Eini nándarþjálfinn á Íslandi

„Það vill enginn lenda í óþægilegri stöðu. Það er heldur enginn að reyna það en það getur allt gerst ef það er ekki hugsað út í þessa hluti,“ segir Kristín Lea Sigríðardóttir, sem tekið hefur að sér að leiða unga sem aldna leikara í gegnum viðkvæmustu senurnar á tökustað. Anna Marsibil Clausen ræddi við hana í Lestinni á Rás 1.

Á vef RÚV segir:

Kristín Lea Sigríðardóttir hefur gengið í ýmis störf innan kvikmyndageirans. Hún er leikkona og rekur fyrirtæki sem sér um leikaraval ásamt eiginmanni sínum en einnig hefur hún tekið að sér umsjón með kynlífsatriðum í kvikmyndum.

Kristín Lea tók að sér leikþjálfun í Hjartasteini, fyrstu kvikmynd leikstjórans Guðmundar Arnars Guðmundssonar. Þegar Guðmundur hóf tökur á sinni annarri kvikmynd, sem nefnist Berdreymi, hafði framleiðsluteymið heyrt af Itu O‘Brien, sem er forsprakki þess sem á ensku kallast „intimacy coordination“ en þýtt hefur verið sem nándarþjálfun. Í Berdreymi er erfitt atriði með tveimur unglingsdrengjum og var ákveðið að Kristín Lea tæki að sér sér að leiða ungu leikarana í gegnum atriðið. Hún fór í framhaldi af því á námskeið hjá O‘Brien og svo „beint í djúpu laugina í tökur“.

Nándarþjálfun er sprottin af #metoo-hreyfingunni, segir Kristín Lea. „Það er Harvey Weinstein sem kemur þeim bolta af stað eins og flestir þekkja. Þá er kallað eftir breytingum og sérstaklega þar sem að þetta sprettur út úr kvikmyndabransanum þá þurfti að gera eitthvað þar. Allir sem ég hitti í vinnunni veltu fyrir sér af hverju þetta hefði ekki komið fyrr. En sem betur fer er þetta komið núna.“

Vandmeðfarið atriði með leikurum undir lögaldri

Það hafa heyrst sögur af því í gegnum tíðina þegar farið hefur verið yfir mörk leikara. „Maður hefur alveg heyrt því miður af nokkrum atvikum,“ segir Kristín Lea en það sé mikill vilji innan stéttarinnar um að bæta vinnuumhverfið hvað þetta snertir. „Þetta er ekki bara gott fyrir leikara, heldur fyrir framleiðsluna og leikstjóra líka. Það vill enginn lenda í óþægilegri stöðu. Það er heldur enginn að reyna það en það getur allt gerst ef það er ekki hugsað út í þessa hluti.“

Mynd með færslu
Guðmundur Arnar Guðmundsson með leikurum við tökur á Berdreymi. | Mynd: Join Motion Pictures.

Kristín Lea er bundin trúnaði og getur því ekki úttalað sig um allar hliðar á tilteknu atriði í kvikmyndinni Berdreymi. „En það var sem sagt erfið sena þar sem það var ekki samþykki fyrir kynlífi í atriðinu. [Drengirnir] voru undir lögaldri þannig að þetta var mjög vandmeðfarið.“

Áður en atriðið var tekið upp hafði hún verið með leikarana í ströngu æfingaferli í nokkra mánuði. „Þannig að það lá best við að ég tæki þetta að mér. Ég fór eiginlega óvart út í þetta einhvern veginn,“ segir hún. Þau æfðu atriðið stíft og á tökudeginum sjálfum var tryggt að einungis nauðsynlegt starfslið var viðstatt og allir skjáir lokaðir.

Vélrænar æfingar fyrir líkamsminnið

„Æfingaferlið er skemmtilegt og öðruvísi,“ segir hún. „Við byrjum á að funda með leikstjóra út frá því hvað hann vill gera og hvað hann sér fyrir sér. Þar fæ ég öll smáatriði frá honum, hvað sést, hvaða tilgangi þjónar senan, og svo get ég miðlað því til leikaranna.“

Áður en eiginlegar æfingar hefjast fær hún svokallaðan skotlista, eða „storyboard“ þar sem hún getur séð hvernig atriðið er uppsett. „Við byrjum á því að setja upp senuna, þar sem við löbbum í gegnum hana, setjum hana síðan í orð og þá er farið líka yfir öll mörk og samþykki og hvað má snerta. Við erum ekkert að nota feluorð, við þurfum að tala eins og hlutirnir eru. Eftir það förum við í „róbótaæfingu“, þar sem við göngum í gegnum senuna, þegar við til dæmis snertum öxlina á hinum eigum við að segja hvað við finnum.“

Þetta kann að hljóma skringilega en Kristín Lea segir að þetta sé til þess að gert að festa líkamsminnið inn í eins konar dans. „Við gerum þessar hreyfingar aftur og tölum út frá karakternum og hvernig honum líður. Á þessum tímapunkti erum við aldrei að sýna tilfinningar eða leika, þetta er allt vélrænt. Það er engin snerting sem er ekki leyfileg og enginn eiginleg nánd þannig séð. Síðan gerum við þetta einu sinni eða tvisvar, eftir aðstæðum, og förum í tökur ef allt gengur vel.“

Hætta á slysum ef atriði eru ekki undirbúin

Tilfinningalegi leikurinn fer svo ekki fram fyrr en í tökunum sjálfum. „Það er mjög mikilvægt. Við viljum halda líkamlegu minninu, uppleggið er það í grunninn. Þetta er alveg eins og að fara í bardagasenu. Ef þú ert ekki með einstakling sem býr til bardagasenuna þá endar það með að einhver meiðir sig, fær blóðnasir eða brýtur bein. Þetta er nákvæmlega eins. Þú þarft að leggja þetta niður skref fyrir skref, annars getur eitthvað farið úrskeiðis eða eitthvað gerst.“

Kristín Lea segir að fyrirkomulagið sé komið til að vera. Hún er eini starfandi nándarþjálfinn á Íslandi enn sem komið er en vonar svo verði ekki lengi. „Þetta eru ekki bara kynlífssenur, heldur líka ef það er einhvers konar nekt og berskjöldun. Þetta er komið til að vera og það er gríðarleg eftirspurn, ég finn það. Vonandi fara fleiri út í þetta. Þetta er að mótast hérna á Íslandi, það þarf að sjá hvernig þetta fer.“

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR