Steven Meyers: „Mikil þörf fyrir kvikmyndanám á háskólastigi“

Steven Meyers, nýráðinn deildarforseti kvik­mynda­deild­ar Lista­há­skóla Íslands, er í viðtali við Morgunblaðið um starfið og námið framundan, en fyrstu nemendurnir hefja störf í haust.

Á mbl.is segir:

Hann er nýráðinn deild­ar­for­seti kvik­mynda­deild­ar Lista­há­skóla Íslands en nám í kvik­myndal­ist mun hefjast við skól­ann haustið 2022. Hann hef­ur starfað sem hand­rits­ráðgjafi og kvik­mynda­kenn­ari um ára­bil. Meyers er fædd­ur og upp­al­inn í Michigan í Banda­ríkj­un­um en hef­ur búið víða, meðal ann­ars í New York, Par­ís og Prag, áður en hann sett­ist að lok­um að hér í Reykja­vík.

Hann er með grunn­mennt­un í fé­lags­fræði auk diplóma­náms í hand­rita­gerð og leik­stjórn frá tékk­neska kvik­mynda­skól­an­um FAMU. Síðar lauk hann MFA-gráðu í sama fagi frá Col­umb­ia Uni­versity School of the Arts.

Hann flutti til Reykja­vík­ur síðla árs 2006 ásamt eig­in­konu sinni Hrönn Sveins­dótt­ur, fram­kvæmda-stjóra Bíós Para­dís­ar, þau búa í Vest­ur­bæn­um í dag með þrem­ur ung­um dætr­um sín­um og hundi. Meyers tel­ur mik­inn ávinn­ing af því að hafa stundað nám í tveim­ur frá­bær­um kvik­mynda­skól­um í ólík­um heims­álf­um.

„Það hef­ur gefið mér inn­sýn í hinar ýmsu stefn­ur og venj­ur í kvik­mynda­námi á seinni nám­stig­um. Sem kvik­mynda­nemi á sín­um tíma gerði ég hand­fylli af stutt­mynd­um og skrifaði nokk­ur hand­rit sjálf­ur. Stór hluti fer­ils­ins hef­ur þó beinst að stofn­ana­hlið iðnaðar­ins, þar sem ég hef nýtt mennt­un mína til að styðja við þróun verk­efna á sviði kvik­mynda­gerðar (e. talent develop­ment).“

Meyers hef­ur starfað sem ráðgjafi hjá Kvik­mynda­miðstöð Ísland frá ár­inu 2013, kennt um ára­bil við Kvik­mynda­skóla Íslands og skipu­lagt fjölda hand­ritanám­skeiða og annarra þjálf­un­ar­nám­skeiða fyr­ir ungt hæfi­leika­fólk í gegn­um sitt eigið fyr­ir­tæki, Kvik­mynda­aka­demí­una í Reykja­vík.

„Frá ár­inu 2016 hef ég, ásamt vini mín­um og sam­starfs­manni Haf­steini Gunn­ari Sig­urðssyni og fleir­um, tekið þátt í að koma kvik­mynda­námi á há­skóla­stig inn­an Lista­há­skóla Íslands. Ég hef svo frá ár­inu 2019 unnið með lista­há­skól­an­um í að þróa þetta nýja nám.“

Nýja kvik­mynda­deild­in mun taka á móti fyrstu nem­end­um sín­um í ág­úst árið 2022.

„Upp­bygg­ing og nám­skrá mun byggja á ára­langri þró­un­ar­vinnu inn­an lista­há­skól­ans í sam­vinnu við hags­munaaðila úr ís­lensk­um kvik­myndaiðnaði. Þessi vinna fól meðal ann­ars í sér sam­ráð við virta er­lenda sér­fræðinga og heim­sókn­ir í skóla í ná­granna­lönd­um okk­ar. Hug­mynda­fræði náms­upp­bygg­ing­ar­inn­ar er í sam­ræmi við álykt­an­ir sem dregn­ar eru úr skýrslu mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyt­is um kvik­mynda­fræðslu árið 2012, þar sem mælt var með áherslu á sex helstu lyk­ilþætti kvik­mynda­gerðar. Þessi sér­svið iðnaðar­ins sem kennd verða eru leik­stjórn, hand­rits­gerð, fram­leiðsla, kvik­mynda­taka, klipp­ing og hljóð. Í upp­hafi náms­tím­ans er áhersla á að all­ir fái grunnþekk­ingu á þess­um helstu grein­um en eft­ir því sem líður á eykst sér­hæf­ing­in. Nem­andi ætti því að út­skrif­ast með djúpa þekk­ingu og hæfni á því sér­sviði sem hann vel­ur sér. Stefnt er að því að taka 12 til 15 nem­end­ur í námið næsta haust. Um er að ræða þriggja ára nám til bakka­lár­gráðu og mun meist­ara­námi verða bætt við í fyll­ingu tím­ans.“

Mik­il verðmæti fólg­in í sam­starfi við aðrar deild­ir há­skól­ans

Meyers tel­ur mik­il­vægt að hafa í huga að kvik­mynda­deild­in verður til inn­an fram­sæk­ins lista­há­skóla með öllu sem því fylg­ir, bæði fyr­ir deild­ina og há­skól­ann í heild sinni.

„Einn ávinn­ing­ur þessa er að deild­in verður strax tengd svæðis­bundn­um sam­vinnu­verk­efn­um og alþjóðleg­um sam­starfsnet­um sem hvetja til skipta á nem­end­um, kenn­ur­um og hug­mynd­um. Þessi hug­mynda­fræði mun einnig verða virkjuð inn­an há­skól­ans, þar sem nem­end­ur verða hvatt­ir til sam­starfs þvert á fag­grein­ar og deild­ir, sem og við önn­ur fræðisvið og aðra há­skóla hér á landi.“

Kvik­mynda­deild­in verður staðsett inn­an sviðs kvik­myndal­ista, tón­list­ar og sviðslista þar sem mikið er af aug­ljós­um snerti­flöt­um á milli þeirra list­greina.

„Við erum einnig fús að kanna sam­starf á milli kvik­mynda og annarra deilda, svo sem arki­tekt­úrs, hönn­un­ar, mynd­list­ar og list­kennslu. Að vera staðsett inni í lista­há­skól­an­um ger­ir okk­ur kleift að vinna þvert á grein­ar.

Þetta mun stór­efla kvik­mynda­nám lands­ins og búa til alls kon­ar spenn­andi tæki­færi.“

Hann seg­ir starfið í lista­há­skól­an­um hafa verið ein­stakt ferðalag fyr­ir hann per­sónu­lega.

„Þörf­in fyr­ir kvik­mynda­nám á há­skóla­stigi er mik­il og hafa marg­ir unnið að upp­bygg­ingu þess í lang­an tíma. Það hef­ur verið heiður og for­rétt­indi að fá að vera hluti af upp­bygg­ingu deild­ar­inn­ar hingað til og það er sér­stak­lega auðmýkj­andi að vera falið að vera fyrsti for­seti deild­ar­inn­ar. Það er gríðarleg ábyrgð en líka mjög spenn­andi að taka þátt í að byggja upp þessa deild frá grunni.“

Munu leita að þeim allra bestu í námið

Opnað verður fyr­ir um­sókn­ir um miðjan fe­brú­ar fyr­ir skóla­árið 2022 til 2023.

„Nem­end­ur þurfa að jafnaði að hafa lokið stúd­ents­prófi og sýna áhuga og skap­andi hæfi­leika í um­sókn sinni. Þetta er há­skóla­mennt­un þannig að við mun­um leita að hug­mynda­ríku, skap­andi og hæfi­leika­ríku ungu fólki með metnað og sýn. Það seg­ir sig sjálft að við stefn­um að nem­enda­hópi án aðgrein­ing­ar sem end­ur­spegl­ar fjöl­breyti­leik­ann í ís­lensku sam­fé­lagi.“

Um­sækj­end­ur eru beðnir um að til­greina hvaða áherslu­grein þeir vilja helst út­skrif­ast með.

„Þá er átt við leik­stjórn, hand­rits­gerð, fram­leiðslu, kvik­mynda­töku, klipp­ingu eða hljóð. Nem­end­ur munu svo vinna að verk­efn­um sín­um í teym­um. Fyrsta árið er áhersl­an á grunn­grein­ar kvik­mynda­gerðar. Á öðru ári er áhersl­an á sér­hæf­ingu nem­andans og kennsl­an verður ná­kvæm­ari og mark­viss­ari í hverri sér­grein. Á þriðja ári verður lögð áhersla á rann­sókn­ar­verk­efni og þróun og gerð út­skrift­ar­verk­efna. Aðaláhersl­an í nám­inu er á kvik­mynda­gerð sem frá­sagn­ar­form. Þó mun einnig rými skap­ast til til­rauna- eða heim­ilda­mynda­gerðar, eða annarra forma kvik­myndal­ist­ar sem nem­end­ur kjósa að leggja áherslu á, á náms­tím­an­um. Námið er nem­enda­miðað og mun þróun þess og mót­un taka mið af ósk­um nem­enda og ríku sam­tali við fag­vett­vang­inn.“

Meyers seg­ir áhuga­verð tæki­færi að finna í iðnaðinum ekki síst þar sem hann tel­ur kvik­mynd­ir eitt helsta frá­sagn­ar­form okk­ar tíma.

„Að segja sög­ur okk­ar, sem ein­stak­ling­ar og sem þjóð, er mik­il­væg leið til að staðsetja okk­ur í um­heim­in­um. Því bet­ur sem við skilj­um hvernig á að nota tól og tungu­mál kvik­mynda, til að segja sögu, því bet­ur í stakk búin erum við til að skrá­setja sög­una á þessu frá­sagna­formi.“

Eins og fyrr seg­ir var námið ólíkt í Prag miðað við New York þótt Meyers sjái aug­ljósa brú á milli skól­anna sem hann lærði í.

„Col­umb­ia-há­skól­inn var stofnaður af tékk­nesk­um inn­flytj­end­um sem flúðu komm­ún­ismann sem ríkti í Prag árið 1968. Í því sam­hengi má nefna Mi­los Form­an, Vojtech Jasny og Frank Daniel sem kenndi hand­rits­gerð. Af þess­ari kyn­slóð kvik­mynda­gerðafólks var Milena Jel­inek sem kenndi mér, en hún var nem­andi Franks Daniels. Hún lést því miður í fyrra vegna fylgi­kvilla kór­ónu­veirunn­ar. Hún hafði mik­il áhrif á mig líkt og ann­ar leiðbein­andi minn í hand­rits­gerð, Brend­an Ward, sem lést einnig ný­verið.“

Hann er þakk­lát­ur fyr­ir að hafa lært og til­einkað sér nálg­un kenn­ara við Col­umb­ia-há­skóla við hand­rits­gerð.

Bjart­sýnn á stöðu kvik­mynda­gerðar í land­inu

Meyers er ekki einn af þeim sem sat límd­ur við sjón­varpið sem barn, held­ur óx áhugi hans á kvik­mynd­um með tím­an­um.

„Mér fund­ust kvik­mynd­ir yfir höfuð leiðin­leg­ar. Ég man að mér fannst Rai­ders of the Lost Ark skemmti­leg, þegar hún kom út, ann­ars horfði ég ekk­ert sér­stak­lega á kvik­mynd­ir fyrr en ég var kom­inn í mennta­skóla og há­skóla og fór að skoða er­lend­ar kvik­mynd­ir og list­mynd­ir í gegn­um há­skóla­kvik­mynda­fé­lagið. Á þess­um tíma kynnt­ist ég kvik­mynda­gerðarmönn­um á borð við Bergman og God­ard og þeirra verk töluðu virki­lega til mín. Seinna, þegar ég bjó í New York og Par­ís, varði ég mikl­um tíma í litlu list­hús­un­um sem var í raun og veru hluti af mennt­un minni sem kvik­mynd­anjót­anda.“

Hann seg­ir alls kon­ar upp­lif­un fólgna í því að vinna við kvik­mynda­gerð rétt eins og lífið sjálft.

„Hvert skot er ein­stakt í eðli sínu og kvik­mynda­hóp­ar þróa sína eig­in menn­ingu. Stund­um geng­ur allt frá­bær­lega og stund­um ekki, rétt eins og lífið er alls kon­ar.“

Spurður um bak­grunn þeirra kenn­ara sem munu kenna við kvik­mynda­deild­ina í lista­há­skól­an­um er ósk hans að ná til hæfi­leika­ríkra ein­stak­linga úr iðnaðnum.

„Æskilegt er að kenn­ar­ar deild­ar­inn­ar hafi ríka þekk­ingu og reynslu af fag­inu en einnig góða og fjöbreytta mennt­un og bak­grunn. Fag­fólk sem hef­ur áhuga á upp­bygg­ingu og námsþróun kvik­myndal­ist­ar.

Það er mik­il­vægt að þróa kennslu­menn­ing­una hér þar sem við höf­um ekki verið með nám á þessu stigi áður. Ég er sér­stak­lega áhuga­sam­ur um að fá efni­legt fólk úr yngri kyn­slóðum, sem lokið hef­ur há­skóla­námi í kvik­mynda­gerð og er að hefja fer­il sinn hér heima. Við mun­um einnig vera með er­lenda gesta­kenn­ara reglu­lega en hreyf­an­leiki nem­enda og kenn­ara inn­an Evr­ópu er mik­il­væg­ur hluti náms­ins.“

Ný kvik­mynda­stefna hef­ur haft já­kvæð áhrif á iðnaðinn og má þar ekki síst nefna hækk­un end­ur­greiðslu á kostnaði við að gera kvik­mynd­ir í land­inu. Auk­in hækk­un mun laða enn þá fleiri verk­efni til lands­ins og er kvik­mynda­deild­in meðal ann­ars stofnuð svo hægt sé að mæta þess­ari auknu þörf sem verður með ár­un­um ef miðað er við stefnu stjórn­valda.

„Það er frá­bær tími til að gera kvik­mynd­ir á Íslandi núna og verður von­andi áfram um kom­andi tíð,“ seg­ir Steven Mayers.

HEIMILDMbl.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR