Morgunblaðið um „Snjó og Salóme“: Kona á krossgötum

Rammi úr Snjór og Salóme.

Brynja Hjálmsdóttir skrifar um Snjó og Salóme Sigurðar Anton Friðþjófssonar í Morgunblaðið og segir styrk hennar liggja í hnyttnum samtölum en skerpa hefði mátt á dramatískari senum. Hún gefur myndinni þrjár og hálfa stjörnu.

Brynja skrifar:

Snjór og Salóme er ný mynd frá sömu aðilum og sendu frá sér Webcam árið 2014. Það má með sanni segja að hér sé á ferðinni rómantísk gamanmynd; hún fjallar um ástina og er feiknalega fyndin.

Myndin segir frá Salóme, 28 ára gamalli útvarpskonu sem hefur átt í sundur-saman sambandi við æskuástina Krumma í fjölmörg ár. Ástarsambandið hefur nú runnið sitt skeið en þau eru góðir vinir og deila íbúð. Líf hennar kollsteypist þegar henni er sagt upp vinnunni vegna þess að Brynjólfur, sem stjórnar útvarpsþættinum með henni, er kærður fyrir nauðgun.

Skömmu eftir uppsögnina flytur Krummi henni þær fréttir að hann eigi von á tvíburum með annarri stelpu og að hún ætli að flytja inn til þeirra. Eftir þetta reiðarslag þarf Salóme að fóta sig upp á nýtt, bæði á framabrautinni og í ástarlífinu, allt meðan hún reynir að halda andliti frammi fyrir Krumma og barnsmóður hans Ríkeyju.

Krummi býður henni starf við heimildarmynd sem hann vinnur að um vinsælan rappara að nafni Hans. Hún þiggur það þrátt fyrir að fyrirlíta Hans, sem er eins konar skopstæling á hinum íslenska samtímarappara, og rappheiminum eins og hann leggur sig. Hlutverk hennar er að taka viðtöl við Hans, sem reynist þrautin þyngri því hann getur aldrei hagað sér eins og maður.

Lengi lifir í gömlum glæðum og Salóme reynir að fjarlægja sig sambandi þeirra Krumma með því að hitta nýja menn. Þá er Salómon bróðir hennar, sem er sérlega heppinn í ástum og á tvo kærasta í einu, liðlegur aðstoðarmaður í hjásvæfuleitinni. Ástarlífið gengur engu að síður brösuglega þar sem hún er uggandi við að opna sig tilfinningalega og vera einlæg.

Söguþráðurinn fer út um víðan völl en er fyrst og fremst karakterstúdía um unga konu í krísu sem þarf að reyna að gera hið besta úr heldur vonlausri stöðu. Salóme er vel mótuð persóna sem maður tengir auðveldlega við og er túlkuð fantavel af Önnu Hafþórsdóttur.

Aukapersónurnar eru sömuleiðis skemmtilegar, sérstaklega hafði ég gaman af rapparanum Hans, bróðurnum Salómoni og frænkunni Elfu, sem uppistandarinn Bylgja Babýlóns leikur en hún stelur algjörlega senunni, þrátt fyrir stutta viðveru á skjánum.

Myndin er sjálfstætt framleidd og ekki laust við að það sé viss byrjendabragur á henni. Klippingar milli atriða eru misvel skipulagðar og hljóðvinnslu nokkuð ábótavant. Þegar klippt er á milli ólíkra tökustaða vantar stundum stofnskot og því er flæðið milli sena á köflum skrykkjótt. Í upphafi myndar, þegar Salóme er rekin úr vinnunni, var til dæmis svolítið erfitt að ná áttum, því ekki var gerð nægilega vel grein fyrir hvað væri á seyði með mál Brynjólfs og fyrir vikið tapaði maður þræðinum aðeins.

Styrkur handritsins liggur í hnyttnum samtölum og grínatriðin fengu mig oft til að skella upp úr. Að því sögðu hefði mátt skerpa aðeins á dramatískari senunum en þær skorti dýpt. Þegar persónurnar hófu að ræða stóru málin var stundum tönnlast óþarflega mikið á sömu hlutunum án þess að neinu markverðu væri bætt við.

Snjór og Salóme er mynd um ungt fólk framleidd af ungu fólki og ég tel að þetta skapi einstakt andrúmsloft sem hefur verið sjaldséð í íslenskri kvikmyndaflóru. Hún sver sig í ætt við erlendar rómantískar gamanmyndir en nær samt alveg sannfærandi séríslenskri stemningu og fellur ekki í þá gryfju að apa eftir erlendum fyrirmyndum. Þrátt fyrir að myndin sé tæknilega ófullkomin skila litríkar persónur og kostuleg samtöl, sem skilja mann eftir í hláturskeng, sér í stórskemmtilegri bíóferð.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR