Minning: Agnar Einarsson 1931-2019

Agnar Einarsson (Mynd: Garðar Agnarsson).

Agnar Einarsson fyrrum hljóðmeistari hjá Sjónvarpinu, lést þann 13. febrúar síðastliðinn. Agnar lærði útvarps- og símvirkjun og síðan til sýningarmanns sem hann starfaði við frá 1949-1972 í Tjarnarbíói, Stjörnubíói og Tónabíói. 1972 hóf hann störf hjá Sjónvarpinu, lengst af sem hljóðmeistari þar til hann lét af störfum 1998. Eftir það starfaði hann að hluta til í Kvikmyndasafni Íslands og Bæjarbíói í Hafnarfirði. Sigríður Pétursdóttir kvikmyndarýnir og tengdadóttir Agnars, skrifar um hann nokkur minningarorð.

Sigríður skrifar:

Nú hafa heiðbláu augun lokast í hinsta sinn og glettið brosið mun aðeins lifa í minningunni. Þétt faðmlag og léttur koss á kinn. Í banka minninganna má líka finna ótal gleðistundir þar sem Aggi var hrókur alls fagnaðar og lék á píanó, harmonikku eða gítar.

Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að kynnast tengdapabba 14 árum áður en ég kynntist syni hans. Við unnum saman hjá Sjónvarpi allra landsmanna, og á löngum þuluvöktum gladdi það mig þegar ég sá að hann var að vinna. Þá var nokkuð víst að milli atriða yrði spjallað af mikilli ástríðu um kvikmyndir.

Í mestu uppáhaldi hjá honum var Brúin yfir Kwaifljótið eftir David Lean. Ég var ekki ein um að kunna að meta hann sem samstarfsmann, því hann var bæði fagmaður fram í fingurgóma og með einstaklega ljúft geðslag.

Auk þess að vinna hjá Ríkissjónvarpinu sem hljóðmaður, og á Ampex, var hann sýningarmaður bæði í Tónabíói og Stjörnubíói.

Þegar hann var kominn á eftirlaun fékk hann svo vinnu á Kvikmyndasafninu og var sýningarmaður í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Þar lágu leiðir okkar aftur saman þegar hann aðstoðaði mig við að gera innslag um safnið. Ekki datt mér í hug þegar ég kvaddi hann þá að næst myndi ég hitta þennan ljúfling sem kærasta sonar hans. Ég get viðurkennt að ég vonaðist til að eplið félli ekki langt frá eikinni, og mér varð að ósk minni.

Aggi og Gunna tóku mér og ungum syni með opnum örmum. Við nutum þess að hlusta á hann tala um reynslu sína af því að vera sýningarmaður á fyrri hluta síðustu aldar, og segja sögur af ævintýralegum ferðum með dagskrárgerðarfólki og hljóðupptökum við mismunandi aðstæður. Það voru forréttindi að heyra hann tala um ferðir með Ómari Ragnarssyni á Frúnni, upptökur á Skralli í Skötuvík með Hljómsveit Ólafs Gauks, og sjónvarpsmyndinni Draugasögu eftir Viðar Víkingsson, svo fátt eitt sé nefnt. Hann ljómaði þegar hann útskýrði fyrir okkur hvernig hann tók upp dropahljóðið fyrir Draugasögu í baðherberginu í Fögrubrekku.

Ýmislegt brölluðum við líka saman, og til að mynda var hljóðið sem spilað var í upphafi og lok útvarpsþáttarins Kviku tekið upp í Bæjarbíói. Þar keyrði Aggi upp gömlu sýningarvélina, og lét filmuna rúlla. Eins og í öllu sem hann tók sér fyrir hendur var vandvirknin í fyrirrúmi, og hann endurtók leikinn þar til hljóðupptakan var óaðfinnanleg.

Einnig má ekki gleyma að Aggi var með óborganlegan húmor og eitt af því fyndnasta sem hann vissi voru óheppilega orðaðar setningar í minningargreinum.Hann klippti þær út og laumaði að okkur gullkornum sem fengu okkur til að veltast um af hlátri.

Með söknuð í hjarta er gott að ylja sér við minningar um skemmtilegan og góðhjartaðan mann, og dásamlegar stundir í faðmi fjölskyldunnar í Fögrubrekku.

Guð gefi ástvinum Agnars Einarssonar styrk í sorginni. Blessuð sé minning hans.

Sigríður Pétursdóttir.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR