spot_img

Hugmyndadagar RÚV í október

Hugmyndadagar RÚV verða haldnir í fyrsta sinn í október 2017. Þar geta hugmyndasmiðir, höfundar, framleiðendur og aðrir kynnt hugmyndir og tillögur að dagskrárefni fyrir dagskrárstjórum RÚV.

Í fréttatilkynningu frá RÚV segir:

Markmiðið er að auka enn fjölbreytni í dagskrárframboði RÚV, opna hugmyndaþróunina og styrkja samtalið á milli RÚV og sjálfstæðra framleiðenda.

Auglýst er eftir tillögum að dagskrárefni af öllu tagi í alla miðla RÚV; í sjónvarp, útvarp og á vef. Núna er sérstaklega kallað eftir tillögum að dagskrárefni fyrir 15-29 ára, m.a. leiknu efni, efni sem framleitt er utan höfuðborgarsvæðisins, útvarpsleikritum og hlaðvarpsefni. Þeir sem vilja koma hugmyndum og tillögum á framfæri geta sent inn efni frá 25. ágúst til 15. september. Unnið verður úr innsendum hugmyndum og völdum hópi boðið að kynna hugmyndir sínar fyrir dagskrárstjórum á Hugmyndadögum 10.-11. október. Framleiðslufyrirkomulag og annað er opið til frekari umræðu en í dag framleiðir RÚV hluta af efni sínu sjálft en vinnur annað í samstarfi við aðra.

Fyrir samfélagið er ein af fimm megináherslum í nýrri stefnu RÚV sem kynnt var síðastliðið vor. Í henni felst loforð um að virkja og hvetja samfélagið og stuðla að framþróun fjölmiðlunar á Íslandi, með auknu samstarfi og samtali við samfélagið. RÚV vill opna aðstöðu fyrir sjálfstæða framleiðendur, með opnari hugmyndaþróun og áherslu á viðburði sem sameina þjóðina alla. Það er með þetta nýja stefnumið að leiðarljósi sem Hugmyndadagar eru haldnir í fyrsta sinn á RÚV í október.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR