Baldvin Z: Reynir sterki veitti leyfi að handan

„Reynir var einhvern veginn fastur í sínum eigin fjötrum en á sama tíma braust hann sífellt úr öðrum fjötrum sem hann lét setja á sig, hlekkjum, böndum eða lét læsa sig inni í klefum. Það er mjög skemmtileg metafóra í hans lífi,“ segir Baldvin Z leikstjóri um heimildamyndina Reyni sterka í viðtali við RÚV.

Á vef RÚV segir m.a.:

Baldvin heillaðist strax af Reyni sterka í æsku og segist hafa verið heltekinn af honum frá því að hann heyrði um hann fyrst, um 6, 7 ára gamall. Aðdragandinn að gerð myndarinnar var því langur og þar að auki harla óvenjulegur. „Í kringum aldamótin sá ég fyrir mér að ég ætlaði að verða kvikmyndagerðarmaður í framtíðinni og stefndi á að gera þessa mynd. Ég hafði samband við fjölskyldu hans og sagði þeim frá því að ég ætlaði að gera heimildamynd um Reyni þegar ég væri orðinn stór. Ég var að spyrja um þetta efni af honum frá 1973 þegar hann gerði mynd um sjálfan sig.“

Efnið var hins vegar týnt og ættingjar Reynis efins um hverjum ætti að treysta fyrir verkefninu. „Þau fóru á miðilsfund, fjölskyldan, til að átta sig á því hvað þau ættu að gera og þau spjölluðu við Reyni. Það voru margir sem vildu gera þessa mynd á þessum tíma og á miðilsfundinum komu skilaboð frá Reyni um að þau ættu að bíða eftir unga stráknum. Þannig að 8 árum síðar, 2008 fór ég af stað í leiðangur, að gera þessa mynd og ég hef fengið lygilega mikla hjálp að handan,“ segir Baldvin.

200 mínútur af gersemum

Myndefnið fannst svo að lokum í kjallari í Garði á Reykjanesi og nýttist Baldvini við gerð myndarinnar. „Þetta var alveg magnað. Risa kassi með ótal filmum. Þegar ég tók filmurnar upp þá var nú sumt sem varðveittist ekki og molnaði bara í höndunum á mér. En við náðum að bjarga þarna einhverjum 200 mínútum af þvílíkum gersemum af honum og á endanum varð þetta allt önnur mynd en ég bjóst við. Ég ætlaði að gera mynd um kraftana og reyna að komast að því hvaðan kraftarnir komu og af hverju hann var svona sterkur. En allt fólkið sem kemur fram í myndinni er fólk sem þekkti Reyni af fyrstu hendi,“ segir Baldvin.

Sjá nánar hér: Reynir sterki veitti leyfi að handan

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR