvegar inn í marga aðra fagverðlaunaflokka og fylgdu reglum þar, líkt og fjöldi tilnefninga verksins ber með sér.


Höfundur er stjórnarmaður í ÍKSA og ritstjóri Klapptrés.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR