spot_img

Morgunblaðið um “Undir halastjörnu”: Harmleikur úr samtímanum

Tómas Lemarquis í Undir halastjörnu.

Brynja Hjálmsdóttir skrifar í Morgunblaðið um Undir halastjörnu eftir Ara Alexander og segir hana fagmannlega unna en hefði mátt við meiri spennu. Hún gefur myndinni þrjár og hálfa stjörnu af fimm.

Brynja skrifar meðal annars:

Leikstjórn og kvikmyndataka er verulega vönduð. Mikið er unnið með symmetríska myndbyggingu, sem er oft ansi tilkomumikið. Myndin hefur fallega filmulega áferð. Kaldir og hlýir litir kallast á, bláir og gulir litatónar eru áberandi og það er skemmtileg tilbreyting við hið hefðbundna grátóna spennumyndalúkk.

Það er áhugavert að þetta er þriðja íslenska myndin á stuttum tíma sem fjallar um hinn martraðarkennda heim eiturlyfja og glæpa. Hinar myndinar sem um ræðir eru Vargur og Lof mér að falla. Vargur fjallar einnig um burðardýr sem stíflast, þannig að sum atriði eru nokkuð áþekk milli þessara tveggja mynda. Maður veit samt sem áður að það tekur mörg ár frá því að hugmynd fæðist og þar til bíómynd er frumsýnd, þannig að svona trend eru auðvitað ekkert annað en tilviljun.

Þeir sem þekkja til líkfundarmálsins vita að þessi saga er alveg rosalegur harmleikur. Myndin er það líka, allir ofmetnast og það fer illa fyrir öllum. Ari kýs að sýna með reglulegu millibili endurlit úr fortíðinni, þegar Mihkel, Veera og Igor voru lítil og saklaus. Þessar friðsælu senur veita dýnamískt mótvægi við ömurlegheitin í lífi þeirra í nútímanum. Þrátt fyrir að það sé ýmislegt reynt til að hreyfa við tilfinningum áhorfenda, þá tekst það ekki alveg nógu vel. Það er erfitt að festa hendur á nákvæmlega af hverju það er. Það er að hluta til tengt persónusköpun. Maður beið einhvern veginn eftir að fleiri persónur felli grímuna, berskjaldi sig, svo að maður gæti kynnst þeim betur. Igor og Jóhann t.a.m. fremur óskýrar persónur, það hefði verið gaman að komast betur inn að kjarna þeirra. Vegna þess hve persónurnar eru stundum flatneskjulegar, finnur maður ekki næga samkennd með þeim þegar í harðbakkann slær og harmleikurinn orkar ekki jafnkröftuglega á mann.

Í Undir halastjörnu er ekkert gefið eftir þegar kemur að líkamlegum óhuggulegheitum. Eftir því sem Mihkel hrakar lítur hann sífellt verr út, hann gránar í framan og bólgnar allur út. Hann kastar líka upp í tíma og ótíma og á köflum spurði maður sig hvort uppköstin væru ekta, því það er sjaldan sem maður sér jafnraunveruleg uppköst í bíómynd. Þau sem annast smink og tæknibrellur eiga sannarlega hrós skilið fyrir afar viðbjóðslega og sannfærandi vinnu.

Í byrjun myndar voru samtöl nokkuð stirð og ónáttúruleg. Þetta skánaði þó til muna eftir því sem á leið og á heildina litið voru samtölin fín og leikurinn góður. Samt var eins og handritið næði ekki alveg að smella. Það voru nokkur augnablik í myndinni sem hefði mjög augljóslega mátt klippa burt. Senurnar sem um ræðir eru síður en svo slæmar út af fyrir sig, það er bara óljóst hvaða tilgangi þær þjóna. Eitt atriði undir lok myndar, þar sem Igor og Jóhann stoppa í kirkjugarði á bílferð sinni um landið, á sér t.d. hvorki aðdraganda né úrlausn. Senan er fallega skotin og innrömmuð en hún á ekki heima í myndinni og gerir fátt annað en að hægja á spennu.

Undir halastjörnu er virkilega flott og fagmannlega unnin kvikmynd. Leikstjórn og kvikmyndataka er reglulega góð, tónlist og hljóðvinnsla falla vel að heildarmyndinni og leikarar standa sig prýðilega. Myndin er þó ofurlítið einsleit og hefði mátt við meiri spennu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR