spot_img

Lestin um “In Touch”: Tvístraðar fjölskyldur sameinast á Skype

Pólsk/íslenska heimildamyndin In Touch eftir Paweł Ziemilski er nú sýnd i Bíó Paradís, en myndin hlaut dómnefndarverðlaunin á Skjaldborg í vor. Marta Sigríður Pétursdóttir fjallaði um myndina fyrir Lestina á Rás 1.

Marta Sigríður skrifar:

Heimildarmyndin In Touch var frumsýnd í gær í Bíó Paradís og er nú komin í almennar sýningar þar en myndin hefur farið sigurför um evrópskar kvikmyndahátíðir á þessu ári og hlotið fjölda viðurkenninga, þar á meðal dómnefndarverðlaunin á Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildarmynda í júní. Leikstjóri In Touch er Paweł Ziemilski en að framleiðslu myndarinnar koma bæði pólsk og íslensk fyrirtæki enda fjallar myndin um tengsl landanna tveggja. Íslenskt samfélag hefur tekið miklum breytingum á síðustu áratugum líkt og annars staðar í hnattvæddum heimi þar sem vinnuafl og fjármagn streymir í gegnum opin landamæri Evrópu. Við höfum upplifað skeið góðæris hér á landi og hefur aðflutt vinnuafl, að stærstum hluta frá Póllandi, verið ómissandi í þeirri uppbyggingu og samfélagsframþróun sem hér hefur átt sér stað.

In Touch fjallar um fólk frá smábænum Stare Juchy í Póllandi en nafn bæjarins merkir gamalt blóð á pólsku. Bærinn er í héraðinu Masuria sem er þekkt fyrir fjölda stöðuvatna og er ekki langt frá landamærum Litáens. Frá níunda áratugnum hafa um 400 þorpsbúar flust til Íslands og enginn þeirra snúið aftur. In Touch fjallar um samskipti milli þeirra sem fóru og þeirra sem urðu eftir og þá þýðingu sem samskiptaforritið Skype hefur gegnt í að viðhalda samböndum og efla samskipti. Við ættum reyndar flestöll að þekkja þetta, hvað sem við erum eða hvar sem við búum, hvort sem við notum Skype, Facebook, Instagram, Whatsapp, Signal, Facetime, Google Hangout, tölvupóst eða síma til þess að halda sambandi. Samkvæmt tölum frá þjóðskrá Íslands voru árið 2018 46.572 íslenskir ríkisborgarar með skráða búsetu erlendis og 43.726 erlendir ríkisborgarar með skráða búsetu á Íslandi. Þessar tölur er gott að hafa í huga þegar við tölum um innflytjendur og þær margvíslegu ástæður sem liggja að baki ákvörðun fólks um að flytja frá heimalandi sínu til annars lands.

In Touch skoðar þessa nýju tegund samskipta sem tæknin hefur fært okkur á síðustu árum, við getum núorðið talað saman hvar og hvenær sem er, landfræðileg staðsetning skiptir ekki máli lengur, ef þú hefur aðgang að nettengingu og tölvu þá getur þú verið í sambandi við ástvini í öðrum löndum. Hversu mikil er þó þessi nánd í raun? Við erum eftir sem áður alltaf að horfa á flata skjái en ekki raunverulega manneskju af holdi og blóði. Þetta er þversagnakennd, melankólísk nánd, jafnvel póstmódernísk. Ástvinurinn á tölvu- eða símaskjánum er aldrei hér heldur alltaf þar. Við eigum okkur öll eins konar draugasjálf í netheimum, þau eru vitaskuld alveg raunveruleg, oft óþægilega raunveruleg reyndar, en geta þau nokkurn tímann komið í stað raunverulegrar nándar við aðrar manneskjur í hinu hverfula augnabliki hér og nú?

In Touch veltir því upp mörgum áhugaverðum og heimspekilegum spurningum en þetta er að sama skapi mjög listræn mynd sem tekur fyrir hið hversdagslega Skype-samskiptaform og gerir framandlegt. Ísland birtist í fjarlægðinni, brottfluttum bæjarbúum Stare Juchy og íslenskri náttúru og umhverfi er varpað á veggi og húsgögn heimilanna þar, jafnvel heilu húsgaflana og tré í bænum. Það er ekkert mál að vera „in touch“, svo vísað sé í enskan titil myndarinnar, en það er mun meira mál að snertast í raunveruleikanum. Öll þessi samskipti virðast þó stefna í áttina að endurfundum, það er alltaf markmiðið, heimsókn heim eða jafnvel út til Íslands.

Mynd með færslu

In Touch er mynd sem hefur breiða skírskotun og það er ekki að undra hversu vel myndinni hefur gengið á kvikmyndahátíðum enda tekst leikstjóranum að vinna á mjög frumlegan hátt með kvikmyndaformið og Skype. Þó að ástvinirnir á Skype fari af smærri skjám og yfir á stærri yfirborð og sé jafnvel varpað upp í raunstærð eru þau þó alltaf jafn fjarlæg og ósnertanleg. In Touch tekst að miðla þessari tregafullu staðreynd á bæði ljóð- og myndrænan hátt. Hefur öll þessi tækni veitt okkur aukna nánd eða fjarlægt okkur enn þá meira frá hvert öðru? Þetta er kannski ný tegund af nánd sem við erum enn þá að reyna að skilja.

Að hvaða leyti er öll þessi tækni og tækniframþróun sem gerir okkur kleift að eiga í þessari tegund samskipta samofin hnattvæðingu, nýfrjálshyggju og vettvangi alþjóðastjórnmála, stríðsátökum, stéttaskiptingu og misskiptingu auðs á heimsvísu?

Það er ekkert einfalt svar við þessari spurningu en flutningar á milli landa, tvístraðar fjölskyldur sem púsla sér saman tímabundið í gegnum internetið er reynsla sem snertir okkur öll.

Sjá nánar hér: Tvístraðar fjölskyldur sameinast á Skype

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR