Friðrik Mar Hilmarsson ráðinn í framkvæmdastjórastöðu hjá Viaplay

Friðrik Mar Hilmarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar í Noregi hjá efnisveitunni Viaplay. Friðrik á að baki yfir þrjátíu ára fjölþætta reynslu í kvikmyndagerð, bróðurpartinn í norskum kvikmyndaiðnaði.

Viaplay hyggur á mikla stækkun á næstu misserum og árum. Veitan er þegar fáanleg á Norðurlöndunum, Eystrasaltslöndunum, Póllandi, Hollandi og í Bandaríkjunum. Bretlandsopnun er fyrirhuguð á þessu ári og á næsta ári í Þýskalandi, Austurríki, Sviss og Kanada. Þá er samstarf við aðrar efnisveitur á döfinni í fimm löndum til víðbótar og hefst það í Japan síðar á árinu.

Friðrik mun stýra viðskiptaþróun (Commercial Affairs Manager) Viaplay í Noregi, en starfið felst meðal annars í samningagerð við framleiðendur, mati á viðskiptalegu gildi verkefna sem veitan hefur hug á að framleiða og fylgja verkefnum í framleiðslu eftir.

Friðrik hefur undanfarin ár verið framleiðslustjóri Rubicon TV sem er eitt stærsta framleiðslufyrirtæki Noregs. Þar hefur hann meðal annars haft umsjón með þáttaröðum á borð við Beforeigners og Jordbrukerne. Áður var hann um árabil framleiðsluráðgjafi hjá Norska kvikmyndasjóðnum og þar áður komið að framleiðslustjórn ýmissa kunnra kvikmynda og þáttaraða eins og Lilyhammer, Kon-Tiki, Thelma og Kongens nei. Ferill Friðriks í kvikmyndagerð hófst 1987 þegar hann tók þátt í leikmyndavinnu þáttaraðarinnar Nonni og Manni sem Ágúst Guðmundsson leikstýrði og var tekin upp hér á landi.

Fræðast má nánar um feril Friðriks hér.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR