Skarphéðinn skrifar:
Það er ánægjulegt að sjá ný og kærkomin sjónvarpsverðlaun loksins verða að veruleika og ég er innilega stoltur af ykkur aðstandendum Ráðherrans 2 sem hlýtur alls sjö tilnefningar og framleidd var af Sagafilm.
Um leið samgleðst ég öllum þeim sem hljóta tilnefningar sem og auðvitað samstarfsfólkinu mikilvæga sem gerir þeim kleift að sýna listir sínar og fagmennsku. Það leikur enginn vafi á því að svona verðlaun skipta miklu máli fyrir bransa sem þarf upp á hvern einasta dag að sanna og berjast fyrir tilverurétti sínum.
Það þrátt fyrir allan þennan sýnilega og greinilega áhuga, ánægju og áhorf. Og það þrátt fyrir að ráðamenn þjóðarinnar, þeir sem með valdið og fjárráðin fara, hampi honum í tíma og ótíma (einkum reyndar á tyllidögum og við viðeigandi tilefni) og fari þá mörgum og fögrum orðum um gæði hans og mikilvægi fyrir íslenska menningu, tungu, landkynningu, efnahag og sjálfsmynd þjóðar í hvívetna.
En þegar allt kemur til alls og þegar horft er yfir þessa fjölbreyttu og frambærilegu framleiðslu sem nú er tilnefnd til fyrstu Íslensku sjónvarpsverðlaunanna þá fer nærri kraftaverki að eins fámenn þjóð sem hefur úr eins litlum fjármunum að moða geti áorkað öðru eins. Um það hafa fáir oftar og sterkari orð en einmitt kollegar okkar í nágrannalöndum sem standa hreinlega á gati yfir hvernig við förum eiginlega að þessu.
En þar liggur einmitt hundurinn grafinn því að er svo engan veginn sjálfgefið að hálfa væri nóg – eins og Radíus-bræður hefðu orðað það hér í den.
Höfum það hugfast þegar verðlaunin verða afhent í Gamla bíói 30. október. Höfum hugfast þegar við samgleðjumst og hömpum þessu kraftaverkafólki okkar að önnur eins gróska og velgengni sé engan veginn sjálfgefin og að staðreyndin sé þvert á móti sú að áskoranir fyrir íslenska sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu – og íslenska fjölmiðlun ef út í það er farið – hafi sjaldan ef nokkru sinni verið meiri og alvarlegri, einkum sökum langvarandi og viðvarandi fjárskorts og óvægrar og illviðráðanlegrar samkeppni við erlent efni á erlendum streymisveitum sem hingað til hafa lítið sem ekkert lagt til íslensks samfélags og framleiðslu.
Munum þá og tökum grafalvarlega að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Áfram íslensk sjónvarps- og kvikmyndaframleiðsla!













