Lestin um HARM: Ungæðislegt bíópönk

Ungir og óharðnaðir listamenn sem standa að kvikmyndinni Harmi eiga framtíðina fyrir sér, segir Gunnar Ragnarsson gagnrýnandi Lestarinnar meðal annars.

Gunnar skrifar:

Kvikmyndagerð er kostnaðarsöm kýr og óumflýjanlega háð lögmálum iðnaðar í ríkari mæli en önnur listform. Víðast hvar er greinin að hluta til fjármögnuð með opinberu fé en annars staðar, eins og í Hollywood, ráða markaðsöfl ferðinni. Að því leyti getur kvikmyndaheimurinn verið lokaðri en aðrir listkimar. Ferlið frá hugmynd að útgáfu er tímafrekt og krefst peninga, tengsla og fagþekkingar. Sumar spár töldu stafræna væðingu miðilsins greiða fleiri hópum aðgang inn í bíóveröldina, í ljósi þess að þorri jarðarbúa á nú orðið snjallsíma, sem myndi hafa í för með sér umbyltingu formsins. Sú hefur ekki endilega orðið raunin.

Gegnum tíðina hafa óháðar íslenskar kvikmyndir, sem hvorki hið opinbera né fjársterkir aðilar standa að baki, skotið upp kollinum endrum og sinnum. Mikilvægt er að slík verk, sem spretta af jaðrinum eða utan hins eiginlega fagumhverfis, fái sýningu og viðtökur; sem sé rými innan menningarinnar. Kvikmyndin Harmur er hressandi slíkt dæmi. Hún var frumsýnd á RIFF á haustdögum og er nú í almennum sýningum í Sambíóunum.

Einn, tveir, þrír, fjór
Framleiðsluteymi Harms er um margt kvikmyndaleg hliðstæða upprennandi bílskúrshljómsveitar, sem er vel. Móttóið „gerðu það sjálfur“ blífur, sömu aðilarnir bregða sér í nær öll helstu listrænu hlutverkin, ungæðiskraftur allsráðandi. Ásgeir Sigurðsson skrifar handrit, leikstýrir, klippir og leikur aðalpersónu myndarinnar. Anton Kristensen stjórnar kvikmyndatöku, klippir og leikstýrir ásamt Ásgeiri en þeir félagar eru rúmlega tvítugir. Frá fyrsta andartaki er ljóst að tvíeykið hefur skýra og afgerandi fagurfræðilega nálgun, sem þeir hafa ágætis tök á. Frásögnin hefst í miðjum klíðum, in media res, í bifreið á leið um myrkan veg. Söguhetjan Óliver, ungur óharðnaður drengur, er í bílstjórasætinu en síðhærður maður milli þrítugs og fertugs situr aftur í. Afsakandi farþeginn býður dóttur sinni góða nótt í símann og í framhaldinu verður ljóst af samskiptum sveinanna að mikið er undir. Óliver er heitt í hamsi. Greinilegt er að móðir hans er í vanda stödd, hefur enn eina ferðina bakað sér og sínum vandræði sem yngri bróðir Ólivers er nú sokkinn í. „Hann er bara ellefu ára“, segir ábyrgðarfulli stóri bróðir og áhorfendum er treyst til að fylla í gloppurnar.

Skýr fagurfræðileg sýn
Upphafssenan kemur á fót formrænni fyrirmynd sem haldið er til streitu meira og minna í gegnum alla myndina. Samtalinu er miðlað með miklum nærmyndum af persónum, sem er klippt á milli, rými söguheimsins ávallt brotið, sjónsviðið takmarkað. Viðföngin eru mynduð í grunnri skerpu, þar sem umhverfið er jafnan úr fókus, óskýrt, og andlitin og svipbrigði þeirra stór á skjánum. Eins konar millirammar eru einnig gegnumgangandi, þar sem vitinu er sökkt í ýktar nærmyndir af smáatriðum í umhverfinu, blikkandi ljós í mælaborði, raftæki inni á heimili t.a.m., sem verða næstum óræðar. Myndskeiðin virka sem sjónrænir brúarliðir milli og innan atriða og kjarna ætlunarverkið, að búa til áþreifanlega og ofurraunsæja tilfinningu fyrir hugarheimi aðalpersónunnar. Leikandi hljóðhönnun og nokkuð magnþrungin sveimandi raftónlist Kára Haraldssonar ýta frekar undir ákafa upplifunarinnar.

Fyrst apa, svo skapa
Það liggur í augum uppi hvaðan aðstandendur Harms hafa fyrirmyndir sínar og er þeim engin launung í því ef marka má viðtöl. Safdie-bræðurnir, Joshua og Benjamin, frá New-York eru hetjur margra ungra kvikmyndagerðarmanna enda eru indístórsmellir þeirra, adrenalínsþeysireiðin Good Time (2017) með Robert Pattinson í aðalhlutverki og taugaáfallsmessan Uncut Gems (2019) með Adam Sandler, afdráttarlaust, grípandi og listfengið upplifunarbíó. Maður þarf að apa áður en maður skapar, hefur verið sagt, og sannleikur í því. Það að nýta sér stílrænar fyrirmyndir með jafn beinum hætti og reyna að gera að sínu hefur virði í sjálfu sér. Frásagnarlega styður Harmur sig líka við upplegg Good Time og Uncut Gems þar sem sögutími er afmarkaður, framvindan gerist á einu kvöldi eða sólarhring, sem býr til þetta tilfinnanlega spennuþrungna „hér og nú“ í myndunum. Tvívegis bregður Harmur þó frá þessari grunnuppskrift, með endurliti um miðja mynd og síðar með einkar löngum og misráðnum eftirmála þar sem sjónarhornið færist til aukapersónu og frásagnarlögmálið fer þar með í súginn. Einnig eru líkindi með aðstæðum og aðalpersónum Good Time þar sem stóri bróðir reynir að koma þeim minni í gegnum háska.

Í göllum býr fegurð
Fléttan er einföld. Móðir Ólivers á við langvarandi fíknivandamál að stríða og meðvirkur sonur axlar þar af leiðandi of mikla ábyrgð á bróður sínum og heimilinu. Vegna dópskuldar móðurinnar flækjast þeir í voveiflega atburðarás. Frásögnin er byggð ágætlega upp framan af, grunnstefin eru kunnugleg og persónurnar ákveðnar erkitýpur og frekar einhliða, sem maður fyrirgefur nokkuð auðveldlega (mýmargar rándýrar íslenskar framleiðslur gerast sekar um það sama). Ásgeir er efnilegur leikari og þegar best lætur, í senum milli hans litla bróður og í partíatriði með jafnöldrum, eru samtölin raunsæisleg og sannfærandi. Um miðbik fatast myndinni flugið þó verulega, framvindan verður endurtekningasöm og söguheimurinn missir trúverðugleika. Tveir langir myndfléttukaflar standa óþægilega út úr, þó nokkuð fallegir í sjálfu sér en lopinn er einfaldlega teygður um of. Það sem gerir myndina fallega, sköpunargleði sem ritskoðar sig ekki um of sem og „kýla-á-það“-hugarfar, takmarkar hana líka. Flækjan í því að skrifa og leikstýra mynd sem þú berð uppi sjálfur er yfirþyrmandi og á örfárra færi, jú, auðvitað höfum við undur eins og Chaplin, Buster Keaton og Orson Welles en þeir studdust líka við fjölmarga samstarfsmenn þó að það hafi ekki alltaf verið viðurkennt.

Harmur ber þess merki að vera verk ungra listamanna en hefur nógu mikið við sig til að gera mann spenntan fyrir næstu verkefnum þeirra.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR