Baldvin Z undirbýr þáttaröð um Vigdísi forseta

Baldvin Z vinnur nú að gerð fjögurra þátta sjónvarpsseríu um ævi Vigdísar Finnbogadóttur fyrrverandi forseta Íslands. Verkefnið hefur verið lengi í bígerð en Klapptré sagði fyrst frá slíkum fyrirætlunum 2014.

Á vef RÚV segir um þetta:

Ætlunin er að þáttaröðin hverfist um ævi Vigdísar frá unglingsárum þar til hún var kjörin forseti árið 1980.

Baldvin Z segir hugmyndina að því að fjalla um ævi Vigdísar hafi kviknað hjá leiklistarhópnum Vesturporti fyrir nokkrum árum og að framleiðslufyrirtækið Glass River hafi komið að verkinu fyrir tveimur árum.

Nína Dögg Filippusdóttir leikur Vigdísi á fullorðinsárum en Baldvin segir ekki enn ákveðið hver túlki hana á menntaskólaárunum. Björg Magnúsdóttir, Jana María Guðmundsdóttir og Ágústa Ólafsdóttir skrifi handritið og hafi legið í mikilli rannsóknarvinnu undanfarin ár.

Baldvin segir enn mikið verk óunnið en kveðst vonast þó til að ekki líði of langur tími uns þáttaröðin verði frumsýnd. Nú sé unnið hörðum höndum að fjármögnun því tímabilamynd af þessu tagi kosti mikla peninga.

Hann segir RÚV vera aðalkaupandi þáttana á Íslandi og að þeir sé framlag þess til N12-samstarfs Norræna sjónvarpsstöðva.

Verkefnið verður kynnt á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg snemma í febrúar. Á vef Variety er greint frá því að í þáttaröðinni verði fylgst með því hvernig Vigdís tókst á við feðraveldið á Íslandi og tókst að verða fyrsti lýðræðislega kjörni kvenkynsforsetinn í heiminum.

Þar er haft eftir Baldvini að nú sé rétti tíminn til að segja sögu Vigdísar og Nína Dögg segir Vigdísi hafa stutt sig með ráðum og dáð. Vigdís hafi einnig haft hönd í bagga með að velja Nínu í hlutverkið.

Baldvin sem hefur gert fjölda kvikmynda og sjónvarpsþáttaraða, þeirra á meðal Lof mér að falla frá árinu 2018 og Vonarstræti frá 2014, segir í samtali við fréttastofu að Vigdís sjálf skilji ekkert skilja í öllu þessu umstangi.

Hann segir Vigdísi hafa velt fyrir sér hvað geti verið nægilega merkilegt við sögu hennar til þess að hún nái að rata í sjónvarpsþáttaröð.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR