Engar stjörnur um „Svona fólk“: Mikilvæg söguskráning

„Með markvissari stefnu og skipulagðara upplýsingaflæði gæti Svona fólk verið meira fræðandi heimildarmynd,“ segir Sólveig Johnsen hjá Engum stjörnum um þessa heimildamynd Hrafnhildar Gunnarsdóttur, en bætir við að „það sem stendur upp úr eru sögur viðmælendanna – sögur sem ættu að heyrast miklu oftar – og mikilvægt starf í þágu söguskráningar hinsegin samfélagsins á Íslandi.“

Sólveig skrifar meðal annars:

Fyrir áhorfendur sem ekki þekkja þeim mun betur til er án efa sláandi að heyra sögurnar beint frá viðmælendum; heyra um einmanaleikann, þögnina og lamandi óttann sem einkenndi líf þeirra sem ekki pössuðu inn í hið gagnkynhneigða norm samfélagsins og um útskúfunina sem vofði yfir fyrir það eitt að vera „eins og maður er“. Mynd- og hljóðdæmi úr íslenskum fjölmiðlum sýna hversu gríðarlegir fordómar ríktu í samfélaginu og bent er á hversu vanmáttugt íslenskt lagaumhverfi var gagnvart hatursglæpum gegn samkynhneigðum. Þetta eru sögur af hinu persónulega, af hinu opinbera, af aktívisma og af skemmtanalífinu. Úr þessu verður blanda sem gefur ágætis innsýn tilveru hópsins, auk þess sem sumir viðmælendanna eru alveg hreint frábærir sögumenn og fá áhorfendur til að glotta annað slagið yfir grafalvarlegu umfjöllunarefni. Að þessu sögðu er ýmislegt sem bæta mætti í efnistökum kvikmyndarinnar og er vel mögulegt að jafn viðamiklu og þungu efni verði betur komið til skila í komandi sjónvarpsþáttaröð.

Hrafnhildur ljáir kvikmyndinni rödd sína sem sögumaður. Hún deilir ýmsum persónulegum sögum og minningum og miðlar jafnframt sögulegum upplýsingum. Útkoman er hins vegar ómarkviss og hlutverk sögumanns er alfarið óljóst fyrir áhorfendum, ekki síst vegna þess að Hrafnhildur kynnir sig ekki í upphafi, heldur eiga áhorfendur að átta sig á því sjálfir um hverja ræðir. Rödd sögumanns gefur þá tilfinningu að litið sé til baka úr nútímanum en þrátt fyrir það er algjörlega sniðið hjá því að ræða hvernig málin standa í dag, engin tenging er yfir höfuð gerð við samtímann. Einnig er fremur undarlegt að í heimildarmynd sem fjallar um hinsegin fólk, er framleidd af hinsegin fólki og kemur út árið 2018 sé viðtölum sem endurspegla úrelt hugarfar miðlað athugasemdalaust. Sem dæmi má nefna að í einu viðtalinu talar viðmælandi um tvíkynhneigð á þann máta að hún felist í “samkynhneigðum athöfnum” annars vegar og í gagnkynhneigðum lífsstíl hins vegar og gefur í skyn að tvíkynhneigt fólk velji eftir hentugleika milli þessara tveggja leiða. Þetta eru úrelt sjónarmið sem tvíkynhneigt fólk í dag berst ötullega gegn. Að framsetja slíkt efni án þess að upplýsa áhorfendur um að það feli í sér vissa tímaskekkju (hvergi er til dæmis tekið fram hvenær viðtölin voru tekin upp) getur orðið til þess að því sé tekið gagnrýnislaust og ýti jafnvel undir fordóma gegn jaðarsettum hóp. Tilvalið hefði verið að útskýra í gegnum rödd sögumannsins að sumar hugmyndir og orðbragð þóttu í góðu lagi fyrir 20 árum síðan en þykja það ekki lengur í dag. Tímarnir breytast og fólkið með – líka hinsegin fólk.

Sjá nánar hér: ES 2018 HAUST | Kvikmyndafræði Háskóla Íslands

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR