Staðan er ekki beysin. Á þessu ári hafa verið frumsýndar þrjár íslenskar kvikmyndir sem nutu stuðnings frá Kvikmyndasjóði, Fjallið, Ástin sem eftir er og Eldarnir. Í fyrra (2024) voru íslenskar kvikmyndir, gerðar með stuðningi Kvikmyndasjóðs, níu talsins. 2023 voru þær fimm og 2022 voru þær alls sjö.
Á næsta ári virðist sem aðeins ein kvikmynd sem hlaut fullan styrk frá Kvikmyndasjóði verði sýnd. Þetta er Röskun eftir Braga Þór Hinriksson. Anorgasmia eftir Jón Gústafsson og Polyorama eftir Graeme Maley hlutu báðar lítinn styrk frá sjóðnum og líklegt að þær verði sýndar á næsta ári.
Hvað er að fara í tökur?
Stefnt er að því að tökur hefjist á kvikmyndinni Bara barn í leikstjórn Völu Ómarsdóttur á þessu ári. Þetta er frumraun hennar í gerð bíómynda. Hlín Jóhannesdóttir hjá Ursus Parvus (Á ferð með mömmu) framleiðir.
Á næsta ári er stefnt á tökur á eftirfarandi kvikmyndum:
Maður í kompu í leikstjórn Maríu Sólrúnar Sigurðardóttur. Sagafilm framleiðir.
Á landi og á sjó í leikstjórn Hlyns Pálmasonar Anton Máni Svansson hjá Still Vivid er íslenskur framleiðandi. Meirihluti fjármagns kemur frá Danmörku.
200 Kópavogur í leikstjórn Gríms Hákonarsonar. Sara Nassim (Dýrið) og Grímar Jónsson (Eldarnir) framleiða fyrir Sarimar Films.
Þá er í vinnslu teiknimyndin Lóa: goðsögn vindanna í leikstjórn Gunnars Karlssonar. Hilmar Sigurðsson og Haukur Sigurjónsson framleiða fyrir GunHil.
Enginn þessara kvikmynda verður frumsýnd á næsta ári.
Rétt er að geta þess að þrjár aðrar bíómyndir hafa eða verða sýndar á þessu ári, gerðar án sjóðsins. Þetta eru The Damned sem framleidd var af breskum aðilum og á ensku, en með íslenskum leikstjóra (Þórði Pálssyni) og sögusviði, Allra augu á mér eftir kanadíska leikstjórann Pascal Payant með Guðmundi Inga Þorvaldssyni í aðalhlutverki og Víkin eftir Braga Þór Hinriksson, sem kemur um næstu mánaðamót. Slíkar myndir eru yfirleitt 2-4 á ári hverju.













