„Kanarí“ valin fyndnust á Gamanmyndahátíðinni, Edda Björgvins heiðruð

Edda Björgvins með heiðursverðlaunin ásamt Ársæli Níelssyni og Eyþóri Jóvinssyni, skipuleggjendum hátíðarinnar. (mynd: Arjan Wilmsen og Tom Reinders)

Gamanmyndahátíð Íslands fór fram um síðustu helgi á Flateyri í fjórða sinn. Áhorfendur völdu heimildamyndina Kanarí eftir Magneu B. Valdimarsdóttir og Mörtu Sigríði Pétursdóttur fyndnustu mynd hátíðarinnar og Edda Björgvinsdóttir var heiðruð fyrir framlag sitt til gamanmyndagerðar á Íslandi á undan sérstakri hátíðarsýningu á Stellu í orlofi.

Kosið var um fyndnustu mynd hátíðarinnar og var það heimildamyndin Kanarí eftir þær Magneu B. Valdimarsdóttir og Mörtu Sigríði Pétursdóttur sem áhorfendum þótti fyndnust og skemmtilegust. Myndin fjallar um þá einstöku íslensku menningu sem hefur tekið sér bólfestu á Kanarí.

Fyndnasta erlenda stuttmyndin, að mati áhorefnda, var Robbish Robbers eftir Anders Teig, myndin fjallar um nokkra bankaræninga og eina flugu.

Fyndnasta erlenda gamanmyndin í fullri lengd var Sawah eftir leikstjóran Adolf El Assal, þar sem íslenska leikkonan Elísabet Jóhannesdóttir fer með eitt aðalhlutverkið. Myndin fjallar um Skaarab, plötusnúð frá Egyptalandi sem er boðið að spila í Brussel. Á leiðinni glatar hann vegabréfinu sínu sem verður til þess að hann er álitinn flóttamaður og þarf að beita öllum ráðum til að komast á leiðarenda.

Einnig má má nefna tónleika-bíósýningu Tónlistarskóla Ísafjarðar, þar sem nemendur léku undir Buster Keaton myndinni The Boat fyrir troðfullu húsi. Þann 25. september verða 10 ár frá því að Algjör Sveppi og leitin að Villa var frumsýnd og var því fagnað með barnasýningu að viðstöddum Sveppa. Haldnar voru tvær vinnusmiðjur í tengslum við hátíð ársins, Leiklistarskóli Borgarleikhússins var með námskeið í persónusköpun fyrir börn og þá var í fyrsta sinn haldin 48 stunda gamanmyndakeppni, þar sem þrjú lið voru skráð til leiks og unnu gamanmynd á 48 klukkustundum undir handleiðslu Arnórs Pálma, þar sem þema ársins var Fiskur. Myndin Ballarahaf eftir þá Margeir Haraldsson, Andra Fannar Sóleyjarson og Rúnar Inga Guðmundsson var kosin fyndnasta mynd 48 stunda keppninnar af áhorfendum.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR