Fréttablaðið um SAUMAKLÚBBINN: Ágætis gamanmynd en ódýrar lausnir

„Alveg á­gætis gaman­mynd sem rennur út í heldur ó­dýrar lausnir,“ segir Þórarinn Þórarinsson meðal annars í Fréttablaðinu um Saumaklúbbinn eftir Göggu Jónsdóttur.

Þórarinn skrifar:

At­hafna­konan, heild­salinn og Insta­gram-á­hrifa­valdurinn Íris unir hag sínum vel í al­gleymi yfir­borðs­mennskunnar með snjall­símann stöðugt á lofti til þess að halda því nú vand­lega til haga hversu geggjuð til­vera hennar er.

Hún er líka prímu­s­mótorinn í sauma­klúbbi mennta­skóla­vin­kvennanna sem halda enn hópinn þótt merki­lega grunnt sé á því góða milli ó­líkra vin­kvennanna sem eru mis­vel eða illa staddar í lífinu eftir þrjá ára­tugi.

Á yfir­borðinu er samt allt slétt og fellt en undir niðri malla gremja, öfund og alls konar pirringur sem koma þó ekki í veg fyrir að hinar þrjár, gleymda söng­konan Ella, fer­kantaði stílistinn Ey­dís og kvíðna og á­taka­fælna leik­skóla­stýran Stein­gerður láta Írisi draga sig í slökunar- og skemmti­ferð í nýja sumar­bú­staðinn hennar. Fimmta hjólið undir þessari gleði­lest sem brunar drekk­hlaðin á­fengi út í sveit er svo sjálfs­hjálpargúrú Írisar og við­skipta­fé­lagi í á­hrifa­valda­bransanum, heilunar­hippinn Sif.

Betri getur tíðin ekki orðið …

Sumar­bú­staða­ferð sauma­klúbbs kvenna á besta aldri með ýmsar gamlar syndir og ó­upp­gerð mál í skottinu er upp­lögð um­gjörð fyrir létt­leikandi gaman­mynd eins og Sauma­klúbbinn. Ekki síst þegar Ragga Gísla og Stuð­menn gefa tóninn og brunað er út úr bænum með Bráðum kemur ekki betri tíð á fullu blasti.

Því betri getur tíðin, því betri getur tíðin ekki orðið. Eða því sem næst, því þótt ferðin gefi ýmis fyrir­heit eru holur og brekkur á leiðinni þannig að myndin hefði hæg­lega getað endað alveg úti í móa ef jafn öflugra og skemmti­legra leik­kvenna og Eddu Bjargar, Arn­dísar Hrannar, Elmu Lísu, Jóhönnu Vig­dísar og Helgu Brögu nyti ekki við, til þess að gæða mátu­lega klikkað per­sónu­galleríið lífi og fleyta brokk­gengri sögunni yfir erfiðustu kaflana.

Fimm fræknar

Jóhanna Vig­dís smell­passar í hlut­verk Írisar sem heldur sundur­leitum vin­konu­hópnum saman um leið og hún gætir þess vand­lega að hún er aðal og sú eina sem hefur tekist að láta sam­fé­lags­miðla­drauminn um full­komið líf rætast.

Edda Björg hefur, eins og alltaf, ekkert fyrir því að vera fyndin, án þess þó að slíta tragíska taugina í fiðrildinu Ellu sem hefur alltaf haft smekk fyrir eldri mönnum og situr því uppi með ör­vasa gamal­menni þar sem há­punktur hjóna­lífsins er að horfa saman á Barna­by ráða gátuna.

Arn­dís Hrönn Egils­dóttir hefur verið á há­flugi síðan hún brilleraði í Héraðinu fyrir ör­fáum árum og gerir hér leik­skóla­kennaranum Stein­gerði, sem er að bugast á kaótískri til­verunni, á­takan­lega fyndin skil.

Tildur­rófan Ey­dís, sem hinum vin­konunum reynist sér­lega auð­velt að láta stuða sig, er svo lík­lega erfiðasta per­sónan í Sauma­klúbbnum. Hún er líka ekki öll þar sem hún er séð í kulda­legri til­gerðinni sem hún flýtur á í krafti þess búa í Mílanó og að hafa helgað líf sitt tísku­bransanum.

Per­sóna Ey­dísar er dá­lítið á skjön við hinar, þar sem hún á hvorki mikla sam­úð inni hjá vin­konunum né á­horf­endum en Elma Lísa situr svo vel í hlut­verkinu að henni tekst að gera Ey­dísi ó­þolandi, fyndna og sorg­lega í senn og meira að segja vekja sam­úð með henni, þrátt fyrir að hand­ritið og per­sónu­sköpunin vinni bein­línis gegn því.

Kynjað klisju­grín

Sauma­klúbburinn er ná­skyld karl¬punga­myndinni Síðasta veiði­ferðin, sem sló verð­skuldað í gegn í fyrra. Fram­leið­endurnir eru þeir sömu og því um ein­hvers konar systur­mynd að ræða og margt er líkt með skyldum.

Báðar eru þær ein­faldar gaman­myndir sem gera út á kómíkina í kynjuðum klisjum án þess að taka sig of há­tíð­lega og báðar hvíla þær fyrst og fremst á þéttum og sam­stilltum hópi leikara annars vegar og önd­vegis leik­kvenna hins vegar.

Belgingur, stæri­læti og eitruð karl­mennska buðu upp á heil­mikið húllum­hæ og grá­glettið grín í Síðustu veiði­ferðinni og ætla mætti að klisju­kenndar kvenna­krísur væru jafn­vel enn safa­ríkari upp­spretta að­hláturs­efnis með nettum á­deilu­broddi.

Slík er enda raunin framan af og Sauma­klúbburinn fer hressi­lega af stað á meðan per­sónunum er stillt upp og grínið er dýpkað með heimilda­mynda­legum ein­ræðum per­sónanna sem skerpa á­taka­línurnar milli vin­kvennanna og rétt eins og hjá körlunum í fyrra þolir vin­konu¬hópurinn illa á­fengis­mengaða nándina í sumar­bú­staðnum þannig að gömul sár ýfast upp og draugar for­tíðar ríða húsum þannig að hriktir í stoðum sauma­klúbbsins.

Brokk­gengt flipp

Eftir vel heppnað mið­aldra­hrútagrín Síðustu veiði­ferðarinnar er bæði borð­leggjandi og frá­bær hug­mynd að endur­taka leikinn með konum í alls konar krísum. Því miður virðist þó hafa verið lagt upp í þessa sumar­bú­staða­ferð af öllu meira kappi en for­sjá þar sem hand­ritið er veikasti hlekkurinn.

Sauma­klúbburinn er því fyrst og fremst leik­konurnar og líður helst fyrir handa­hófs­kennda og köfl­ótta at­burða­rás þótt stelpurnar séu í bana­stuði og flippið á köflum bráð­fyndið og sniðugt.Eftir góða byrjun tvístrast laus­beisluð sagan í alls konar áttir sem vekja fleiri spurningar en svör þar sem sú stærsta er í raun hvers vegna í ó­sköpunum þessar ó­líku konur hafa haldið saman í gegnum öll þessi ár, þrátt fyrir að því er virðist djúp­stæða and­úð ef ekki bein­línis ill­vilja í garð hverrar annarrar?

Þó er rétt að halda því vand­lega til haga að hláturinn í salnum mældist yfir meðal­lagi og Sauma­klúbburinn er í raun alveg á­gætis gaman­mynd sem rennur út í heldur ó­dýrar lausnir og sveppa­hala­sósu með til­heyrandi tóm­leika­til­finningu og grun um að fín hug­mynd hefði getað orðið miklum mun betri með að­eins meira nostri við sögu­þráð og per­sónu­sköpun. n

Niður­staða: Úr­vals­leik­konur í góðum grín­gír taka hressi­lega spretti í rót­lausri gaman­mynd sem dugir þó því miður ekki til þess að Sauma­klúbburinn haldi dampi alla leið og í lokin klæjar svo­lítið undan til­finningunni að góð hug­mynd hefði getað orðið mun betri.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR