Anton Sigurðsson: Tvöfaldur faðir á árinu

Anton Sigurðsson leikstjóri og handritshöfundur (Ljósmynd: Ása Ottesen)

Anton Sigurðsson ræðir við Morgunblaðið um mynd sína Grimmd, sem var frumsýnd á dögunum. Hann segist hafa unnið að myndinni síðastliðin fimm ár og að handritið sé innblásið af þrem­ur mjög ólík­um sög­um sem tengj­ast.

Í viðtalinu sem Gunnþór­unn Jóns­dótt­ir tekur, segir meðal annars:

Grimmd fjall­ar um tvær ung­ar stúlk­ur sem hverfa spor­laust af leik­velli í Árbæn­um og finn­ast látn­ar í Heiðmörk. Tveir reynd­ustu rann­sókn­ar­lög­reglu­menn lands­ins vinna af kappi við að leysa málið en göm­ul mál úr fortíð fara að flækj­ast í málið og gera það erfiðara.

Að sögn Ant­ons gekk prufu­sýn­ing á Grimmd á dög­un­um von­um fram­ar. „Konst­antín Mik­aels­son, yf­ir­maður kvik­mynda­deild­ar Senu sem fram­leiðir mynd­ina, sagði í viðtali að hann spáði því að þetta yrði með stærri mynd­un­um í ár. Eft­ir að þeir sáu mynd­ina var allt gefið í, sem er bara frá­bært. Það hef­ur ekki verið svona mynd í bíó síðan Mýr­in var sýnd. Þetta hef­ur allt verið mikið í sjón­varpi, Ófærð, Hraunið, Rétt­ur og fleira, en ekki í bíó.“

Mynd­in fer síðan á flakk strax eft­ir ára­mót og verður sýnd á nokkr­um kvik­mynda­hátíðum. „Flott­ar A-lista kvik­mynda­hátíðir munu sýna mynd­ina og för­um við strax í það í janú­ar en við get­um ekki greint frá því hvaða hátíðir það verða, að svo stöddu. Í raun­inni erum við bara að leggja loka­hönd á mynd­ina eins og stend­ur. Hún verður ekki al­veg 100% til­bú­in fyrr en nokkr­um dög­um fyr­ir frum­sýn­ingu.“

Heppni að fá Mar­gréti

„Mar­grét Vil­hjálms­dótt­ir fer með aðal­hlut­verkið í mynd­inni. Hún hef­ur ekki leikið í ís­lenskri kvik­mynd í fullri lengd síðan 2010 og að mínu mati er hún okk­ar besta leik­kona. Upp­runa­lega var aðal­hlut­verkið skrifað fyr­ir karl­mann en svo þegar Mar­grét Vil­hjálms­dótt­ir var laus, þá breytti ég yfir í kven­mann.“ Ant­on seg­ist afar hepp­inn að hafa fengið Mar­gréti til liðs við sig. „Kona í aðal­hlut­verki er eitt­hvað sem ger­ist alltof sjald­an hér. Þrjú stærstu hlut­verk­in í Grimmd eru allt kon­ur, þær Mar­grét Vil­hjálms­dótt­ir, Salóme Gunn­ars­dótt­ir og Júlí­ana Sara Gunn­ars­dótt­ir. Það þykir ör­ugg­lega sjald­gæft, sér í lagi þegar hand­ritið er skrifað af 29 ára göml­um manni. Fyr­ir mína parta finnst mér að við séum að verða sí­fellt meðvitaðri um það að fá fleiri kon­ur í kvik­mynda­gerð og leik. Þetta hef­ur verið afar karllæg­ur heim­ur en nú eru kon­urn­ar alltaf að verða fleiri. Það eru til dæm­is marg­ir flott­ir kven­leik­stjór­ar að gera mynd­ir núna, ým­ist að hefja tök­ur eða klára. En það má auðvitað alltaf gera bet­ur.“

Lög­regl­an veitti ráð

Við vinnslu mynd­ar­inn­ar fékk teymið að nýta sér visku­brunn lög­regl­unn­ar og skoða hvernig rann­sókn­ir og yf­ir­heyrsl­ur færu fram. „Við feng­um að sjá yf­ir­heyrslu sem við gerðum svo eft­ir fyr­ir mynd­ina. Einnig feng­um við að fara yfir mál­in með meina­tækni og sjá hvernig þeir rann­saka bíla og hvað allt er gert með mik­illi ná­kvæmni. Mér fannst það mjög áhuga­vert,“ seg­ir Ant­on. „Ég bar virðingu fyr­ir lög­reglu­mönn­um áður en enn meira eft­ir þessa heim­sókn. Þeir eru mjög klár­ir í sínu starfi og í raun­inni er þetta af­skap­lega van­metið starf. Það ótrú­lega margt sem þeir þurfa að vita og sjá, öll smá­atriðin og allt sam­an. Þetta var magnað.“

Kapps­full­ur krakki

Ant­on er Hafn­f­irðing­ur í húð og hár og seg­ir um­hverfið sem hann ólst upp í hafa haft mik­il áhrif á það hvar hann er stadd­ur í dag. „Ég ólst upp í þannig hverfi. All­ir vin­ir mín­ir eru á kafi í íþrótt­um og með há­leit mark­mið. Pabbi minn átti mjög ung­ur stóra lög­fræðistofu. Ég ólst bara upp við það að kýla á hlut­ina,“ seg­ir Ant­on sem ólst upp í Set­berg­inu í Hafnar­f­irði. „Ætli skól­inn hafi ekki átt stór­an þátt í þessu. Það voru all­ir að kepp­ast um að vinna hæfi­leika­keppn­irn­ar, all­ir að kepp­ast um að vera best­ir í íþrótt­um. Ég var mjög kapps­full­ur krakki.“ Ant­on út­skrifaðist úr Kvik­mynda­skól­an­um árið 2011 og stofnaði fyr­ir­tæki sitt Virgo films í byrj­un þessa árs.

„Það blundaði í mér fyrst að vera leik­ari. Ég man bara að ég horfði á bíó­mynd­ir sem krakki, benti á aðalleik­ar­ann og hugsaði með mér að ég ætlaði að vera eins og þessi. Afi minn benti mér síðan á og út­skýrði fyr­ir mér að það væri maður þarna á bakvið sem byggi þetta allt sam­an til. Að það væri ein­hver sem skrifaði hand­rit, leik­stýrði og gerði að veru­leika. Ég fékk svo­lítið kvik­mynda­legt upp­eldi hjá hon­um en bók­mennta­legt hjá móður minni. Það voru svo þess­ir tveir heim­ar sem sam­einuðust. Um leið og ég vissi að það væri hægt að búa þetta til þá leidd­ist ég út í það.“

Kvik­mynda­skól­inn flott­ur skóli

Ant­on hæl­ir Kvik­mynda­skól­an­um og hvet­ur fólk með kvik­mynda­bakt­erí­una til að sækja skól­ann. „Þetta snobb í fólki að fara til út­landa í skóla er bara bull, gerðu þetta bara hérna heima. Það sem skipt­ir mestu máli er hvað kem­ur frá þér. En að sjálf­sögðu, ef fólk kemst í flotta skóla er­lend­is þá er það auðvitað flott, en við meg­um ekki van­meta Kvik­mynda­skól­ann okk­ar. Þetta er flott­ur skóli með góðum kenn­ur­um.“

Ant­on seg­ist sjálf­ur hafa stefnt á nám er­lend­is en efna­hags­hrunið hafi sett ákveðið strik í reikn­ing­inn, en hann sér ekki eft­ir því í dag.

„Kvik­mynda­gerð á vel við mig og það er gam­an hvað starfið er fjöl­breytt. Ég man til dæm­is einn virki­lega erfiðan dag í tök­um á mynd­inni. Það voru all­ir ein­hvern­veg­inn illa stemmd­ir, all­ir öskr­andi og æp­andi hver á ann­an, mat­ur­inn var mjög vond­ur og all­ir að kvarta yfir því. Við vor­um búin að vera í tök­um nokkra daga í röð og þetta voru allt mjög lang­ir dag­ar. Það gekk sem sagt allt á aft­ur­fót­un­um. Á þess­um tíma­punkti vor­um við á leið í senu, við mæt­um síðan í sen­una og hún verður sú flott­asta í mynd­inni. Það bara ein­hvern­veg­inn small allt sam­an. Mér þykir mjög vænt um þenn­an dag og hann lýs­ir í raun­inni starf­inu mjög vel.“

Stúlku­barn kom í júlí

Ant­on eignaðist sitt fyrsta barn í sum­ar með sam­býl­is­konu sinni Ásu Ottesen, markaðsfull­trúa Te og kaffi. Ása ól þeim stúlku­barn og fékk hún nafnið Yrsa. Eft­ir allt stúss í kring­um kvik­mynd­ina seg­ist Ant­on ætla að njóta með stúlk­un­um sín­um í barneigna­leyfi.

„Ég varð í raun­inni tvö­fald­ur faðir á þessu ári, Yrsa og kvik­mynd­in. Það geng­ur æðis­lega vel með Yrsu, sem varð þriggja mánaða göm­ul í vik­unni. En maður hef­ur auðvitað ekk­ert til að miða við, enda fyrsta barn,“ seg­ir Ant­on. Aðspurður hvort það hafi ekki verið ögn öðru­vísi að fylgja mynd­inni eft­ir, sem fjall­ar um hvarf lít­illa stúlkna, eft­ir að hann varð faðir svar­ar Ant­on því ját­andi. „Jú, al­gjör­lega. Ég er ekki svo viss um að ég hefði ráðist í þessa mynd eft­ir að ég varð faðir. Maður er orðinn miklu mýkri maður, það er al­veg magnað. Ása var líka ólétt meðan ég var í tök­um og það var erfitt. Það var mikið álag á öll­um. En ég fékk full­an stuðning frá henni sem ég er af­skap­lega þakk­lát­ur fyr­ir. Hún sér um markaðsmál fyr­ir mynd­ina og hef­ur skemmti­leg­ar skoðanir á bíó­mynd­um líka. Hún kom t.d. með nokkra góða punkta fyr­ir mynd­ina sem ég tók til greina. Gott að fá henn­ar sjón­ar­horn.“

Fleiri bíó­mynd­ir í bíg­erð

Ant­on seg­ist vera með ým­is­legt í píp­un­um en ætli fyrst að eyða tíma með fjöl­skyld­unni áður en hann sökkv­ir sér enn á ný í frek­ari vinnu. „Við erum með nokk­ur hand­rit til­bú­in. Það er margt áhuga­vert sem mig lang­ar að gera en ég veit ekki hvað af því verður. Ég er viss um að þegar ég kem fersk­ur til­baka mun ég átta mig á því hvað tek­ur við,“ seg­ir Ant­on að lok­um.

Sjá nánar hér: Skandi­nav­ísk­ur spennu­tryll­ir á hvíta tjaldið

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR