Gengið framhjá kvikmyndatökumönnum

Bergsteinn Björgúlfsson kvikmyndatökumaður.

Fáir íslenskir kvikmyndatökustjórar starfa við íslenskar kvikmyndir sem eru styrktar af Kvikmyndasjóði. Bergsteinn Björgúlfsson, formaður Félags íslenskra kvikmyndatökustjóra, segir að Kvikmyndamiðstöð beinlínis hvetji framleiðendur í að ráða erlenda kvikmyndatökustjóra til starfa á kostnað þeirra íslensku sem hafi dýrt nám að baki. Allir þeir sem tilnefndir voru fyrir stjórn kvikmyndatöku í Eddunni á þessu ári komu erlendis frá.

Fréttatíminn fjallar um málið:

Kvikmyndamiðstöð Íslands gerir kröfu um að lykilstarfsmenn frá Íslandi komi að gerð þeirra mynda sem fá styrki. Það eru þó eingöngu leikstjórar og handritshöfundar. Laufey Guðjónsdóttir hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands segir að þarna sé um að ræða listrænt framlag sem hangi saman við fjármögnun annars staðar frá. Við styrkjum íslenskar myndir kannski um 50 til 60% en svo þarf að útvega fé annars staðar og þar er gerð krafa um listrænt framlag. Þá er oft litið til þeirra starfa sem ekki hafa með tungumálið að gera svo sem lýsingu og kvikmyndatöku. Það má segja að vandamálið sé því að við framleiðum ekki nógu margar íslenskar myndir.“

„Okkur finnst óeðlilegt að ekki sé stundum ráðið fólk úr öðrum deildum kvikmyndagerðar erlendis frá í tengslum við slíka styrki. Það bitnar illa á okkur ef það á alltaf að ráða erlenda kvikmyndatökustjóra til að fylla upp í slíka kvóta. Þessir erlendu tökumenn taka svo oft með sér sína undirmenn sem fá greitt allt niður í 20 þúsund fyrir daginn, en sú upphæð er greidd í verktöku, svo gera þarf ráð fyrir að starfsmaðurinn geri ráð fyrir tryggingum, orlofi og veikindarétti,“ segir Bergsteinn. Dæmi séu um að ráðið sé pólskt starfslið í alla aðra pósta, tökur, hljóð og lýsingu.

„Þeir sem hafa fjárfest i dýru námi í kvikmyndagerð eru auðvitað óánægðir með þessa þróun,“ segir hann. „Þetta endar með landflótta þeirra sem hafa metnað til að ná lengra í sinni grein.“

Hann bendir á að það sé þegar að gerast en meirihluti félagsmanna í ÍKS, félagi íslenskra kvikmyndatökustjóra, sé farinn til starfa erlendis. „Það er skammgóður vermir að standa þannig að þessu að þekkingin fari úr landi.“

Laufey Guðjónsdóttir segir að skoða verði allar kvartanir gaumgæfilega. „En þarna gilda auðvitað almennir samningar um vinnurétt. Ég ætla rétt að vona að það sé ekki verið að brjóta þá.“

Lögðu til ákvæði um vinnuvernd

Í vor var ákveðið að hækka endurgreiðslu til framleiðenda vegna kvikmyndagerðar á Íslandi úr 20 prósentum í 25 prósent. Félag kvikmyndagerðarmanna fagnaði frumvarpinu og lagði til að sett yrðu lágmarksskilyrði þannig að þeir sem nytu slíkrar endurgreiðslu yrðu að fylgja íslenskri vinnulöggjöf og tryggja góða umgengni við landið. Hrafnhildur Gunnarsdóttir formaður FK segir að slík ákvæði hafi því miður ekki hlotið náð fyrir augum alþingismanna og hafi frumvarpið því verið afgreitt án þeirra.

Sjá nánar hér: Gengið framhjá kvikmyndatökumönnum | Fréttatíminn

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR