„Kattarshians“ til Bandaríkjanna

Bandaríska sjónvarpsstöðin UPTV hefur keypt streymisréttinn af Kattarshians, sem er útsending í rauntíma frá lífi og leikjum nokkurra kettlinga. Kattarshians-streymið er opið inni á www.kattarshians.tv. Sagafilm framleiðir efnið.

UPTV er bandarísk afþreyingarsjónvarpsstöð í eigu UP Entertainment. Auk þess að streyma þáttunum mun UPTV láta framleiða vikulega þætti, sem sýndir verða í línulegri dagskrá, þar sem því markverðasta úr lífi kettlinganna eru gerð skil. Þættirnir hafa fengið nafnið Meow Manor.

Sagafilm vinnur verkefnið í samvinnu við Kattavinafélag Íslands og markmið verkefnisins er að finna varanleg og góð heimili fyrir kettlingana sem sjást í þáttunum. Kynningu á þáttunum hjá UPTV má finna hér.

Fine Line Productions mun sjá um framleiðslu á vikulegum þáttum Meow Manor en Dave Drabik, einn af handritshöfundum Late Show with David Letterman og Politically Incorrect with Bill Maher, sér um að skrifa vikulegu þættina ásamt teyminu sínu.

Þórhallur Gunnarsson framkvæmdastjóri sjónvarps- og kvikmyndasviðs, Sagafilm og hugmyndasmiður verkefnisins segir ánægjulegt að sjá hvernig þessi hugmynd hafi þróast. „Áhuginn á þessum krúttlegu sjónvarpsþáttum hefur verið mikill erlendis frá og mun væntanlega bara aukast í framhaldi af þessum samningi.”

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR