Morgunblaðið um „Bergmál“: Þjóð á aðventu

Rammi úr Bergmáli.

„Hún er flókin að því leyti að hún er afar merkingarþrungin, áhorfandinn kynnist mörgum ólíkum sjónarhornum og þarf að raða þeim saman,“ segir Brynja Hjálmsdóttir meðal annars í Morgunblaðinu um Bergmál Rúnars Rúnarssonar.

Brynja skrifar meðal annars:

Bergmál er bíómynd án fléttu og aðalpersónu. Myndin er eins konar stuttmyndasafn sem samanstendur af fimmtíu og átta sjálfstæðum senum. Senurnar eiga það sameiginlegt að vera kyrrstæðir rammar, þarna eru engar myndavélahreyfingar, og allar eiga senurnar sér stað í kringum jól og áramót.

Í ræðunni á undan myndinni talaði framleiðandinn um að Rúnar hefði komið til þeirra í Pegasus til að „pitcha“ myndinni og það hefði verið afar óvenjulegur kynningarfundur, þar sem hann stóð fyrir framan þau og reyndi að sannfæra þau um að það væri sniðug hugmynd að gera mynd með engri sögu og engum aðalhetjum. Einhvern veginn náði hann nú samt að sannfæra þau og eiga þau hrós skilið fyrir að taka áhættuna á svo óvenjulegu verkefni. Það kom fram að meira en 300 manns hefðu komið fram í myndinni og gestir á hátíðarfrumsýningu endurspegluðu það, þarna var alls konar fólk á öllum aldri, af ólíkum þjóðernum og þjóðfélagsstigum. Fyrir aftan mig sátu til dæmis tveir sprækir ógæfumenn, sem supu af einhverju glundri sem þeir höfðu smyglað inn í salinn, ekki algeng sjón á slíkum frumsýningum.

Fyrsta senan í myndinni sýnir sofandi bílaþvottastöð og undir hljómar hinn undursamlegi fjórði hluti úr óperunni Der Klang der Offenbarung des Göttlichen (kraftbirtingarhljómur guðdómsins) eftir Kjartan Sveinsson. Svo keyrir bíll inn í þvottastöðina og risastórar skúringartromlurnar hefja sinn ballett, í takt við tónlistina. Magnað atriði og fullkominn inngangur. Svo taka stuttmyndirnar við ein af annarri, ólíkar eins og þær eru margar. Fólk heldur jól, með fjölskyldu eða einsamalt með 1944 örbylgjumáltíð. Kjötiðnaðarmenn dansa við jólalög. Fólk hringir í ástvini í öðrum löndum. Barn fæðist. Fólk fer á áramótabrennu. Barn eru borið til grafar.

Þrátt fyrir sögurnar séu margar og óskildar er þetta ekki algjörlega laust við samhengi. Það er til dæmis viss tímalína í verkinu, fyrstu sögurnar gerast um aðventu, svo koma jól, áramót og loks nýtt ár. Þá er atriðunum raðað upp eftir þema og stemningu, á eftir harmrænu atriði kemur fyndið atriði o.s.frv.. Hér er kannski engin aðalpersóna en hins vegar er þarna aragrúi smápersóna og þegar þær koma saman verða þær í raun að einhvers konar aðalpersóna; íslenska þjóðin.

Þetta er að vissu leyti tilraunakennt verk og ég tel að mynd af þessu tagi hafi ekki verið gerð hér á landi. Þó er ekki þar með sagt að þetta sé algjör nýlunda í kvikmyndagerð. Til dæmis má sjá ákveðna snertifleti við höfundarverk Roys Anderson en hann hefur gjarnan gert myndir sem eru líkt og mosaíkverk, mörg lítil atriði sem sýna ólíkt fólk í ólíkum aðstæðum. Myndir Andersons eru reyndar leikrænni og stílíseraðri, á meðan að Bermál hefur fremur raunsæislegt yfirbragð. Sum atriðin í Bergmáli eru sviðsett, önnur eru raunveruleg, og þannig herjar myndin einnig inn á lendur heimildarmyndaformsins. Myndin gæti talist vera einhvers konar útgáfa af esseyju kvikmynd en esseyju myndin er það kvikmyndaform sem er skyldast ljóðinu. Í slíkum myndum er ekki hrein og bein saga en merkingin verður til úr samhengi atriða, texta og myndrænna þátta. Esseyju myndir fjalla líka gjarnan um ljóðræn málefni, lífið, dauðann, viðbjóðinn og fegurðina, sem Bergmál gerir svo sannarlega.

Líkt og allar heiðarlegar jólamyndir hefur Bergmál boðskap, eða einhvern vott af boðskap í það minnsta. Jólin eru tíminn til að beina sjónum að þeim sem minna mega sín og myndin beinir kastljósinu svo sannarlega að þeim. Þarna er sena sem sýnir fólk sem stendur í röð í mannskaðaveðri og bíður eftir matarpakka frá Fjölskylduhjálp. Við lítum inn í símaver Neyðarlínunnar, þar sem starfsmaður tekur á móti skelfilegu símtali. Eitt áhrifamesta atiðið í myndinni sýnir hið óeigingjarna og gríðarmikilvæga starf sem samtökin Frú Ragnheiður vinna fyrir langt leidda fíkla. Amstur verkalíðsins spilar líka stóra rullu, sjálfsagt hefur hin mikla og háværa verklíðsbarátta undarfarinna missera haft ákveðin áhrif.

Bergmál er mynd um manneskjur. Myndin er einföld að því leyti að hún er algjörlega strípuð, það eru engar myndavélahreyfingar, afar lítil tónlist, engir frægir leikarar, engin flétta. Hún er flókin að því leyti að hún er afar merkingarþrungin, áhorfandinn kynnist mörgum ólíkum sjónarhornum og þarf að raða þeim saman. Vissulega eru atriðin misgóð, ég átti til dæmis erfitt með að skilja hverju var verið að miðla í senu þar sem ung kona fer mikinn í beinni útsendingu á samfélagsmiðlum, frekar mislukkuð greining á „unga fólkinu í dag“. Það má alveg velta sér upp úr því að þessi sena eða hin hafi verið undarleg, passað illa inn. En á heildina er þetta afskaplega ánægjulegt áhorf og sum atriðin eru raunar lítil meistaraverk.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR