Heim Bíó Paradís Bíó Paradís vinnur að stofnun eigin streymisveitu

Bíó Paradís vinnur að stofnun eigin streymisveitu

-

Bíó Paradís (mynd RÚV).

Í dag hefst norræn kvikmyndaveisla í Bíó Paradís í tilefni af kvikmyndaverðlaunum Norðurlandaráðs. Hægt verður að nálgast allar tilnefndar myndir á vef kvikmyndahússins en þar er unnið hörðum höndum að því að koma á fót streymisveitu.

RÚV greinir frá:

Bíó Paradís opnaði aftur um miðjan september og hefur staðið opið þrátt fyrir hertar samkomutakmarkanir. Sýningum hefur verið fækkað og færri miðar seldir á hverja sýningu. „Það er svolítið skrýtið að vera með opið bíó þegar það er 20 manna fjöldatakmark en við höfum ákveðið að láta það ganga,“ segir Áslaug Torfadóttir, dagskrárstjóri Bíó Paradísar.

Til að koma til móts við kvikmyndaunnendur sem sjá sér ekki fært að fara í bíó, eða komast einfaldlega ekki að, stendur til að bjóða upp á sýningar á vef kvikmyndahússins. „Við vinnum að því hörðum höndum að stofna eigin streymisveitu þannig að allar Bíó Paradís myndirnar verði aðgengilegar á síðunni okkar. Þó fólk geti ekki komið í Bíó Paradís þá geti Bíó paradís komið til þeirra.“

Í dag hefjast þar sýningar á kvikmyndum sem tilnefndar eru til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Hver mynd verður aðeins sýnd einu sinni í kvikmyndahúsi og miðaframboð er takmarkað en þær verða allar aðgengilegar á vef Bíó Paradísar frá 22. – 26. október.

Kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, Bergmál, er tilnefnd fyrir Íslands hönd. Áslaug segir hana skera sig frá öðrum tilnefndum myndum og forvitnilegt sé að horfa á hana í samanburði við þær. „Hún er ekki með línulegan söguþráð, hún er meira í heimildamyndarstíl og dregur upp svipmyndir af íslensku þjóðlífi.“

Verðlaun Norðurlandaráðs verða afhent á þriðjudaginn, 27. október, í sérstakri hátíðarútsendingu á RÚV. Norðurlandaráð veitir ár hvert fimm verðlaun til þess að vekja athygli á bókmenntum, tungumáli, tónlist og kvikmyndum Norðurlandanna ásamt nýskapandi aðgerðum á sviði umhverfismála. Fram koma meðal annarra Víkingur Heiðar Ólafsson, hljómsveitin Of monsters and men og Íslenski dansflokkurinn.

Sjá nánar hér: Bíó paradís vinnur að því að stofna eigin streymisveitu

Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri og ábyrgðarmaður er Ásgrímur Sverrisson.

NÝJUSTU FÆRSLUR

AGNES JOY framlag Íslands til Óskarsverðlauna

Kvikmyndin Agnes Joy verður framlag Íslands til Óskarsverðlauna 2021. Myndin var valin af dómnefnd Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, en í henni í sátu fulltrúar helstu fagfélaga íslenska kvikmyndaiðnaðarins, auk fulltrúa kvikmyndahúsa, gagnrýnenda og Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Framsókn vill hækka endurgreiðslur í 35% og tífalda veltu

Stór tæki­færi fel­ast í því að styðja enn frek­ar við kvik­mynda­gerð í land­inu og hækka end­ur­greiðslur af fram­leiðslu­kostnaði í 35% líkt og gert er í lönd­um sem keppa við Ísland um verk­efni, segir Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, sam­gönguráðherra og formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Íslendingar að verða undir í samkeppni um þjónustuverkefni

Leifur B. Dagfinnsson hjá Truenorth segir í viðtali við Fréttablaðið að mörg stór verkefni hafi runnið Íslandi úr greipum undanfarið og að stjórnvöld hafi ekki gert nauðsynlegar breytingar til þess að tryggja samkeppnishæfni landsins. Íslendingar séu að verða undir í alþjóðlegri samkeppni um stór kvikmyndaverkefni út af lágri endurgreiðslu íslenskra stjórnvalda til kvikmyndaframleiðenda.