Þáttaröðin RÁÐHERRANN heimsfrumsýnd á Series Mania sjónvarpshátíðinni

Ólafur Darri Ólafsson er ráðherrann í samnefndum þáttum.

Þáttaröðin Ráðherrann, sem Sagafilm framleiðir, verður heimsfrumsýnd á Series Mania hátíðinni sem fram fer í Lille í Frakklandi 20.-28. mars. Hátíðin er tileinkuð sjónvarpsþáttaröðum og er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum í dag.

Ráðherrann verður tekin til sýninga á RÚV í haust en þar fer Ólafur Darri Ólafsson með hlutverk nýkjörins forsætisráðherra Íslands sem glímir við geðhvarfasýki. Leikstjórar þáttanna eru þau Nanna Kristín Magnúsdóttir og Arnór Pálmi Arnarson en handritshöfundar eru Birkir Blær Ingólfsson, Björg Magnúsdóttir og Jónas Margeir Ingólfsson. Cineflix Rights hefur tryggt sér réttinn á dreifingu á heimsvísu en Lumiere sér um sölu til Benelux landanna.

Ráðherrann er ekki eina verkefnið á Series Mania sem Sagafilm á þátt í en samframleiðsluverkefnin Ísalög og Cold Courage voru einnig valin á hátíðina.

„Series Mania er aðalviðburður ársins í heimi framleiðslu á leiknu sjónvarpsefni þar sem yfir þrjú þúsund manns allstaðar að úr framleiðsluheiminum mæta á hátíðina. Ráðherrann er fyrsta íslenska sjónvarpsþáttaröðin sem fær þann heiður að vera heimsfrumsýnd á þessari virtu hátíð, það er afar ánægjulegt að Thin Ice og Cold Courage skulu einnig vera í keppni í sama flokki og Ráðherrann á hátíðinni sem bæði eru samframleiðsluverkefni Sagafilm Nordic,“

segir Kjartan Þór Þórðarson framleiðandi Sagafilm Nordic í Svíþjóð.

Ísalög er eitt stærsta verkefni Norðurlanda síðasta árs og dýrasta þáttaröð sem framleidd hefur verið af íslensku fyrirtæki. Þáttaröðin var tekin upp hér á landi á síðasta ári en íslenskir handritshöfundar voru þar að auki fengnir til þess að skrifa þættina. Verkefnið er samframleiðsluverkefni Yellow Bird í Svíþjóð og Sagafilm og verður sýnt í International Panorama flokknum á Series Mania. Ísalög er framleidd fyrir TV4/Cmore í Svíþjóð og norrænu streymisveituna C More, France Televisions, DR, NRK, YLE og VRT en þáttaröðin er í sýningum á RÚV á sunnudagskvöldum og var fyrsti þáttur sýndur síðastliðið sunnudagskvöld.

Auk ofantalinna verkefna verður þáttaröðin Cold Courage heimsfrumsýnd á hátíðinni en þáttaröðin er framleidd af Luminoir í Finlandi fyrir Viaplay í samstarfi við Lionsgate. Sagafilm er meðframleiðandi þáttaraðarinnar ásamt Vico Film á Írlandi og Potemkino í Belgíu. Landsmenn munu geta séð Cold Courage á vormánuðum hjá Sjónvarpi Símans.

„Það að íslenskt framleiðslufyrirtæki sé með þrjú verkefni af þessari stærðargráðu á Series Mania, er í raun ótrúlegt. Við erum gríðarlega spennt að sýna landsmönnum Ráðherrann í haust og erum mjög ánægð með viðtökurnar á Ísalögum sem sýnd eru á RÚV,“

segir Hilmar Sigurðsson, forstjóri Sagafilm.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR