spot_img

Gangið ekki á grasinu

Dagana 7.-9. desember fer fram námskeið í Reykjavík um sjálfbærni í kvikmyndagerð. Green Film og Torino Film Lab standa fyrir námskeiðinu, í samstarfi við Creative Europe, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Íslandsstofu og Film in Iceland.

Á námskeiðinu eru sérfræðingar á sviði sjálfbærni og fagfólk í kvikmyndagerð leitt saman til að nýta sérþekkingu hvers annars til góðra verka. Námskeiðið byggist á aðferðarfræði Green Film, þar sem þátttakendum býðst að þróa með sér sjálfbærar aðferðir í framleiðslu kvikmynda. Fjallað verður um hvernig eigi að beita umhverfisvænum starfsháttum og sækja um vottun þess efnis. Með hagnýtri nálgun verður farið yfir atriði líkt og orkusparnað, gistingu, veitingar, endurvinnslu, samskipti og fleira.

Umsóknarfrestur til 7. október – styrkur veittur umsækjendum frá Íslandi

Leiðbeinendur eru Giovanni PompiliMorgane Baudin og Louise Marie Smith, ráðgjafar sem búa yfir víðtækri reynslu af umhverfisstjórnun og innleiðingu sjálfbærra lausna í framleiðslu.

Opið er fyrir umsóknir til 7. október og tekið er á móti framleiðendum sem eru með verkefni sem er á á þróunarstigi (leikið efni eða heimildamynd), grænstjórum (sem búa yfir að minnsta kosti tveggja ára reynslu af umhverfisstjórnun) og framleiðendum sem hafa áhuga á að stuðla að frekari sjálfbærni á tökustað.

Þátttökugjald með verkefni er 500 evrur, en þátttakendur frá Íslandi fá 50% afslátt af upphæðinni. Ef sótt er um án verkefnis eru greiddar 150 evrur fyrir þátttöku.

Allar nánari upplýsingar um námskeiðið og umsóknarferlið má finna á vef Green Film.

Æskilegt er að umsækjendur kynni sér handbók um græna kvikmyndagerð, sem er aðgengileg á vef Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, áður en sótt er um.

Græn kvikmyndastefna

Í kvikmyndastefnu til 2030 eru sett fram markmið um að kvikmyndagerð verði sjálfbærari og starfsumhverfi greinarinnar sveigjanlegra og fjölskylduvænna. Til þess að vinna að þeim markmiðum hefur Kvikmyndamiðstöð Íslands gefið út tilmæli um að með umsóknum um framleiðslustyrki fylgi yfirlýsing framleiðslufyrirtækja um sjálfbærnimarkmið og starfsumhverfi.

Kvikmyndamiðstöð Íslands hefur gengið í samstarf við Green Film um notkun á leiðbeinandi handbók um sjálfbæra kvikmyndaframleiðslu. Í handbókinni eru ýmis ráð og leiðbeiningar um hvernig breyta megi framleiðsluháttum og um umhverfisvæna valkosti sem hægt er að velja. Mælt er með því að byrja smátt og velja sér tiltekin áherslusvið. Handbókin hentar bæði fyrir samframleiðslu og smærri verkefni, og er aðgengileg hér , bæði á íslensku og ensku.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR