Þórhildur Þorleifsdóttir um „Stellu í orlofi“: Skipti sköpum að hér voru konur að verki

Þórhildur Þorleifsdóttir.

Hugrás birtir viðtal Björns Þórs Vilhjálmssonar við Þórhildi Þorleifsdóttur um Stellu í orlofi, samstarfið við leikarana og hvernig það var að stíga út úr leikhúsinu og inn í kvikmyndaheima.

Úr viðtalinu:

Ég held það hafi skipt sköpum að konur gengdu öllum lykilhlutverkum í gerð og framleiðslu Stellu í orlofi. Í fyrsta lagi hefði enginn karlmaður getað skrifað þetta handrit og líklega vandfundinn sá karlmaður sem hefði getað leikstýrt myndinni. Þ.e.a.s. það hefði þá orðið allt önnur mynd. Það þarf konur til að skilja „konur eins og Stellu“. Hún býr í öllum konum. Þessi útsjónarsemi og ráðsnilld er eitthvað sem konur þekkja vel. Atburðarás sem þær setja ekki í gang sjálfar, en bregðast við og gera gott úr. Konur eru reddarar af guðs náð. Dýnamíkin var því sú að allar konurnar sem að þessu komu skildu Stellu. Það þurfti engar útskýringar eða afsakanir.

[…]

Hvað stendur uppúr, nú þegar þú lítur um öxl, varðandi gerð Stellu í orlofi? Gætirðu jafnframt rætt örlítið hvernig ákvarðanir um útlit myndarinnar og formræna áferð voru teknar?

Uppúr stendur náttúrlega gleðin og vinnusemin á tökustað. Það fannst held ég öllum þetta skemmtilegt og almenn ánægja með handrit, þannig að mannskapurinn hafði fulla trú á verkefninu. Vinnan með Eddu og Ladda er auðvitað mjög eftirminnileg, frjó og skemmtileg og er þá á engan hallað, þau voru jú „aðal“. Jafnframt er auðvitað eftirminnilegt að leikstýra stórum flóknum senum eins og afmælisveislunni og „síldarstemmingunni“ í laxasenunni, þegar lionsklúbburinn Kiddi var mættur á planið og flugstjórarnir gerðu árás.

Þannig senur verður að undirbúa og æfa mjög vel. Í raun þarf að „kóreógrafa“ atriði af þessu tagi í bak og fyrir og sjá til þess að allir viti nákvæmlega hvað þeir eru að gera á hverju augnabliki. Hitt væri svo rándýrt, það er að segja, að spinna frá senu til senu og treysta svo á klippingu. Það er heldur ekki víst að það skilaði tilætluðum árangri; framvindusamhengi (e. continunity) kynni til dæmis að skorta. Þarna bjó ég auðvitað af reynslu minni af stórum og flóknum leik– og óperusýningum þar sem tugir, ef ekki hundruðir, komu við sögu. Ég nálgaðist alla leikstjórnina eins og ég myndi gera í leikhúsi og svo var bara að filma það sem ég var í raun búin að ákveða. Þetta er líklega ólíkt því sem kvikmyndaleistjórar gera yfirleitt, en kannski skýringin á því hversu leikurinn er góður í myndinni og öll smáatriði skýr í persónusköpun og atburðarás.

Eðli málsins samkvæmt vinna leikstjóri og kvikmyndatökumaður náið saman. Ég held að ég hafi verið leiðandi í því samstarfi þar sem ég var í raun með senurnar úthugsaðar og tilbúnar, vissi hvernig stíl ég vildi hafa á útliti og leik og og lagði áherslu á að hann nyti sín. Ég gæti trúað að kvikmyndatökumanninum hafi þótt nóg um og er heldur ekki viss um að ég hafi skilað klippara mörgum kostum. (Hef í laumi haft gaman af því að sá ágæti kvikmyndaleikstjóri Louis Bunuel sagði að auðvitað væri hann búin að fullgera myndina í huganum. Hún yrði ekki til við klippiborðið.)

Stella í orlofi sló hressilega í gegn og hefur gert allar götur síðan. Hvernig var að njóta svona mikillar velgengni með þinni fyrstu mynd? Er eitthvað við viðtökurnar sem er sérstaklega eftirminnilegt, eða eftirlíf myndarinnar?

Það er auðvitað alltaf gaman að „slá í gegn“. Ég leiddi nú ekkert sérstaklega hugann að þeirri hlið að þetta væri fyrsta kvikmyndin mín. Ég naut mikillar velgengni í leikhús- og óperuheiminum og sá þetta allt í samhengi. Þrátt fyrir ólík form snýst þetta í höfuðdráttum um það sama. Að koma efni og innihaldi til skila eins vel og frekast er unnt. Ég geri það auðvitað með áherslum á leikhúsið, leikarana, stílinn o.s.frv. Líkt og ég myndi gera með hvert annað leikrit. Aðrir leggja auðvitað meira upp úr „myndmálinu“, en gleymum því ekki að það er líka viðfangsefni í leikhúsi. Auk þess er ég menntaður dansari, þannig að formtilfinning og myndbygging eru mér ekki framandi.

Varðandi viðtökurnar fóru þær náttúrlega fram úr björtustu vonum og vinsældir Stellu í orlofi með ólíkindum allar götur síðan. Auðvitað hef ég, og eflaust fleiri, reynt að finna skýringar á þessari ótrúlegu velgengni. Svörin liggja ekkert á lausu, enda hef ég oft sagt bæði varðandi Stellu og við önnur tilefni að sá sem hefði á reiðum höndum svör og skýringar væri búinn að krækja sér í Nóbelinn.  Auðvitað er ekki nein ein skýring, heldur súmma margra. Gott handrit, góðir leikarar sem var vel leikstýrt, fyndni og jafnvel örlítil spenna. (Grunnurinn er jú framhjáhald sem alltaf lúrir í bakgrunninum og hætta á að komist upp, sem hann auðvitað gerir að lokum.) Fullt af skemmtilegum karakterum og uppákomum og áfram mætti telja. En hvað ræður svo úrslitum?!?

Sjálf held ég að það hafi skipt sköpum – fyrir utan það sem áður er talið – að þarna voru konur að verki. Það kvað við annan og nýjan tón í  íslenskri kvikmyndagerð. Það hafa vissulega verið gerðar fleiri gamanmyndir sem hafa notið mikilla vinsælda, en það sem skilur Stellu frá þeim er að hún er aldrei „skrípó“. Absúrd – já, en innan ramma raunveruleika sem allir geta tengt við. Raunveruleikinn er oft  svo miklu geggjaðri en skáldskapur. Persónurnar eru margar ýktar, eins og vera ber, eins konar erkitýpur og enn má leiða líkur að því að allflestir geti tengt við þær og því í vissum skilningi gert grín að sjálfum sér – hlegið að sjálfum sér. Það finnst held ég öllum gott, ef það er græskulaust og einkennist af skilningi á því að lífið getur haft ótrúlegustu birtingarmyndir. Allt það sem „venjulegt fólk“ getur lent í! Flestir mæta uppákomum af ótrúlegu æðruleysi, takst á við það sem lífið færir og Stella er holdgervingur þess.

Sjá nánar hér: „Konur að verki“: Viðtal við Þórhildi Þorleifsdóttur | Hugrás

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR