Alls er útlit fyrir að fimm íslenskar bíómyndir verði í sýningum þetta haustið. Héraðið eftir Grím Hákonarson er nýkomin í sýningar, en væntanlegar eru Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason, Hæ hó Agnes Joy eftir Silju Hauksdóttur, Bergmál eftir Rúnar Rúnarsson og Gullregn eftir Ragnar Bragason sem kemur rétt eftir áramót. Auk þess verður kvikmyndin End of Sentence eftir Elfar Aðalsteinsson sýnd á RIFF.
Óljóst er enn með sýningar á Ölmu eftir Kristínu Jóhannesdóttur og Skuggahverfinu eftirJón Gústafsson og Karolina Lewicka.
Héraðið – í sýningum
Héraðið gerist í litlu samfélagi og segir sögu Ingu, miðaldra kúabónda, sem gerir uppreisn gegn kaupfélaginu á staðnum. Hún reynir að fá aðra bændur í lið með sér en það gengur erfiðlega þar sem kaupfélagið hefur sterk ítök í sveitinni. Grímur Hákonarson leikstýrir og skrifar handrit, Grímar Jónsson framleiðir. Arndís Hrönn Egilsdóttir og Sigurður Sigurjónsson fara með helstu hlutverk.
Hvítur, hvítur dagur – 6. september
Hvítur, hvítur dagur segir frá Ingimundi lögreglustjóra sem hefur verið í starfsleyfi frá því að eiginkona hans lést óvænt af slysförum. Í sorginni einbeitir hann sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og afastelpu, þar til athygli hans beinist að manni sem hann grunar að hafi átt í ástarsambandi við konu sína. Fljótlega breytist grunur Ingimundar í þráhyggju og leiðir hann til róttækra gjörða sem óhjákvæmilega bitnar einnig á þeim sem standa honum næst. Þetta er saga um sorg, hefnd og skilyrðislausa ást. Hlynur Pálmason leikstýrir og skrifar handrit,
Anton Máni Svansson framleiðir. Ingvar E. Sigurðsson, Ída Mekkín Hlynsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Sara Dögg Ásgeirsdóttir og Björn Ingi Hilmarsson fara með helstu hlutverk.
End of Sentence – RIFF, hefst í lok september
Áður en Frank Fogle leggur í vegferð til að uppfylla hinstu ósk eiginkonu sinnar þarf hann einnig að uppfylla loforð um að taka son þeirra Sean með. Langferð frá Ameríku til Írlands með föður sínum er hinsvegar það síðasta sem Sean hefur í hyggju er hann stígur út úr fangelsi í Alabama og að dreifa ösku móður sinnar í stöðuvatn á uppeldisslóðum hennar gengur þvert á hans framtíðaráætlanir. En er ferðaplön hans hrynja samþykkir hann treglega að slást í för með föður sinum gegn því að þeir feðgar munu aldrei þurfa að hittast aftur. Elfar Aðalsteinsson leikstýrir, Michael Armbruster skrifar handrit, Elfar, Sigurjón Sighvatsson og David Collins framleiða. John Hawkes og Logan Lerman fara með aðalhlutverk.
Hæ, hó Agnes Joy – 11. október
Mæðgurnar Rannveig (52) og Agnes (18) búa á Akranesi ásamt föður Agnesar, (Einari) 52. Rannveig er í tilvistarkreppu, óánægð í starfi sínu fyrir fjölskyldufyrirtækið og hjónabandið komið á algera endastöð. Samband fjölskyldunnar einkennist af stjórnsemi og spennu og Agnes er í uppreisn. Þegar leikarinn Hreinn (41), flytur í bæinn til þess að vinna að kvikmyndahandriti, heillast þau öll af honum, hver á sinn hátt og þroskasaga mæðgnanna hefst fyrir alvöru. Silja Hauksdóttir leikstýrir og skrifar handrit ásamt Rannveigu Jónsdóttur og Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur. Birgitta Björnsdóttir og Rannveig Jónsdóttir framleiða. Með helstu hlutverk fara Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Donna Cuz, Þorsteinn Bachmann og Björn Hlynur Haraldsson.
Bergmál – 15. nóvember
Bergmál er ljóðræn kvikmynd, um íslenskt samfélag, sem byrjar á aðventunni í aðdraganda jóla og endar á nýársdag. Rúnar Rúnarsson leikstýrir og skrifar handrit. Hann framleiðir einnig ásamt Live Hide og Lilju Ósk Snorradóttur.
Gullregn – 10. janúar 2020
Kerfisfræðingurinn Indíana Jónsdóttir býr einangruð í lítilli blokkaríbúð umkringd innflytjendum sem hún fyrirlítur. Í litlum garðskika við íbúðina stendur gullregn, verðlaunað tré sem er stolt hennar og yndi. Þegar einkasonurinn kemur heim með kærustu af erlendum uppruna snýst heimur Indíönu à hvolf. Ragnar Bragason leikstýrir og skrifar handrit. Davíð Óskar Ólafsson og Árni Filippusson framleiða. Í helstu hlutverkum eru Sigrún Edda Björgvinsdóttir, Halldóra Geirharðsdóttir, Hallgrimur Ólafsson og Karolina Gruszka.