Vinur minn Árni Óli er dáinn. Hrifinn burt í blóma lífsins. Hann skilur eftir sig eiginkonu og ungan son, móður, bróður, ættingja og vini í sárum.
Dauði Árna var sviplegur. Ég hafði hitt hann í Bónus í byrjun árs og við höfðum ákveðið að láta nú loks verða af því og fá okkur kaffi. Þetta hafði oft verið viðkvæðið á seinni árum eftir að við stofnuðum okkar eigin fjölskyldur en nú vorum við staðráðnir. Árni hringir svo í mig snemma í febrúar til að festa daginn. Ég er í leikhúsinu að æfa og segi honum að næsta vika sé betri því þá sé ég kominn á kvöldæfingar. Næsta vika rennur upp og ég sendi Árna skilaboð. Ekkert svar. Svo kemur svarið. Árni er kominn með krabbamein og fáeinum vikum síðar er hann dáinn. Úff. LÍfið er núna. Og við sem vorum að fara að skipuleggja framtíðina…..
Áfallið er hroðalega mikið. Við höfum misst einn okkar besta mann. Ísland hefur misst mikið. Heimurinn allur. Svona menn eins og Árni eru sko ekki á hverju strái.
Ármi var þvílíkur hugsjónamaður, svo næmur listamaður og svo stórkostlegur mannvinur að það náði langt út fyrir allt sem getur talist normalt. Hann vildi breyta heiminum og hann breytti honum. Hann var “all in” í öllu sem hann gerði. Ég sakna hans svo hræðilega og á svo bágt með að hætta að gráta örlög hans.
Ég á Árna svo ótal margt að þakka. Árni kenndi mér að láta vaða. Do or die. Láta verkin tala. “Steini minn ef við getum ekki gert bíómyndirnar sem okkur dreymir um þá skulum við að minnsta kosti lifa þær”. Við Árni vorum góðir vinir. Trúnaðarvinir og félagar í listinni. Og við létum oft vaða. Eitt af því fyrsta sem við gerðum saman var að halda námskeið í kvikmyndaleik löngu áður en við vissum sjálfir hvernig ætti að kenna slikt. Við vissum bara hvað við vildum ekki. Svo það var um að gera að gera bara tilraunir og reyna að finna útúr þessu. Learn by doing. Viljinn fyrir verkið. Það var mottóið. Láta verkin tala. Við vorum báðir dramatískir í eðli okkar og allt sem við gerðum varð einhvern veginn epískt.
Ég heimsótti Árna til Póllands um miðjan tíunda áratuginn þar sem hann hírðist inni á heimavist í einhverjum virtasta kvikmyndaskóla heims en skólinn hafði þá látið talsvert á sjá. Ég man að hárið stóð stíft af skít eftir sturtuna þarna en atmosið var sterkt. Listin lá í loftinu og þjáningin hvíldi í jörðu og í brjóstum mannanna. Árni var nýbyrjaður í náminu sem nota bene fór fram á pólsku en pólskuna þurfti Árni að læra frá grunni. Hann hafði þegar þarna var komið við sögu lfað á kartoni af íslenskum Tópas í heilan mánuð vegna þess að námslánin stóðu eitthvað á sér heima á Íslandi og ég kom færandi hendi með harðfisk og brennivín svo drengurinn fengi nú einhverja næringu í kroppinn.
Viku seinna sendi Árni mig heim í gamlli Lödu áleiðis til Varsjár með flösku af Zubruwka, hundrað dollara seðil fyrir farinu og litla Say it in Polish vasabók í farteskinu svo ég næði nú að bjarga mér á 3 tíma farðalagi í gegnum pólsk sveitahéruð með stórvaxinn mann með þykkt yfirskegg og derhúfu við stýrið.
Þegar heim var komið keypti ég pólskan lingvafón og horfði 3 sinnum í rikk á Schindlers list og grét. Svona vorum við dramatískir og epískir.
Seinna sagði Árni mér einhverja stórkostlegustu ástarsögu sem ég hafði á ævinni heyrt en þá hafði hann hitt Mörtu. Hún flutti að endingu til Íslands og þau eignuðust sonin Iwo. Ég hafði þá fyrir löngu gefist upp á pólska lingvafóninum en hafði lært nóg til að slá um mig á pólku í brúðkaupinu þeirra sem að sjálfsögðu var haldið í félagsmiðstöðinni Kramhúsinu sem rekið var af móður Árna og var ávallt einskonar skálkaskjól listamanna í Reykjavík. Og auðvitað voru hljóðfæraleikarar og diskar mölvaðir og gleðigrátur fram undir morgun.
Það var líka mikið gæfuspor fyrir mig þegar ég réði mig sem runner í fyrstu bíómynd Árna. Blöðbönd. Það verkefni markaði vatnaskil í mínu lífi. Ég hafði verið leikhússtjóri á Akureyri en missti áhugann á því, langaði í eitthvert fútt í lífinu og hringdi í Árna. Árni sagðist gjarnan vilja hafa mig með. Það var nóg fyrir mig. Það var búið að ráða í allar stöður í myndinni en ég hringdi í framleiðandann og spurði hvort það vantaði ekki einhvern til að hella upp á kaffi. Ég keypti svo nýja strigaskó daginn eftir, flutti suður og “hljóp” fyrir Árna í rúman mánuð.
Og nú langar mig enn á ný að “hlaupa” fyrir Árna. Fjölskyldan hans á bágt núna og ég veit að allur stuðningur er vel þeginn. Dauðinn gerði ekki boð á undan sér.
Það er til styrktarsjóður og hér er númerið:
Arion: 0372-13-112797
kt. 120868-5789
Ég biðla til allra sem geta látið eitthvað af hendi rakna að gera það. Látum verkin tala í minningu manns sem brann fyrir mennskt samfélag og bræðralag manna og kvenna hér á jörð.