spot_img

Ævintýraför yfir austurhluta Grænlands í nýrri heimildamynd

Heimildamyndin Eftirsókn eftir vindi fjallar um leiðangur fimm íslenskra fjallamanna yfir óþekktar lendur austur-Grænlands í apríl 2017.

Leiðangursmennirnir eru Skúli Magnússon, Tómas Júlíusson, Einar Kristján Stefánsson, Hallgrímur Magnússon og Leifur Örn Svavarsson. Sagafilm er framleiðandi myndarinnar.

Markmiðið var að fara 12 til 13 hundruð kílómetra leið á skíðadrekum án utanaðkomandi aðstoðar, frá Scorebysundi suður til Ammassalik-svæðisins, um tvo fjallgarða og hájökul Grænlands. Leiðin hafði aldrei verið farin áður og björgunaraðgerðir yrðu flóknar ef illa færi.

“Þegar Skúli og Leifur Örn komu til mín og vildu gera mynd um fyrirhugaða ferð á skíðadrekum niður austur-Grænland, þá hafði ég satt best að segja ekki mikla trú á því að þeir myndu geta gefið sér tíma til að mynda. Það var útilokað að senda með þeim tökumann af augljósum aðstæðum. Við Skúli ákváðum að hann færi með kameru og græjur og svo myndum við sjá til. En viti menn. Svona menn láta ekki segja sér að eitthvað sé erfitt eða ómögulegt. Það tók að vísu dágóðan tíma að klára myndina, en hér er hún tilbúin og sýnir þessar ótrúlegu aðstæður, ægifagurt landslagið og 40 daga leiðangur strákanna sem við deilum nú með ævintýraþyrstum landsmönnum,“ segir Margrét Jónasdóttir framkvæmdastjóri heimildamynda Sagafilm.

Myndin verður sýnd á RÚV í kvöld, 9. janúar kl. 19:45.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR