Dagur Kári minnist Árna Óla

Dagur Kári Pétursson minnist vinar síns og kollega Árna Ólafs Ásgeirssonar í eftirfarandi pistli sem hann birti fyrr í kvöld á Facebook síðu sinni.

Elsku Árni Óli hefur kvatt þennan heim. Það er óraunverulegt og raunverulegt í senn, hann stendur mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum; stríðnislegt brosið, smitandi hláturinn, hlýjan og mennskan. Vináttan. Við vorum alltaf á leiðinni að hittast í kaffi, en trössuðum það og nú er það orðið of seint. Við fáum ekki annað tækifæri. Í þeirri staðreynd er fólginn kaldur sársauki en jafnframt lærdómur sem vonandi fylgir manni áfram í þessu lífi – áminning um að ekkert er sjálfgefið og sérhver dagur dýrmæt gjöf.

Leiðir okkar Árna Óla lágu saman á menntaskólaárunum fyrir milligöngu Róberts Douglas. Ég hafði þá nýverið kynnst Robba sem fram að því hafði verið ákveðin ráðgáta, ráfandi með veggjum Menntaskólans við Hamrahlíð, tággrannur og fölur, flóttalegur eins og hann væri með mjög alvarlegan glæp á samviskunni og það væri mínútuspursmál hvenær kæmist upp um hann. En við nánari kynni kom í ljós að undir yfirborði hins dularfulla einfara reyndist leiftrandi húmoristi, ástríðufullur nörd og alfræðiorðabók þegar kom að sameiginlegum áhugamálum: Kvikmyndagerð og tónlist.

Við vorum MHingar inn að beini og því var viðmótið ekki alveg laust við fordóma þegar Robbi kynnti mig fyrir vini sínum úr Versló sem ætlaði líka að verða leikstjóri. Slagorðið “you never get a second chance to make a first impression” kemur hér upp í hugann, því að hitta Árna Óla var eins og að hitta kvikmyndastjörnu: Síðhærður og fjallmyndarlegur í rifnum gallabuxum, hvítum stuttermabol með sígarettu í kjaftinum. Það eina sem vantaði uppá var að uppúr rassvasanum gægðist flugmiði til Hollywood, en fljótlega kom þó á daginn að þangað var ferðinni síður en svo heitið. Árni Óli var beintengdur inn í djúpevrópskan, listrænan sársauka og saman stofnuðum við þriggja manna kvikmyndaklúbb sem hafði aðsetur í tveggja fermetra kyndiklefa undir Kramhúsinu.

Dramatík var Árna Óla í blóð borin og hófust kvöldvökurnar á sérstöku ritúali þar sem við sórum kvikmyndagyðjunni hollustueið í kolniðamyrkri, áður en VHS spólu var skellt í tækið og við húktum tímunum saman yfir meistaraverkum kvikmyndasögunnar með bjór í hendi. Allir áttum við drauma um að verða sjálfir leikstjórar og mynduðum bandalag gegn hverfandi líkum og heilbrigðri skynsemi.

Árni Óli hlýtur að vera ofarlega á lista yfir mestu miðbæjarrottur allra tíma enda nánast alinn upp í Kramhúsinu sem móðir hans Hafdís starfrækir á horni Bergstaðastrætis og Skólavörðustígs. Algert flæði virtist vera á milli dansstúdíósins og heimilisins og að koma til Árna Óla var eins og að stíga inn í aðra vídd; maður var skyndilega ekki lengur í Reykjavík heldur staddur í bóhemhöfuðstöðvum Parísar, Berlínar eða Rómar. Ég minnist þess ekki að útidyrahurðin hafi nokkurn tímann fallið að stöfum; stöðugt streymi gesta og gangandi flæddi í gegnum heimilið og þó svo að maður kæmi með þeim ásetningi að reka rétt svo inn nefið, þá endaði það oftar en ekki í impróvíseruðum kvöldmáltíðum sem síðan þróuðust út í partí og stuð langt fram á nótt þar sem ólíkar kynslóðir sameinuðust í gífurlegri stemmningu sem jafnframt var algerlega áreynslulaus. Maður hafði á tilfinningunni að veröld Árna Óla takmarkaðist við Skólavörðustíg, Laugaveg og hugsanlega Hverfisgötu og það rennir stoðum undir þann grun að þegar ég tilkynnti honum eitt sinn að ég væri fluttur í Garðastræti, þá hafði hann ekki hugmynd um hvar það var, enda langt fyrir utan hans radíus.

Eftir menntaskóla lágu leiðir í ólíkar áttir. Robbi hélt til Norður Írlands en flosnaði uppúr námi, snéri heim og gekk hreint til verks með tímamótaverkinu “Íslenski Draumurinn”. Ég flutti til Kaupmannahafnar og hóf nám við Danska kvikmyndaskólann en Árni Óli réðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur heldur fékk inngöngu í hinn virta kvikmyndaskóla í Lodz – kolsvartri iðnaðarborg í hjarta Póllands.

Þetta var fáum árum eftir fall kommúnismans og andstæðurnar voru áþreifanlegar; á meðan ég flaut eins og korktappi í öldugjálfri skandinavískrar velferðar virtist sem Árni Óli væri að troða marvaðann í ólgusjó austurevrópskrar ringulreiðar sem einkenndist af hráslagalegum heimavistum, lélegri næringu og martraðakenndu skrifræði. Og það gekk á ýmsu: Einn daginn vaknaði hann heyrnarlaus á öðru eyra, það var skotið á hann með skammbyssu og hann datt á glerborð með þeim afleiðingum að handleggurinn skarst illa, taugar tvístruðust og í klóm pólsks heilbrigðiskerfis þess tíma stefndi allt í að hann myndi missa útlim líka. Úr varð að hann flúði til Kaupmannahafnar og bjó hjá mér um tíma á meðan danska velferðarkerfið hlúði að sárum hans. Þegar ég tók á móti honum var hann vannærður og fölur og í rifnum fötum – það var eins og hann væri að koma úr tímavél sem hefði fleytt honum úr kreppuárum til nútímans. Fyrsta kvöldið fórum við út á lífið og á miðri göngu um miðbæ Kaupmannahafnar stansaði Árni Óli skyndilega, algerlega agndofa og sagði “Vá, það er fólk á ferli hérna! Það er ljós í gluggunum!” En með bættu matarræði og almennri aðhlynningu færðist fljótt roði í kinnarnar og land tók að rísa.

Síðar ætlaði ég að koma Árna Óla á óvart með heimsókn til Lodz. Ég keypti flugmiða en fékk svo bakþanka; ég gæti ekki bara farið til Póllands án þess að gera boð á undan mér. Þetta var fyrir tíma farsíma og tölvupósts og ég reyndi dögum saman að ná sambandi en allt kom fyrir ekki: Árni Óli var horfinn af yfirborði jarðar, vinir hans höfðu ekki séð hann, skólinn ekki heldur. Á endanum neyddist ég til að hætta við fyrirhugaða ferð og þegar hann loksins hringdi, mörgum dögum síðar kom í ljós að hann hafði kynnst stúlku sem reyndist vera ástin í lífi hans, Marta.

Á endanum tókst okkur öllum að láta draumana úr kyndiklefanum rætast og við studdum hvorn annan í harkinu, ýmist sem aðstoðarleikstjórar, handritsráðgjafar eða handritshöfundar hvers annars. Ég man að ég lét það stundum fara í taugarnar á mér að Árni Óli hóf jafnan gagnrýni sína á þeim orðum að þetta væri náttúrulega ekki meistaraverk. Þótt það væri vissulega óþægilega satt, fannst mér óþarfi að slá þessa varnagla en þetta var á ákveðinn hátt dæmigert fyrir þá auðmýkt sem einkenndi Árna Óla. Hann bar ómælda virðingu fyrir þeim sem höfðu rutt brautina á undan okkur og hreinlega öllu sem lifði og bærðist.

Samverustundum fækkaði í takt við vaxandi umfang fjölskyldulífs en tengingin var þó ávallt til staðar þegar við hittumst. Vináttan var hrein og tær og órjúfanleg – faðmur Árna Óla stóð ávallt opinn og knúsinu fylgdi iðulega rembingskoss á kinn.

Ég sakna þín Árni Óli og ég hugsa til elsku Mörtu, Iwo, Hafdísar, Ingós og annarra aðstandenda sem sjá á eftir einstakri manneskju og ástvini.

Dagur Kári Pétursson
Dagur Kári Pétursson
Höfundur er kvikmyndaleikstjóri.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR