Morgunblaðið um „Kaf“: Algjör vellíðunarmynd

„Efa að nokkur áhorfandi geti stillt sig um að brosa hringinn nánast samfleytt þær 72 mínútur sem myndin stendur yfir,“ segir Brynja Hjálmsdóttir í Morgunblaðinu um heimildamyndina Kaf eftir Elínu Hansdóttur, Önnu Rún Tryggvadóttur og Hönnu Björk Valsdóttur.

Brynja skrifar:

KAF er heimildarmynd um ungbarnasund. Einblínt er á Snorra Magnússon sundkennara sem hefur staðið fyrir ungbarnasundi í Skálatúnslaug í Mosfellsbæ frá árinu 1990.

Snorri er annálaður fyrir að ná einstakri tengingu við smábörn. Markmið sundtímanna er meðal annars að efla styrk og hreyfiþroska barnanna og Snorri hefur sýnt fram á að agnarlítil börn geti gert ótrúlegustu hluti, eins og að standa upprétt, löngu áður en það er talið mögulegt samkvæmt rannsóknum. Snorri nær líka að „skilyrða“ börnin en hann getur fengið þau til að framkvæma flóknar aðgerðir með bendingum, hljóðum og líkamsbeitingu. Tímarnir snúast samt kannski fyrst og fremst um að örva skynfæri barnanna, hvetja til leiks, efla félagshæfni þeirra og tengsl við foreldrana.

Snorri er geysilega heillandi maður og fullkomin aðalpersóna í heimildarmynd. Hann er alþýðlegur, sjarmerandi og skemmtilegur og maður fær mjög sterka tilfinningu fyrir ástríðunni sem hann leggur í starfið. Snorri er einn af þessum mönnum sem bjarga heiminum á hverjum degi, þótt það rati kannski ekki í heimsfréttirnar.

Þótt Snorri sé aðalpersónan eru aukapersónurnar ekki síður mikilvægar. Persónugalleríið er auðugt en það samanstendur af ungbörnum og foreldrum þeirra. Þótt börnin séu agnarsmá, á aldrinum þriggja til níu mánaða, þýðir það ekki að þau séu öll eins. Sum þeirra eru pínulítil og viðkvæm, önnur þroskaðri og kraftmeiri. Sum eru róleg og alvarleg, önnur eru gáskafull, glettin og hávær. Foreldrarnir eru sömuleiðis ólíkir, líkt og sjá má á viðtölum, og þau hafa mismunandi skoðanir á tímunum. Flest sameinast þau þó um að það mikilvægasta við tímana sé tengslamyndunin sem þar á sér stað.

Í myndinni er rætt við fræðimenn og sálfræðinga sem ræða um ungbarnasundið frá fræðilegu sjónarhorni og kynna áhorfendum undirstöðuatriði í þroskasálfræði. Meðal viðmælenda er breski barnasálfræðingurinn Colwyn Trevarthen. Trevarthen þykir mikið til Snorra koma, ekki einungis vegna þess að hann getur látið börnin gera ýmislegt sem þykir óhugsandi, heldur sérstaklega vegna þess ótrúlega næmis og tengingar sem Snorri nær við börnin.

Kvikmyndataka Bergsteins Björgúlfssonar er venju samkvæmt til fyrirmyndar. Skálatúnslaugin, þar sem lunginn út myndinni fer fram, er mjög skemmtileg sviðsmynd því ólíkt flestum íslenskum sundlaugum er hún kringlótt og inni í eins konar garðskála. Í myndatökunni eru formin í lauginni sérstaklega dregin fram, mikið er unnið með bogadregnar línur og samhverfur.

Klippingin er vel heppnuð, sem skiptir höfuðmáli í heimildarmyndum. Heimildarmyndagerð er nefnilega svo sérkennileg, fólk tekur upp helling af myndefni án þess að vita nákvæmlega hvað muni eiga sér stað hverju sinni og þarf svo að búa til rökrétta sögu úr efninu. Snorri notast markvisst við söng og takt í sundtímunum og þetta vinnulag hefur mikil áhrif á klippinguna, sem er stundum snörp og taktviss, stundum flæðandi og melódísk. Þessi söngur og taktur hefur líka áhrif á hljóðmyndina, sem er skapandi og flott. Í heild flæðir frásögnin vel og verður ekki endurtekningasöm. Reyndar er myndefnið svo skemmtilegt og snúllulegt að maður myndi seint þreytast á því, þrátt fyrir endurtekningar.

Við kynnumst bakgrunni Snorra lítillega en það er ekki beinlínis farið á dýpið, við köfum ekki neitt óskaplega djúpt í hans ævisögu enda er það ekki markmiðið, myndin er ekki að leita svara við stórum spurningum og það er engin sérstök úrlausn í lok hennar. Vissulega er talað við fræðimenn en samt er ekki verið að opinbera nein byltingarkennd vísindaleg afrek, því að myndin er fyrst og fremst innlit, gluggi inn í litla veröld. Blauta og brjálæðislega krúttlega veröld. Myndin rímar þannig vel við þetta tímabil í lífi foreldra og ungbarna, sem er lítill gluggi í ævinni, fyrsta árið þar sem nánast ekkert kemst að nema fjölskyldan.

KAF er algjör „feel-good“-mynd, kannski er þetta ný grein: vellíðunarheimildarmyndir. Myndin er portrett af Snorra Magnússyni og lífsspeki hans og Þorsteinn Bachmann, sem er einn af feðrunum sem koma fram í myndinni, kjarnar þessa speki ágætlega þegar hann segir: „Ég held að hann elski lífið mjög mikið. Meira en gengur og gerist.“ Þessi lífsgleði skilar sér algjörlega og ég efa að nokkur áhorfandi geti stillt sig um að brosa hringinn nánast samfleytt þær 72 mínútur sem myndin stendur yfir.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR