Upptökur hafnar á kvikmynd sem byggð er á skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur, ÖR

Tökur eru hafnar suður í Pýrenea­fjöllum á kvik­mynd sem byggð er á skáld­sögu Auðar Övu, Ör sem kom út 2016. Heiti bíó­myndarinnar er Hotel Si­lence en það er ein­mitt heiti skáld­sögunnar á ensku og fleiri tungu­málum.

Fréttablaðið greinir frá:

„Ég hef fengið nokkur til­boð í bókina, það hafa nokkrir fram­leið­endur og leik­stjórar viljað gera mynd eftir henni en ég hef svo­lítið dregið lappirnar og sagt nei. Ég var svona erfiður höfundur en svo er ég nú að róast í því og lagast,“ segir Auður Ava en þetta er fyrsta kvik­myndin sem er gerð eftir bók hennar.

Leik­stjóri myndarinnar er hin svissnesk-kanadíska Léa Pool | Mynd: Julien Chavaillaz.

Leik­stjóri myndarinnar er Léa Pool sem er þekktur sviss­neskur-kanadískur leik­stjóri með langan feril að baki.

„Ég hef lengi verið að­dáandi kana­dískra leik­stjóra og mér finnst þeir vera að gera alveg rosa­lega flottar myndir í frönsku­mælandi Kanada, sér­stak­lega þeim megin. Ég þekkti til verka Léu Pool þannig að ég sagði bara já,“ segir Auður Ava.

Með aðal­hlut­verk fer kanadíski leikarinn Sé­bastien Ri­card sem hlotið hefur fjöl­mörg verð­laun auk þess sem sviss­neska leik­konan Lor­ena Handschin fer með hlut­verk.

Töku­tíma­bilið er frá nóvember 2022 til febrúar 2023 en gert er ráð fyrir að kvik­myndin verði frum­sýnd í árs­lok 2023. Spurð um hvort hún verði eitt­hvað við­riðin fram­leiðsluna segir Auður Ava:

„Þetta er annað hvort eða hjá mér. Annað hvort segi ég nei, en þegar ég segi já þá læt ég þetta al­gjör­lega í hendurnar á öðrum lista­mönnum. Leik­stjórinn Léa Pool er hokin af reynslu og hún gerir hand­ritið og ég veit í sjálfu sér ekkert um hennar á­herslur.“

Ör hlaut Ís­lensku bók­mennta­verð­launin og Bók­mennta­verð­laun Norður­landa­ráðs og hefur verið þýdd á mörg tungu­mál. Auður Ava segir þetta vera þá bók hennar sem vakið hefur hvað mestan á­huga á al­þjóða­vísu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR