Baltasar Kormákur um „Adrift“: Mjög erfitt en ánægjulegt

Baltasar Kormákur ásamt Robert Richardson tökumanni (til hægri) við tökur á Adrift á Fiji eyjum (Mynd: Heimir Sverrisson).

Fyrsta stiklan úr nýjustu Hollywood-mynd Baltasars Kormáks, Adrift, var frumsýnd í síðustu viku og af því tilefni ræddi RÚV við hann. Baltasar segir að vinnan við myndina hafi verið mjög krefjandi.

Úr viðtalinu:

„Ég hef gert „lífsháska“-myndir eins og Djúpið og Everest þar sem karlmenn hafa verið í fyrirrúmi og lítið um konur Þær hafa verið heima að bíða eftir fréttum. En það sem mér fannst áhugavert þarna er þessi unga kona sem lendir í hörmulegum aðstæðum og er hetja myndarinnar. Og þetta er allt byggt á sannri sögu,“ segir Baltasar. Adrift er fjórða Hollywood-kvikmynd leikstjórans. Fyrst kom Contraband, endurgerð hinnar íslensku Reykjavík-Rotterdam, svo 2 Guns og síðast Everest sem fékk prýðilega dóma og fína aðsókn.

Og líkt og Everest er Adrift byggð á sönnum atburðum. „Þarna er verið að taka magnaða sögu um konu og setja hana upp á hvíta tjaldið. Bæði var kominn tími fyrir mig að gera svona mynd og svo eru varla til lífsháskamyndir með konum. Þetta hafa yfirleitt verið menn og úlfar. Það hefur svolítið verið reglan í þessum kvikmyndum – mikil karlmennska og mikið testósterón.“

Baltasar átti í góðu samstarfi við Tami Oldham, hitti hana og hún heimsótti tökustað myndarinnar við Fiji-eyjar. Þá hafði leikstjórinn einnig rætt töluvert við hana á Skype. „Og svo kom dóttir hennar til okkar í haust.“

Eins og gefur að skilja gerist myndin nánast öll úti á sjó og Baltasar krafðist þess að tökurnar færu ekki fram í tanki eins og oft er gert heldur úti á hafi. Og að ekki hafi allir verið hrifnir af þeirri hugmynd og óttast að tökurnar færu yfir á tíma. „En ég skilaði myndinni á réttum tíma.“ Hann viðurkennir engu að síður að tökurnar hafi verið mjög krefjandi. „Við vorum í tökum úti á hafi í fimm vikur. Upp á hvern einasta dag, 12 til 14 tíma í senn.“ Og þó að veðrið hafi verið yndislegt þá sé það þannig að þegar „þú ert komin út á sjó þá er barningur.“

Sjá nánar hér: Baltasar: „Mjög erfitt en ánægjulegt“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR