„Hjartasteinn“ vinnur aðalverðlaun Norrænna bíódaga í Lübeck

Sigurvegarar Norrænu kvikmyndahátíðarinnar í Lubeck á sviðinu. Guðmundur Arnar og Anton Máni sjötti og sjöundi frá vinstri.

Hjartasteinn Guðmundar Arnars Guðmundssonar hlaut í kvöld aðalverðlaun 58. Norrænu kvikmyndahátíðarinnar í Lübeck. Kvikmyndin fetar í fótspor myndar Baldvins Z, Vonarstrætis, sem hlaut sömu verðlaun árið 2014 en þeim fylgir 12.500 evru verðlaunafé, eða rúmlega ein og hálf milljón króna.

Gunnar Tómas Kristófersson blaðamaður var viðstaddur hátíðina og segir í skeyti til Klapptrés:

Farið er fögrum orðum um myndina í umsögn dómnefndar þar sem segir að á eigin máta takist kvikmyndagerðarmanninum að hrífa áhorfendur með sér á hjara veraldar þar sem umróti unglingsáranna eru gerð skil tilgerðarlaust en á hrifnæman máta.

Það fer ekki framhjá neinum að íslensk kvikmyndagerð á sér sérstakan stað í hugum gesta hátíðarinnar. Í ár var fjöldi íslenskra kvikmynda á dagskrá en 12 íslenskar myndir voru sýndir á hátíðinni, þar af 2 í aðalkeppninni, en hin var Eiðurinn eftir Baltasar Kormák.

Heimildamyndirnar Línudans eftir Ólaf Rögnvaldsson og Veðrabrigði eftir Ásdísi Thoroddsen taka báðar á erfiðum deilumálum í íslensku þjóðfélagi og var nokkuð ljóst að þær rífa báðar niður á ákaflega faglegan og yfirvegaðan máta þá glansmynd sem Ísland hefur í augum margra Þjóðverja og færir þá inn í líf venjulegra Íslendinga sem berjast við eigin ógnir – í formi orkuiðnaðar og kvótakerfis.

Heimildamynd Huldu Rósar Guðnadóttur Keep Frozen sýndi aðra hlið á fiskvinnslu og Vikingo Þorfinns Guðnasonar fjallaði um Íslending sem ræktar hana fyrir hanaslagkeppnir í Dóminíkanska Lýðveldinu. Þá var Klukkur um jól eftir Braga Þór Hinriksson sem tekur á einelti í barnamyndakeppni hátíðarinnar.

Heimildamynd Sævars Guðmundssonar og Sölva Tryggvasonar Jökullinn logar, um evrópuævintýri íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnuhlaut gríðargóðar viðtökur en uppselt var á sýningar á myndinni og ljóst að áhugi gesta var mikill.

Fyrstu tveir þættir Ófærðar voru sýndir í sérstökum hluta hátíðarinnar þar sem norrænar þáttaraðir voru kynntar. Stuttmyndirnar Regnbogapartý, Bestu vinkonur að eilífu amen og Heiti potturinn voru í stuttmyndahluta hátíðarinnar.

Það er morgunljóst að með frábæru og viðamiklu framlagi íslenskra kvikmynda á hátíðinni og árangri þeirra að sumarvindar blása nokkuð hraustlega úr norðrinu okkar hingað til Lübeck.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR