spot_img

Franska kvikmyndahátíðin bæði í Bíó Paradís og heimabíóinu

Franska kvikmyndahátíðin fer fram í tuttugusta og fyrsta sinn dagana 4.- 14. febrúar í Bíó Paradís. Hluti myndanna verður einnig í boði á efnisveitunni HeimaBíó Paradís. Opnunarmyndin er Sumarið ’85 (Été 85) eftir François Ozon.

Það er franska sendiráðið á Íslandi og Alliance Française  í samstarfi við Institut français sem halda hátíðina.

Sumarið ’85 (Été 85) átti upphaflega að vera sýnd á Cannes hátíðinni í fyrra sem var aflýst en fór svo í almennar sýningar í Frakklandi síðasta sumar. Myndin er byggð á bók eftir breska höfundinn Aidan Chambers frá 1982 sem heitir Dance on My Grave en í stað þess að eiga sér stað á suðurströnd Englands færist sögusviðið til Normandíhéraðs í Frakklandi. Hinn sextán ára gamli Alexis lendir í bátaslysi og er næstum því drukknaður áður en honum er bjargað af hinum myndarlega átján ára gamla David. Með þeim tekst ástríðufull vinátta sem á eftir að hafa ófyrirséðar afleiðingar fyrir þá báða.

Önnur áhugaverð mynd er Sannleikurinn (La Vérité)  eftir japanska leikstjórann Hirokazu Koreeda (Shoplifters). Myndin var tilnefnd til Gyllta ljónsins og í henni leika stórleikonurnar Catherine Deneuve og Juliette Binoche í fyrsta sinn á móti hvorri annarri. Þetta er ljúfsárt drama um brothætt samband mæðgna.

Klassíska myndin að þessi sinni er Gullni hjálmurinn (Casque d’Or) eftir Jacques Becker frá 1952 sem fjallar um ástarsamband persóna leiknum af Simone Signoret og Serge Reggiani.

Dagskrá og upplýsingar um myndir má skoða hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR