Danska nýbylgjan kemur til Íslands

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Norræna Húsið efna til málþings um nýsköpun í danska kvikmyndageiranum í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Málþingið fer fram í Norræna húsinu þann 26. október milli 14 og 18. Samhliða verða þrjár danskar „nýbylgjumyndir“ sýndar í Bíó Paradís.

Nú kann einhver að spyrja sig hvernig dönsk kvikmyndagerð tengist fullveldinu en því er til að svara að saga danskra og íslenskra kvikmynda er samofin allt frá árdögum kvikmyndanna. Hinn konunglegi danski hirðljósmyndari Peter Elfelt filmaði för alþingismanna til Kaupmannahafnar 1906, en sú mynd er elsta varðveitta kvikmyndin af Íslendingum. Óskar Gíslason nam síðan ljósmyndun hjá Elfelt í Kaupmannahöfn uppúr 1920. Síðan má nefna danina Alfred Lind og Peter Petersen (Bíó-Petersen) sem ráku hér Reykjavíkur Biografteater (síðar Gamla bíó) frá 1906 og tóku einnig upp efni sem þeir sýndu í bíóinu. Þá var Saga Borgarættarinnar eftir sögu Gunnars Gunnarssonar filmuð hér 1919 af Nordisk Film. Lengi má áfram telja og undanfarna áratugi hafa Danir verið helstu samframleiðsluaðilar íslenskra kvikmynda, auk þess sem bæði Dagur Kári og Hlynur Pálmason hafa gert kvikmyndir í Danmörku.

Það vakti athygli þegar kvikmyndin Vetrarbræður eftir Hlyn Pálmason sópaði að sér öllum helstu verðlaunum í Danmörku fyrr á þessu ári: Níu Robert verðlaun og tvenn Bodil verðlaun. Kvikmyndin er styrkt af New Danish Screen (undirdeild dönsku Kvikmyndamiðstöðvarinnar) sem hefur það hlutverk að þróa ungt hæfileikafólk og stuðla að nýsköpun í kvikmyndageiranum. Hjá New Danish Screen fær kvikmyndagerðarfólk tækifæri til að framleiða „low-budget“ kvikmyndir, þar sem fjárhagslegar takmarkanir eru ekki aðþrengjandi skilyrði, heldur aðferð til að hámarka sköpun og frelsi. Árangurinn hefur verið stórbrotinn og sjaldan hefur listræn gróska verið jafn mikil í danskri kvikmyndagerð og um þessar mundir. Hver kvikmyndin á fætur annarri hefur farið sigurför um heiminn og nýlega var Den Skyldige (The Guilty) valin sem framlag Danmerkur til Óskarsverðlaunanna.

Á málþinginu gefst áhugasömum kostur á að kynnast þessu brautryðjendastarfi. Mette Damgaard-Sørensen, forstöðumaður New Danish Screen, mun halda erindi um hugmyndafræði og aðferðir sjóðsins og einnig munu leikstjórar og framleiðendur kvikmyndanna „Cutterhead“ og „Neon Heart“ fara ofan í saumana á þróun og framkvæmd verka sinna. Umsjónarmaður málþingsins er Dagur Kári, leikstjóri og handritshöfundur.

Dagskrá í Norræna Húsinu, föstudaginn 26.10.2018

14:00-15:00 – Mette Damgaard-Sørensen, framkvæmdastjóri New Danish Screen

15:00-15:15 – Hlé

15:15-16:30 – “Cutterhead” – Rasmus Kloster Bro, leikstjóri

16:30-16:45 – Hlé

16:45-18:00 – “Neon Heart” – Laurits Flensted, leikstjóri og Julie Walenciak, framleiðandi

Sýningartímar myndanna í Bíó Paradís eru sem hér segir:

25.10 kl 20: DEN SKYLDIGE / THE GUILTY. Frumsýning. Jacob Cedergren, aðalleikari myndarinnar verður viðstaddur.

26.10 kl 20: CUTTERHEAD. Q&A eftir sýningu

27.10 kl 18: NEON HEART. Q&A eftir sýningu

Myndirnar eru allar sýndar á frummálinu með enskum texta.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR