Ballaða um hnignun bíóhneigðar og Bíó Paradís

Sumarið 2009 skrifaði ég grein um íslenska kvikmyndamenningu og birti í Lesbók Morgunblaðsins. Fyrirsögnin var Ballaða um hnignun bíóhneigðar. Ég var að skrifa um þann grýtta menningarlega jarðveg sem íslenskar kvikmyndir yxu úr og óskaði mér einhvers betra. Greinin velti af stað atburðarás sem í stuttu máli leiddi til stofnunar Bíó Paradísar rúmlega ári síðar. Sú saga verður betur sögð við tækifæri, en í tilefni þess vanda sem nú steðjar að Bíó Paradís endurbirti ég þessar hugleiðingar.

[divider scroll_text=““]

Ballaða um hnignun bíóhneigðar  

Eftir Ásgrím Sverrisson

Fyrir þrjátíu sumrum fóru fram upptökur á þremur íslenskum kvikmyndum, Landi og sonum, Óðali feðranna og Veiðiferðinni. Þær höfðu hlotið örlítinn styrk úr nýstofnuðum Kvikmyndasjóði en að öðru leyti höfðu aðstandendur lagt allt undir, eigur sínar og jafnvel ættingja sinna. Myndirnar voru sýndar árið eftir, hlutu gríðarlega aðsókn og byrjað var að tala um íslenska kvikmyndavorið.

Fyrstu þrjú árin eða svo flykktust Íslendingar á íslenskar myndir í massavís og settu ekki fyrir sig að borga tvö- til þrefalt verð. Eftir það dróst aðsóknin saman þó sumar myndir höluðu áfram inn svipaðan fjölda enn um sinn. Það er svo ekki fyrr en á síðustu árum að sambærilegar aðsóknartölur hafa komið aftur – þó hlutfallslega minni ef fólksfjölgun er höfð með í jöfnunni.

Myndirnar sem sýndar voru sumarið 1980 voru ekki fyrstu íslensku bíómyndirnar,t .d. hafði kvikmyndin Morðsaga verið sýnd þremur árum áður og einnig notið mikillar hylli. Þær mörkuðu hinsvegar upphafið að samfellunni í framleiðslu og sýningu íslenskra bíómynda og eru því sterkir viðmiðunarpóstar þegar íslensk kvikmyndasaga er skoðuð; nokkurskonar „fyrir og eftir“.

Hvernig staðsetur maður íslenskar kvikmyndir í menningu okkar á þessu tímabili? Hvernig hefur þjóðin innbyrt þær og unnið úr þeim? Eru þær hluti af okkar sjálfsmyndaruppleggi eða standa þær utan við það?

Fyrir nokkrum árum var ég spurður hvenær íslenska kvikmyndavorinu hefði lokið og sumarið tekið við. Mér varð hugsað til Egils Eðvarðssonar sem eitt sinn sagði í viðtali eitthvað á þá leið að hann vonaði að það færi að brátt að sumra, vorið væri yfirleitt svo fjári langt og kalt. Sjálfur sagðist ég vilja tala um árstíðirnar allar, það hefði bæði haustað og vorað margoft frá 1980 og það hefðu verið kaldir vetrar en stundum sumartíð. Hugtakið „íslenska kvikmyndavorið“ nær því fyrst og fremst að lýsa þeim anda sem ríkti á upphafsárunum; fólki sem lagði af stað í óvissuferð með bjartsýni að vopni og kaus dálítið að horfa framhjá því að þetta var varla hægt.

Hugtakið vekur einnig hugrenningatengsl við þær hræringar sem orðið höfðu í kvikmyndagerð Evrópu og víðar frá lokum sjötta áratugarins. Fyrir tilstilli manna á borð við Truffaut, Godard, Fellini, Antonioni, Bergman, Kurosawa og margra fleirri, varð sú hugmynd ríkjandi að kvikmyndaleikstjórar – fyrst og fremst þeir sem töldust höfundar eða auteurs – væru nokkurskonar sjáendur eða spámenn og að kvikmyndirnar hefðu beint og brýnt erindi við samtíma sinn. Við upphaf níunda áratugarins stóðu eftirskjálftar frönsku nýbylgjunnar enn og margir höfðu komið í kjölfarið; Bretar áttu frjótt tímabil á sjöunda áratugnum, Tékkar sömuleiðis, í Svíþjóð var ýmislegt að gerast og bæði Pólverjar og Þjóðverjar stigu eftirminnilega inn á sviðið á þeim áttunda. Nokkur fjöldi leikstjóra af öðrum þjóðernum tók einnig regluleg sóló og síðast en ekki síst höfðu þessar hræringar náð til Bandaríkjanna; margar mynda þeirra frá ofanverðum sjöunda áratugnum og langt fram á þann áttunda báru sterkan keim af þeim straumum sem léku um evrópska kvikmyndagerð. Þetta var hinsvegar allt að breytast og meira afgerandi en marga hugði.

Í þessu andrúmslofti mótuðust hinir íslensku leikstjórar upphafsáranna. Þeir höfðu flestir sótt menntun sína til ýmissa landa Evrópu allt frá sjöunda áratugnum – og/eða lagst flatir fyrir bíóhneigðinni (cinephilia) eins og til dæmis Friðrik Þór. Bíóhneigðin er afar mikilvæg í þessu sambandi. Sú hugmynd að kvikmyndin næði utan um allt kom frá hinum bíóhneigðu, því fólki sem hafði þá djúpu sannfæringu að „kvikmyndin væri listform ólíkt öllum öðrum: afar nútímalegt; sérlega aðgengilegt; ljóðrænt, dularfullt, erótískt og siðferðilegt – allt í senn“ svo vitnað sé til orða Susan Sontag í hinni frægu grein hennar Century of Cinema frá 1995, þar sem hún harmar hnignun bíóhneigðarinnar og þar með kvikmyndanna.

Já, hnignun. Um og uppúr 1980, þegar við byrjum fyrir alvöru að gera myndir, voru þessar hugmyndir á hægu en öruggu undanhaldi. Öld blokkböstera var runnin upp og með þeim krafan um skemmtigildi umfram listræna sýn. Vissulega hafa þessi sjónarmið ávallt skarast mjög þegar kvikmyndin er annarsvegar, enda stundum snúið að aðgreina þau með skýrum hætti. Það þykir allavega ekki móðins á síðari tímum þar sem hugtökin hámenning og lágmenning hafa verið afbyggð og gerð að einhverskonar merkingarleysu.

Kallið mig snobb en innst inni er ég dálítið leiður á þessari afstæðishyggju. Ég hef ekkert á móti afþreyingarmyndum, nýt þeirra oft sjálfur. En án forsendunnar um að kvikmyndin sé listform sem eigi áríðandi erindi við það sem býr innra með manninum, veslast hún upp líkt og líkami án hreyfingar. Sé kvikmyndarinnar fyrst og fremst „neytt“ sem hverrar annarrar vöru, er hún harla lítils virði. Ef ekki er til virkur hópur kvikmyndaunnenda (bíóhneigðra – hann þarf ekki að vera stór) fjarar smám saman undan þessum hugmyndum.

Það er reyndar nákvæmlega það sem hefur verið að gerast, hér sem annarsstaðar. Bíóhneigðin hefur færst útí jaðarinn, hún þykir í dag vettvangur dálítið snobbaðra og gamaldags sérvitringa sem jafnvel séu haldnir þeim grillum að kvikmyndasagan skipti einhverju máli. Stundum er hún meira að segja talin vera þessi nördagangur sem tíðkast hjá sumum gagnvart græjum, útliti og attitjúdi goðsagnafroðunnar sem Hollywood spýtir markvisst útúr sér með reglulegu millibili. Já jæja, ég er ósammála. Þetta er langtímasjónarmið. Prinsipp. Sólin rís, vindurinn blæs og guðirnir hreyfa mennina…

Semsagt; íslenskar kvikmyndir hafa „alist upp“ í umhverfi þar sem áherslur hafa sífellt meira færst til ytri þátta; aðsóknartalna, fjármögnunar, viðurkenninga, umfangs verkefna og fjölmiðlaframkomu. Á sama tíma hafa innri þættir verið vanræktir; umræður og átök um aðferðir og nálgun, fagurfræði, erindi og innihald. Ekki bætir úr skák sú algenga tilhneiging þeirra sem gagnrýna íslenskar myndir að fara um þær silkihönskum og hlaða þær oflofi  – nú eða sturta yfir þær stórkallalegum svívirðingum.  Þetta er dálítið grýttur jarðvegur fyrir hið skapandi ferli, enda er að finna í alltof mörgum okkar mynda fræ ágætra hugmynda sem ná svo ekki að blómstra. Ferli tilrauna, mistaka og endurbóta rennur of oft útí sandinn. Markvissara aðhald og dýnamískari togstreitu vantar (já ég veit, það vantar meiri pening líka).

Þetta er reyndar ekki séríslensk þróun, heldur almenn. Það breytir þó ekki því að við þurfum að glíma við stöðuna eins og hún birtist hér. Við höfum verið alveg sérstaklega sinnulítil um ræktun bíóhneigðar á þessum tíma. Bíóhneigða má vissulega finna hér en þeir eru fáir og langt á milli þeirra. Þeir eiga sér ekki samfélag nema afar takmarkað og tilviljanakennt. Gerjun samræðu um kvikmyndir, átök og fjölbreytni í skoðanaskiptum um þær markast auðvitað af þessu. Ég veit allt um það, ég er einn þeirra. Yfirleitt verð ég undrandi (en glaður) þegar ég hitti einn slíkan. Öfugt við það sem mætti ætla er til dæmis ekkert mjög marga þeirra að finna innan kvikmyndabransans. Hversvegna ekki?

Bíóhneigðir hafa varla haft vettvang síðan Friðrik Þór rak Fjalaköttinn og Háskólabíó bauð uppá mánudagsmyndir. Það var á áttunda áratug síðustu aldar. Kynslóðir hafa vaxið úr grasi síðan þá, með afar takmarkaða möguleika til að rækta með sér bíóhneigð. Við höfum ekki haft Cinematek og kvikmyndahúsin hafa að mestu leyti einbeitt sér að Hollywood. Þau reyna stundum að sýna lit en kvarta síðan yfir lítilli uppskeru. Er það nokkuð að undra þegar gleymst hefur að vökva beðið? Það segir sína sögu að vinjar íslenskra kvikmyndaunnenda eru tvær til þrjár vídeóleigur með vott af metnaði og ein bíóbúð í miðbænum, auk kvikmyndahátíðar sem nú er sem betur fer unnin af alúð eftir mörg mögur ár.

Okkur hefur vissulega tekist að búa til athyglisverðar myndir – kannski þrátt fyrir þennan grýtta svörð. Sumar þeirra hafa notið mikillar lýðhylli. Þó fær maður stundum ekki varist þeirri tilfinningu að þær hafi farið inn um annað og út um hitt. Hafa þær orðið hluti af því lexikoni sem við notum til að skilgreina okkur? Er ekki leikurinn á vissan hátt til þess gerður? Svari lesandi fyrir sig.

Þá má nefna verk sem farið hafa hjá garði en þó verðskuldað meiri athygli og íhygli. Myndir Kristínar Jóhannesdóttur, Á hjara veraldar og Svo á jörðu sem á himni, koma fyrst uppí hugann. Vissulega ekki gallalaus verk en bera með sér listrænan kjark; vogaðar tilraunir með miðilinn og möguleika hans. Ég vil ganga svo langt að fullyrða að það sé menningarlegt slys að Kristínu hafi ekki auðnast að gera fleiri myndir, ég tel hana hafa verið í hópi framsæknari leikstjóra Evrópu á sínum tíma.

Svo eru það áhrif utanaðkomandi upphefðar á aðsókn. Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór vakti litla athygli hér þar til Óskarstilnefning kom til sögu, um hálfu ári eftir frumsýningu. Löngu áður hafði Hrafn Gunnlaugsson sýnt Hrafninn flýgur við litla aðsókn. Árið eftir fékk hún lof og prís í Svíþjóð og fór aftur í sýningar hér. Þá gekk mun betur. Nói albínói eftir Dag Kára norpaði í bíósölum lengi fram eftir, en náði að lokum að hala inn tæplega tuttugu þúsund manns eftir sigurför á erlendum hátíðum með tilheyrandi fjölmiðlaumfjöllun. Urðu þessar góðu myndir á einhvern hátt betri eftir utanfarir sínar?

Fleiri dæmi mætti nefna, en einhver kann að spyrja hvort þetta sé eitthvað verra hér en annarsstaðar. Er til dæmis hægt annað en að vera sáttur með áhuga íslenskra áhorfenda á innlendum myndum þegar horft er til lengri tíma? Aðsóknartölur síðastliðin þrettán ár sýna að íslensk mynd fær að meðaltali um 18.000 gesti, eða um 6% þjóðarinnar. Slík meðaltalsaðsókn þekkist óvíða annarsstaðar. Hún felur þó þær geysilegu sveiflur sem eru í aðsókn á einstakar myndir; aðsóknarbilið er allt frá nokkur hundruð manns á eina mynd uppí tæplega 90.000 á aðra.

En vangaveltur mínar snúast ekki um þetta atriði. Við erum ein mesta bíóþjóð í heimi þegar horft er til fjölda bíóheimsókna á mann á ári. Við höfum verið það áratugum saman. En við gerum einhvernveginn lítið við það. Kannski sakna ég einhvers sem aldrei var. Einhverskonar samfélags bíóhneigðra sem sér, meltir, greinir og tjáir sig. Einhverskonar baklands íslenskra kvikmynda, því það að gera myndir og það að horfa á þær og upplifa þær er aðeins sitthvor hliðin á sama peningnum.

Susan Sontag lýsir þessu vel í niðurlagi áðurnefndrar greinar sinnar:  „Ef bíóhneigð er dauð eru kvikmyndirnar dauðar líka… og skiptir þá engu máli hversu margar myndir, jafnvel mjög góðar, verða gerðar áfram. Ef kvikmyndin á að rísa upp aftur mun það aðeins gerast í gegnum fæðingu nýrrar tegundar af bíó-ást.”

________________________________________________________

Höfundur hefur gert og fjallað um kvikmyndir í yfir þrjátíu ár. Hann er bíóhneigður. (Birtist upphaflega í Lesbók Morgunblaðsins, 11. júlí 2009, sjá hlekk).

 

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR