Taugastríð og störukeppni, viðtal við Þóri Snæ Sigurjónsson

Morgunblaðið ræðir við Þóri Snæ Sigurjónsson, forstjóra Scanbox og framleiðanda um kvikmyndabransann á Norðurlöndum og framtíðaráætlanir fyrirtækisins.

Á vef mbl.is segir:

„Ég flutti til Dan­merk­ur 2004 út af syni mín­um og er þá með Zik Zak, ís­lenskt fram­leiðslu­fyr­ir­tæki sem ég stofnaði 1995, og fram­leiðir kvik­mynd­ir, hvort tveggja á ís­lensku og ensku. Ég er þá að pendla fram og til baka milli Íslands og Dan­merk­ur og stofna svo danskt fram­leiðslu­fyr­ir­tæki sem heit­ir Profile Pict­ur­es árið 2011.“

Þetta seg­ir Þórir Snær Sig­ur­jóns­son, for­stjóri kvik­mynda­dreif­ing­ar­fyr­ir­tæk­is­ins Scan­box Entertain­ment, í sam­tali við Morg­un­blaðið frá heim­ili sínu á Vester­bro í Kaup­manna­höfn. Óhætt er að segja að Þórir hafi marga fjör­una sopið við fram­leiðslu og dreif­ingu afþrey­ing­ar­efn­is, son­ur Sig­ur­jóns Sig­hvats­son­ar kvik­mynda­fram­leiðanda, sem mörg­um Íslend­ing­um er að góðu kunn­ur, og auk faðern­is­ins held­ur bet­ur orðinn reynsl­unni rík­ari af eig­in störf­um í brans­an­um.

„Í millitíðinni er ég svo alltaf að fram­leiða hitt og þetta, fór að fram­leiða fyr­ir Nicolas Wind­ing Refn, gerði Only God Forgi­ves og vík­inga­mynd­ina Val­halla Ris­ing með Mads Mikk­el­sen sem sagði reynd­ar ekki stakt orð í mynd­inni þar sem búið var að skera tung­una úr hon­um,“ held­ur Þórir áfram. Leið hans inn í Scan­box hafi svo legið gegn­um kaup þeirra feðga á hluta af fyr­ir­tæk­inu árið 2004 og að lok­um hafi þeir Sig­ur­jón keypt Scan­box í heild sinni árið 2014 og Þórir þá sest í for­stjóra­stól­inn þar sem hann sit­ur enn sem fast­ast.

50 mynd­ir á ári
„Scan­box hef­ur fyrst og fremst verið í dreif­ingu á kvik­mynd­um á Norður­lönd­um. Við velj­um að dreifa stærri Hollywood-mynd­um eins og Taken-serí­unni með Liam Nee­son, The Gent­lem­an eft­ir Guy Ritchie og Hatefull 8 eft­ir Qu­ent­in Tar­ant­ino í bland við minni og vandaðar nor­ræn­ar og evr­ópsk­ar mynd­ir. Við vor­um til dæm­is með The Square eft­ir Ru­ben Östlund sem sigraði á Cann­es fyr­ir nokkr­um árum og ár­lega erum við með mynd­ir sem eru í keppni í Cann­es. Svo dreif­um við líka dönsk­um „lókal“ mynd­um. Og ég dreifi eins mörg­um ís­lensk­um kvik­mynd­um á Norður­lönd­um og ég kemst upp með,“ held­ur Þórir áfram.

„Svo erum við með um það bil 50 mynd­ir á ári sem við erum að setja á mis­mun­andi „plat­form“ eða veit­ur, helm­ing­ur­inn fer kannski í bíó og svo rest­in kannski á Viaplay, Net­flix, TV2, DR eða NRK,“ seg­ir Þórir frá og grein­ir því næst frá inn­kaup­um þessa efn­is víða um heim.

„Þetta eru fjór­ir markaðir á ári, Cann­es, Berlín, Toronto og Los Ang­eles, þangað för­um við til að kaupa inn mynd­ir og þá erum við að berj­ast við aðra dreif­ing­araðila hér á Norður­lönd­um, SF Studi­os, Nordisk Film og fleiri um kaup á bestu bit­un­um. Þegar við fór­um á Cann­es núna í maí vor­um við til dæm­is að kaupa mynd­ir sem á eft­ir að gera og verða fyrst til­bún­ar á næsta ári eða 2024,“ út­skýr­ir Þórir, „þetta er al­veg gal­inn bransi, við erum að kaupa mynd­ir sem við höf­um ekki séð og svona pródú­sjón­ir geta vissu­lega farið hvernig sem er. Við erum að kaupa mynd­ir á hand­rits­stigi, lík­leg­ast er kom­inn leik­stjóri, mögu­lega leik­ar­ar og helstu lyk­ilaðilar og við vit­um nokk­urn veg­inn hvernig kostnaðarliðir líta út og við erum þá að kaupa rétt­indi til dreif­ing­ar í ákveðinn tíma. Svo fer þessi pen­ing­ur frá okk­ur í sjálfa fram­leiðslu mynd­ar­inn­ar,“ held­ur for­stjór­inn áfram.

Bit­ist um stærstu bit­ana
Eru kaup á dreif­ing­ar­rétti kvik­mynda á hátíðum þá bar­dagi upp á líf og dauða? „Já, þetta get­ur verið harður heim­ur, við byrj­um kannski á að bjóða í tíu titla sem okk­ur líst á og þetta geta verið til­boð upp á eina og hálfa til tvær millj­ón­ir doll­ara og þá reyn­um við að sann­færa söluaðilann um að hann eigi að koma til okk­ar en ekki fara til sam­keppn­isaðila og svo koma sím­töl til baka um að hinn kaup­and­inn sé bú­inn að hækka til­boðið og við verðum að hækka okk­ur svo þetta get­ur verið tauga­stríð og störu­keppni langt fram á næt­ur,“ seg­ir Þórir frá.

Hann seg­ir slag­inn um sjálf­stæðar („in­depend­ent“) bíó­mynd­ir hve blóðug­ast­an. „Það eru mynd­ir sem ég er að kaupa, ég er ekki að kaupa Warner Brot­h­ers-, Uni­versal-, Disney- eða Mar­vel-mynd­ir, þeir eru með sína sam­starfsaðila úti um all­an heim. Mynd­ir eins og Batman koma aldrei á þessa markaði. Við erum hins veg­ar að bít­ast um þessa stærstu bita í sjálf­stæðum kvik­mynd­um sem koma á kvik­mynda­markaðina, það er að segja mynd­ir sem eru ekki fram­leidd­ar í þess­um stóru am­er­ísku stúd­íó­um,“ held­ur Þórir áfram og ját­ar að sam­komu­lagið á Norður­lönd­un­um sé öllu skárra en á stærri mörkuðum.

Blaðamaður er for­vit­inn um hvernig kaup­in gangi fyr­ir sig á eyr­inni á kvik­mynda­hátíðum, mæt­ir hann bara á staðinn með sínu fólki og ger­ir til­boð?

„Já, það er í raun­inni þannig,“ svar­ar Þórir, „hátíðin sjálf og keppn­in er bara brota­brot af því sem er að ger­ast. Ég er ekki mikið að pæla í sjálfri hátíðinni þegar ég fer á Cann­es, við dreif­ing­araðilarn­ir erum þarna á þess­um markaði sem snýst aðallega um mynd­ir sem eru að koma í bíó eft­ir tólf til átján mánuði, það er aðal­vinn­an okk­ar sem sækj­um Cann­es. Rauða dreg­il­inn og það dót hef­ur maður hrein­lega ekki tíma fyr­ir, nema kannski ör­sjald­an, ég er löngu bú­inn að kaupa þær mynd­ir sem eru í keppni og vona auðvitað bara að okk­ar mynd­um gangi sem best á hátíðinni, fái góða dóma, aðsókn og verðlaun því það hjálp­ar heil­mikið við markaðssetn­ingu,“ seg­ir Þórir.

Ingvar E. fall­in hand­bolta­hetja
Hversu stórt fyr­ir­tæki skyldi Scan­box þá vera í mann­skap, veltu og fjölda verk­efna? „Við erum þriðja stærsta nor­ræna dreif­ing­ar­fyr­ir­tækið á eft­ir Nordisk Film og SF Studi­os, við erum 20 manns, reynd­ar dreift um öll Norður­lönd, en flest­ir hér í höfuðstöðinni í Kaup­manna­höfn, og við erum að dreifa 50 bíó­mynd­um á ári, í bíó, sta­f­ræn­ar veit­ur eða sjón­varp og við erum að velta kannski tveim­ur, tveim­ur og hálf­um millj­arði í ís­lensk­um krón­um,“ svar­ar Þórir.

Hann ját­ar að tekj­ur af kvik­mynda­hús­um hafi tekið dýfu í kór­ónu­veirufar­aldr­in­um. En á móti komi að tekj­ur af sta­f­ræn­um veit­um hafi auk­ist veru­lega á sama tíma. Auk þess sé áhersl­an hjá Scan­box nú á að auka eig­in fram­leiðslu á öll­um Norður­lönd­un­um. „Við gerðum norska mynd í far­aldr­in­um sem kom út í fe­brú­ar og heit­ir Full Dekn­ing sem var okk­ar eig­in fram­leiðsla. Við erum að leggja meiri áherslu á að fram­leiða okk­ar efni sjálf og þannig tekst mér að tengja reynslu mína sem fram­leiðandi við þenn­an vett­vang kvik­mynda­dreif­ing­ar.

Fram til þessa hef­ur Scan­box fyrst og fremst dreift mynd­um sem aðrir fram­leiða en nú vil ég að Scan­box geri hvort tveggja,“ seg­ir Þórir og leyn­ir því ekki að spenn­andi tím­ar séu í vænd­um hjá Scan­box. Fyr­ir­tækið kem­ur þannig að fjölda ís­lenskra verk­efna í gegn­um Zik Zak kvik­mynd­ir, „tök­ur á sjón­varps­serí­unni Aft­ur­eld­ingu eft­ir þá Haf­stein Gunn­ar Sig­urðsson og Hall­dór Hall­dórs­son [Dóra DNA öðru nafni] fara í gang í haust.

Þar leik­ur Ingvar E. Sig­urðsson fallna hand­bolta­hetju sem snýr aft­ur heim á klak­ann og fær ann­an séns til að rétta úr kútn­um þegar hann tek­ur við kvennaliði Aft­ur­eld­ing­ar. Við kom­um einnig að nýrri sjón­varps­seríu Bene­dikts Erl­ings­son­ar, Danska kon­an heit­ir hún, með Trine Dyr­holm í aðal­hlut­verki. Bæði gríðarlega skemmti­leg verk­efni sem ég er afar spennt­ur fyr­ir.“ Auk þess frum­sýn­ir Zik Zak í sept­em­ber kvik­mynd­ina Svar við bréfi Helgu í leik­stjórn Ásu Helgu Hjör­leifs­dótt­ur eft­ir sam­nefndri bók Berg­sveins Birg­is­son­ar, ljóstr­ar Þórir upp. Með aðal­hlut­verk þar fara þau Hera Hilm­ars­dótt­ir, Þor­vald­ur Davíð Kristjáns­son og Aníta Bríem.

Þetta hlýt­ur þó að vera allólík vinna, fram­leiðsla mynd­efn­is og dreif­ing þess, eða hvað?

„Jú, og það er kannski það sem við pabbi kom­um með inn í fyr­ir­tækið, við erum fyrst og fremst fram­leiðend­ur,“ ját­ar Þórir, „og það er mjög sér­stakt að koma inn í þetta og vinna með fólki sem hef­ur alltaf verið hinum meg­in við borðið, þótt ég sé bú­inn að vera lengi í brans­an­um. Í gegn­um dreif­ing­una hef ég lært að sjá stóru mynd­ina í þess­um kvik­mynda­heimi en sem fram­leiðandi hef ég alltaf þurft að vera full­kom­lega fókuseraður á kvik­mynd­ina sem ég er að gera hverju sinni og djöfla henni áfram,“ bæt­ir hann við.

Hef­ur ekk­ert upp á sig að hanga á setti
Skyldi hann vera mikið á vett­vangi sjálf­ur þegar fram­leiðsla er ann­ars veg­ar? „Nei, oft­ast ekki, sem fram­leiðandi felst hlut­verk mitt helst í því að skapa ramm­ann áður en tök­ur fara í gang og tryggja fjár­mögn­un. Það er margra ára und­ir­bún­ing­ur sem ég hef von­andi skilað vel af mér. Það hef­ur lík­leg­ast eitt­hvað farið úr­skeiðis ef ég þarf að vera mikið á setti. Það tók mig reynd­ar nokk­ur ár að læra þetta, að það hef­ur ekk­ert upp á sig að ég hangi við mónitor­inn og andi ofan í háls­málið á leik­stjór­an­um eða spáss­eri um settið í bíóúlpu og drekki kaffi úr „takeaway“-bolla. Í dag treysti ég mín­um leik­stjór­um og öðrum lyk­ilsam­starfs­mönn­um til að leysa sín verk­efni.“

Blaðamann fýs­ir að vita hvernig kvik­mynda­markaður­inn sé í Skandi­nav­íu miðað við mun stærri lönd og markaðssvæði. Hvað seg­ir Þórir um það? „Hann er all­góður. Ég held nú til dæm­is að dýr­asti bíómiði í heimi sé í Nor­egi,“ svar­ar hann og hlær við. „En ann­ars er þessi markaður bara stabíll, auðvitað eru breyt­ing­ar á markaðnum núna út af streym­isveit­un­um og Covid og þessu öllu. Maður veit ekk­ert hvort markaður­inn kem­ur til baka eins og hann var en fólk mun horfa á bíó­mynd­ir áfram og skandi­nav­íski markaður­inn er nokkuð góður, hann er bú­inn að vera í miklu upp­námi núna. Ég veit ekki hvað þú ert með en ég er kom­inn með alla vega sex veit­ur heim til mín, ég er með Disney, Paramount, Net­flix, Amazon, HBO og Viaplay, úr­valið er mjög mikið,“ seg­ir Þórir.

Hann seg­ir sjón­varpsþátt­araðir ef til vill hafa tekið ákveðinn hluta af markaðnum frá bíó­inu. „En bíó­mynd­in mun alltaf lifa, ég trúi því,“ seg­ir Þórir af ein­urð, „hún verður kannski öðru­vísi fram sett en áður,“ held­ur hann áfram og seg­ir for­vitni­lega sögu af rétt­inda­mál­um í kvik­mynda­hús­um á Norður­lönd­um.

„Þetta var þannig að sýn­ing­ar­rétt­ur­inn í bíó á Norður­lönd­um var 90 dag­ar. Ég setti kannski mynd út og þótt hún gengi ekki neitt, eng­inn kæmi í bíó, og hún væri tek­in úr sýn­ingu eft­ir 15 daga þurfti ég samt að bíða í 75 daga þangað til ég mátti setja hana á ein­hverja veitu, þannig voru samn­ing­arn­ir bara. Breyt­ing­in á þessu er helsta bylt­ing­in núna, Warner Brot­h­ers settu Batman út og eft­ir 45 daga var hún bara kom­in á HBO Max en samt áfram sýnd í bíó,“ seg­ir Þórir og kveður mik­il vatna­skil.

Sterk­ari samn­or­ræn teng­ing
Hann er þeirr­ar skoðunar að viðskipta­vin­ur­inn skuli ráða ferðinni, hann geti séð mynd í bíó en sé hún ekki sýnd í bíó eigi hann að geta séð hana heima hjá sér án taf­ar. „Ef mynd geng­ur ekki í bíó á hún að vera kom­in heim til þín mjög fljótt,“ seg­ir Þórir og bæt­ir því við að fólk flest sé auðvitað með mis­marg­ar streym­isveit­ur í áskrift. „Veit kúnn­inn að mynd er til dæm­is á Viaplay þótt hún sé enn í bíó?“ spyr hann og legg­ur ríka áherslu á þátt neyt­and­ans í markaðssetn­ing­unni.

Hvað með framtíðina hjá Scan­box, hvernig sér Þórir næstu miss­eri fyr­ir sér? „Við í fram­kvæmda­stjórn Scan­box keypt­um fyr­ir­tækið í fyrra þannig að pabbi og aðrir fjár­fest­ar eru farn­ir út. Það er önn­ur orka þegar eig­enda­hóp­ur­inn er á gólf­inu og með því á sér stað öðru­vísi sam­tal og aðrar áhersl­ur. Við ætl­um að auka veru­lega um­svif­in í fram­leiðslu hjá okk­ur. Á síðasta ári keypti ég út Skúla Malmquist, sem stofnaði Zik Zak með mér, og setti Zik Zak inn í grúpp­una okk­ar hjá Scan­box og maður er kannski að reyna að búa til sterk­ari samn­or­ræna teng­ingu,“ seg­ir Þórir sem dreym­ir um að gera mynd­ir sem njóti áhorfs í Svíþjóð, Nor­egi og Dan­mörku, milli þess­ara landa liggi ógreini­leg mörk sem séu hefðbundn­um landa­mær­um tor­fær­ari.

„Mér finnst furðulegt hvað við erum lítið að horfa á hvert annað og skil ekki hvernig stend­ur á því. Ég bý hálf­tíma frá Mal­mö [í Svíþjóð] og ég veit ekk­ert hvað er að ger­ast þar,“ seg­ir Þórir og hlær. „Norður­lönd­in eru svo samof­in að mynd­ir og þætt­ir ættu að geta ferðast mun auðveld­ar yfir þessi landa­mæri, sem auðvitað Brú­in [dansk-sænsku spennuþætt­irn­ir Broen] gerði og var til fyr­ir­mynd­ar, en mig lang­ar að gera meira þarna,“ seg­ir Þórir og kveðst einnig hafa stærri verk­efni í huga, en alls ekki í Hollywood tek­ur hann fram grafal­var­leg­ur.

HEIMILDMbl.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR