Engar stjörnur um „Snjó og Salóme“: Virkar en einungis rétt svo

Telma Huld Jóhannesdóttir og Anna Hafþórsdóttir í Snjó og Salóme.

Kvikmyndafræðideild Háskóla Íslands hefur nú um nokkurra vikna skeið haldið úti reglulegum skrifum um kvikmyndir á Fésbókarsíðu sinni. Þar á meðal er efnisliðurinn Engar stjörnur þar sem nemendur kvikmyndafræðinnar gagnrýna kvikmyndir. Einn þeirra, Snævar Freyr, skrifar umsögn um Snjó og Salóme Sigurðar Antons Friðþjófssonar og segir myndina kærkomna viðbót í íslenska kvikmyndaflóru, bendir á opnar dyr sem hefði mátt loka, grafinn hund og einstaka snilld.

Umsögn Snævars Freys er sem hér segir:

Snjór og Salóme (Sigurður Anton Friðþjófson, 2017) fjallar um æskuvinina og meðleigjendurna Salóme (Anna Hafþórsdóttir) og Hrafn (Vigfús Þormar Gunnarsson) sem hafa átt í einskonar haltu mér slepptu mér ástarsambandi í fimmtán ár. Kærasta Hrafns til stutts tíma, Ríkey (Telma Huld Jóhannesdóttir) verður ólétt og í kjölfarið flækist líf tvíeykisins. Afleiðingin verður nokkuð farsakennd frásögn ungs fólks sem þarf að kljást við nýtilkomna ábyrgð fullorðinsáranna og finna tilgang í hversdagsleikanum.

Snjór og Salóme er sjálfstæð framleiðsla og mestmegnis í höndum fólks úr Kvikmyndaskóla Íslands. Þau fá mikið hrós fyrir að búa til kvikmynd í fullri lengd, og að gera það fyrir utan formfestu Kvikmyndasjóðs Íslands og annara maskína hins íslenska kvikmyndageira. Við, unnendur kvikmyndamiðilsins viljum fleiri myndir og fjölbreyttari framleiðslu hérlendis líkt og annarstaðar og í því ljósi er Snjór og Salóme kærkomin viðbót.

Kvikmyndin virkar, en einungis rétt svo. Benda má á einstaka ósamræmi sem felst í frásögn hennar og þemum. Á hún vera léttgeggjuð kómedía um ungt fólk í tilvistarkreppu eða dramatísk uppvaxtarsaga ungrar konu á krossgötum? Á hún að vera bæði? Líklega. Snjó og Salóme tekst þó hvorugt þar sem tvískauta tónn myndarinnar flakkar upp og niður á máta sem gerir áhorfendum örðugt að skilja og tengja við og fyrir vikið þynnist inntak og merking atburðarásarinnar.

Frásagnarbygging Snjós og Salóme mætti sömuleiðis vera markvissari; of margar dyr eru opnaðar sem ekki er reynt að loka og sumar virðast jafnvel hafa gleymst. Til að mynda hefði verið gagnlegt að vinna betur úr hliðarsögu fyrrverandi vinnufélaga Salóme, sem er ákærður fyrir nauðgun. Í þeirri mynd sem henni er teflt fram er hún afvegaleiðandi. Sterk mótíf eru sett fram sem bjóða upp á dýpt í efni og persónusköpun, eitthvað ofan á brauð, en þess í stað er aðeins boðið upp á mylsnur. Mögulega leit þetta vel út á blaði, en þyrfti að útfæra betur á tjaldinu. Eins mætti færa rök fyrir því að leitast sé við að gefa of mörgum sögupersónum vægi og framvindan litist nokkuð af atburðum sem skorti tilgang í samhengi heildarmyndarinnar. Snjór og Salóme virkar fyrir vikið oft og tíðum eins og samansafn „sketsa“ og hægt er að ímynda sér að vinir og kunningjar hafi gengið í ýmis aukahlutverk sem hefðu lent undir hnífnum ef hagkvæmnissjónarmiðið fengi að ráða. Ef efniviðinn skortir merkingarmöguleika og rúllar áfram líkt og sjónræn lyftutónlist er fátt hægt að gera. Hann er þarna kannski, en maður verður ekki var við hann. Þar liggur hundurinn grafinn.

Aðstandendur Snjós og Salóme hefðu að öllum líkindum getað eytt meira púðri í sköpun þriggja aðalpersónanna (Salóme, Hrafns og Ríkeyjar). Þau eru því miður fremur litlaus fyrir utan einstaka hliðarspor. Frásögnin rennur einnig áfram á ýmisskonar staðalímyndum. sem veita aðalpersónum myndarinnar aðhald, en hverfa síðan út í bláinn án skýringa. Þar má nefna einstaklega grunnhyggna birtingarmynd samkynhneigðs manns, drukkinn fjölskyldufaðir í matarboði, perralegan útvarpsmann og vitskertan hippa með raunveruleikafælni. Í þessu ljósi hefði mátt sníða smærri söguheim, fækka breytum og skerpa skil. Það er erfitt að benda á galla í eftirvinnslu ef grunnurinn er vanhugsaður og það verður að segjast að handrit myndarinnar er stærsti veikleiki hennar. Hið skrifaða orð er þegar öllu er á botninn hvolft rót frásagnarmyndarinnar.

Að þessu öllu sögðu er ekki annað hægt en að dást að þeim mikla eldmóð sem hópurinn á bakvið Snjó og Salóme sýnir í framkvæmdargleði sinni. Þau eru í raun alveg sér á báti í íslenskri kvikmyndamenningu. Þegar litið er á Snjó og Salóme sem heild er ljóst að þetta er ekki gallalaus kvikmynd en viljinn til góðra verka er aftur á móti áberandi. Sköpunargleði aðstandenda er áþreifanleg og án efa stærsti kostur myndarinnar. Það má einnig sjá glitta í einstaka snilld inn á milli óreiðu Snjós og Salóme og auðséð að það er hæfileikafólk að baki hennar. Því verður spennandi að fylgjast með næstu verkum Sigurðar Antons og félaga.

Umsögnina má einnig lesa hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR