Jón fæddist í Reykjavík 16. nóvember 1939. Hann nam tæknifræði við City & Guilds of London Institute og útskrifaðist 1965. Hann hóf síðan störf hjá Sjónvarpinu (RÚV) sama ár, þegar það var í undirbúningi og starfaði síðan þar til 1975, fyrst sem yfirmaður tæknideildar og síðan kvikmyndadeildar.


Þegar Jón hætti störfum hjá RÚV sneri hann sér að gerð kvikmynda sem sjálfstæður framleiðandi og leikstjóri. Hann vann sem slíkur allt þar til hann lést, 21. ágúst síðastliðinn.
Hann var framleiðandi að ýmsum kvikmyndum sem tilheyra íslenska kvikmyndavorinu svokallaða, þar á meðal Landi og sonum (1980), Útlaganum (1981), Nýju lífi (1983), Dalalífi (1984) og Skammdegi (1985).
Eftir Jón liggur fjöldi heimildamynda, allt frá 1970. Aðeins brot af því efni má finna hér.













