Ágúst skrifar:
Á kvikmyndavorinu margumrædda var einn maður öðrum athafnasamari: Jón Hermannsson, framleiðandi.
Þegar vorið það hófst hafði Jón verið yfirmaður í tæknideild Sjónvarpsins um hríð, ennfremur unnið að margs konar dagskrárgerð með Þrándi Thoroddsen og nokkrum öðrum kvikmyndagerðarmönnum.
Árið 1979 tókst hann það á hendur að framleiða Land og syni sem ég leikstýrði eftir frægri sögu Indriða G. Þorsteinssonar. Stuðningur úr Kvikmyndasjóði var ekki hár og því kom það í hlut Jóns að finna leiðir til að gera bíómynd í fullri lengd fyrir takmarkað fé.
Tækjakostur var afar fáskrúðugur en þó séð til þess að útkoman yrði ásættanleg. Jón fann til dæmis leið til að spara í filmukaupum. Í Lundúnum keypti hann filmubúta sem stóru kvikmyndaverin höfðu skilið eftir í vélum sínum. Land og synir var þannig tekin á eintóma búta en á gæðafilmu samt, þá sömu og notuð var í stórmyndir þess tíma.
Í næstu mynd var öllu erfiðara að beita mikilli ráðdeild. Útlaginn var dýr kvikmynd og útfærsla sú sem ég sóttist eftir sem leikstjóri kannski óþarflega kostnaðarsöm. Alltaf átti ég þó stuðning Jóns vísan, hann sá það sem verkefni sitt að finna lausnir á margvíslegum vanda. Báðar fengu þessar myndir firnagóða aðsókn og voru sýndar víða um heim en tapið á þeirri síðari olli því að fyrirtækið varð nánast galdþrota. Þessu fjárhagslega mótlæti tók Jón með sama jafnaðargeði og meðlætinu sem fylgdi fyrri myndinni.
Jón fór þá að vinna með Þráni Bertelssyni að gamanmyndum þeim sem kenndar eru við ýmiskonar líf og njóta enn mikilla vinsælda. Þar við bættist Skammdegi, skemmtilega dularfull mynd um undarlegt fólk fyrir vestan.
Jón sneri sér síðan að gerð heimildamynda, einkum um margvísleg náttúrufyrirbæri. Ein þeirra, sem hann vann með Þrándi, fjallaði um laxinn og vann til verðlauna á umhverfisvænni kvikmyndahátíð. Væntanlega er þó merkust þáttaröð um jarðsögu heimsins, Hin rámu regindjúp, sem hann gerði með Guðmundi Sigvaldasyni jarðvísindamanni. Þeir héldu sig ekki við Ísland eitt heldur ferðuðust með tökulið um víða veröld til að festa á filmu allt það sem heyrt gat undir viðfangsefnið. Þessir sex þættir voru teknir til sýninga í sjónvarpi um heim allan og nýtast enn sem kennslugagn.
Jón Hermannsson gerði fátt til að vekja á sjálfum sér athygli. Hann virtist fyllilega sáttur við að standa í skugga þeirra sem hann vann með hverju sinni. Því er hann flestum gleymdur nú, jafnvel fólki í kvikmyndageiranum.
Mér er til efs að það hafi nokkurn tíma komið til tals að heiðra hann sérstaklega fyrir störf sín. Það hefði hann þó átt skilið umfram marga sem slíka upphefð hafa hlotið.













