[Stikla] GÓÐI HIRÐIRINN frumsýnd í Bíó Paradís

Heimildamyndin Góði hirðirinn eftir Helgu Rakel Rafnsdóttur verður frumsýnd í Bíó Paradís á fimmtudag. Hún fjallar um bílhræjasafnara á Garðstöðum í Ögurvík á Vestfjörðum.

Fjallað er um myndina í Lestinni á Rás 1 og rætt við leikstjórann:

Á fimmtudag verður frumsýnd í Bíó Paradís heimildarmyndin Góði hirðirinn sem er eins konar lifandi póstkort frá Garðstöðum þar sem Þorbjörn Steingrímsson býr. Þar eru hátt í sex hundruð bílhræ, hálfgerður bílakirkjugarður sem blasir við frá veginum og hefur lengi vakið forvitni ferðalanga.

Myndin veltir upp spurningum um manneskjuna, umhverfi og fagurfræði á afskekktum stað sem sumir sjá sem ævintýraland á meðan aðrir býsnast yfir draslinu. Helga Rakel Rafnsdóttir er sjálf að vestan og ver miklum tíma þar um slóðir. Hún hefur oft keyrt fram hjá bílhræjunum og lengi langað að vita meira um staðinn en hugmyndin að heimildarmyndinni kviknaði árið 2009. „Landslagið fyrir vestan er stórbrotið en akkúrat í Ögurvík er það pínu döll, það sem umlykur víkina þar sem þessi bílakirkjugarður er,“ segir Helga. Staðurinn sé ævintýralegur og draslaralegur í senn og skiptar skoðanir eru um bílahauginn. „Ýmist fer þessi haugur mikið fyrir brjóstið á fólki, sem ég skil svo sem alveg líka, eða að fólk heldur mikið með honum,“ segir Helga Rakel. Margir dáist að Þorbirni, safnaranum, því hann sé erkitýpa og íslensk hetja sem gerir það sem honum sýnist í eigin landi.

Sjálf kann Helga Rakel vel að meta hauginn og finnur fyrir hlýju og nostalgíu á Garðstöðum. „Ég er alin upp á sveitabæ, átti afa sem var afar virkur og svolítið úti um allt.“ Á lóð afa hennar voru bílhræ, traktorar og lyktin á Garðstöðum af bílum að veðrast vekur upp róandi áhrif hjá henni. „Mér finnst ofsalega gaman að hanga þarna og vera með myndavélina.“

Þorbjörn var á fermingaraldri þegar hann byrjaði að safna bílhræjum.
Gerð myndarinnar tók meira en fimm ár með hléum. Íbúar á Garðstöðum opnuðu sig heldur ekki um hæl og Helga Rakel tók sér tíma í að vinna sér inn traust þeirra. „Fólk gerir sér aldrei grein fyrir hvað það er að fara út í þegar það samþykkir svona,“ segir hún.

Það hafi unnið með henni í samskiptum við íbúa að hún er sjálf að vestan en hún hefur líka tileinkað sér ákveðna kúnst sem mikilvægt er að þekkja í heimildarmyndagerð, kúnstina að nálgast fólk á réttan hátt. „Það er að eiga í samskiptum við fólk, sýna fólki virðingu og læra að kynnast því. Gefa sér tíma.“

Í fyrstu heimsóknum sínum lét hún sér nægja að skoða sig um og taka myndir og kveðja svo. „Mér var ekkert boðið í kaffi strax, það var ekki fyrr en ég kom í þriðja skiptið,“ segir Helga Rakel. Áður en tökum lauk var hún hins vegar orðin aufúsugestur á bænum og fékk að gista og nota heita pottinn. „Maður þarf bara að gefa þessu tíma, það er eitt öflugasta tækið í kvikmyndagerð,“ segir hún.

Spurningunni hvaðan þessir bílhræin koma og hvers vegna þeim sé safnað saman á þessum stað segir Helga Rakel hyggilegast að spyrja ábúandann sjálfan og fjölskyldu hans. „Þau verða að svara því sjálf. Það sem ég geri er að miðla stanum eins og ég upplifi hann þannig að það gangi upp sem kvikmynd,“ segir hún.

Íbúar á Garðstöðum eru vanir því að fólk stoppi þegar það sér bílahauginn skoði sig um. Helga viðurkennir það en kveðst alls ekki vilja auglýsa staðinn sem ferðamannastað því hún veit að íbúar verða oft þreytt á áganginum. „Það fer held ég eftir dagsforminu á þeim, stundum eru þau til í það en stundum ekki. En vissulega hefur þessi staður mikið aðdráttarafl.“ Sjálf þreytist Helga ekki á að ganga þarna um og virða fyrir sér það sem fyrir augu ber. „Ég hef farið með dætur mínar þangað og leyft þeim að príla. Þetta er auðvitað ekki vottaður leikvöllur en við höfum gaman að því,“ segir hún.

Í myndinni ber meira á umhverfishljóðum, fuglasöng og málmi að berjast saman en töluðu máli. Helga segir að það sé einkennandi fyrir staðinn. „Það er þögn og mikill fuglasöngur, drunur í bílum í fjarska og svo er verið rífa allt í sundur,“ segir hún. „Svo er ég bara að miðla minni upplifun af staðnum. Þetta er minn stíll og allskonar sem hefur áhrif.“

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR