Þegar faðir minn og öll hin bjuggu til Sjónvarpið

Ég óska RÚV – sjónvarpi allra landsmanna hjartanlega til hamingju með daginn og hálfrar aldar tilveru. Þessi merka menningarstofnun hefur alltaf verið nálæg í mínu lífi, ekki bara vegna þess að ég hef unnið ýmiskonar efni fyrir Sjónvarpið í bráðum þrjátíu ár, heldur kannski enn frekar vegna þess að faðir minn, Sverrir Kr. Bjarnason, var í hópi þeirra sem bjuggu Sjónvarpið til.

Pabbi var 25 ára þegar hann munstraði sig á Sjónvarpsdallinn – sem er reyndar ekki svo óviðeigandi samlíking því hann hafði verið loftskeytamaður á millilandaskipum áður og tók gjarnan einn og einn túr í fríum eftir það. En kannski er enn nákvæmara að segja að hann hafi verið með í því að smíða fleyið, ýta því úr vör og sigla því svo um áratugi á öldum ljósvakans.

Þetta hófst semsagt síðla árs 1965, fyrir tæpu 51 ári síðan. Þá var hann sendur ásamt hópi annarra til Danmarks Radio að læra sjónvarp.

Hér er mynd af hluta hins fríða flokks í Danmörku. Hún er tekin í desember 1965 fyrir utan eitt af þá nýju myndverum DR-TV í Gladsaxe, þar sem var kennsluaðstaða hópsins. Frá vinstri: Guðmundur Eiríksson, Örn Sveinsson, Þórarinn Guðnason, Ingvi Hjörleifsson og Sverrir Kr. Bjarnason (þú getur smellt á allar myndir til að stækka þær).

Þessi mynd er tekin fyrir utan eitt af nýju myndverum DR-TV í Gladsaxe, sem var kennsluaðstaða hópsins. Frá Vinstri: Guðmundur Eiríksson, Örn Sveinsson, Þórarinn Guðnason, Ingvi Hjörleifsson og Sverrir Kr. Bjarnason.

Að neðan frá vinstri Þórarinn Guðnason (síðar forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands), Jón Hermannsson (síðar kvikmyndaframleiðandi) og pabbi, Sverrir Kr. við upptökur hjá DR.

Þórarinn Guðnason Jón Hermannsson Sverrir Kr. Bjarnason

Og hér er hópurinn við komuna til DR í desemberbyrjun 1965. Frá vinstri: Sigurliði Guðmundsson, Ingvi Hjörleifsson, Guðmundur Eiríksson, Sigurður Einarsson, Jón Hermannsson, Örn Sveinsson, Úlfar Sveinbjörnsson, Þórarinn Guðnason, Sverrir Kr. Bjarnason.

Sverrir Kr. - hópurinn hjá DR 1965

Þetta voru nokkrir mánuðir og um vorið komu þeir heim og fóru að undirbúa útsendingar á Laugavegi 176. Sjálfum þótti mér þetta spennandi og reyndi að hjálpa til af fremsta megni þrátt fyrir að vera aðeins á öðru ári þegar myndin að neðan er tekin vorið 1966, nokkrum mánuðum áður en útsendingar hófust.

Ásgrímur Sverrisson Sjónvarpið Laugavegur 176 vor 1966

Pabbi vann hjá Sjónvarpinu í 43 ár, frá 1965 til 2008.

Hann gegndi þar ýmsum störfum eins og títt var – og er jafnvel enn – um starfsmennina. Framan af var hann á svokölluðum skanner, filmusýningarvél sem notuð var til útsendinga. Síðan var hann í útsendingarstjórn (aðalstjórn), þá hljóðmaður í upptökum og hljóðvinnslu og þaðan fór hann á línumiðstöð þar sem tekið var á móti myndefni innanlands sem utan. Síðustu árin fyrir eftirlaun starfaði hann við undirbúning stafrænnar yfirfærslu á gömlum filmum úr safni Sjónvarpsins (já ég veit að þetta er kallað RÚV núna – af einhverjum ástæðum).

Set hérna inn smá spúkí mynd af pabba, það var eitthvað ljósatest í gangi!

Sverrir Kr. Bjarnason

Ekki starf heldur lífsmáti

Einhverntíma á mínum unglingsárum vorum við pabbi að ræða vinnuna hans. Hann sagði þá að þetta væri eiginlega ekki starf heldur lífsmáti.

Ég skil vel hvað hann átti við. Starfið er margt, en eitt er bræðrabandið og svo framvegis…

Allt þurfti starfsfólk Sjónvarpsins að ryðja brautina á upphafsárunum, gera allt í fyrsta sinn, gera mistök, læra af þeim, halda áfram, þróast. Og svo framvegis. Sú hugsun var ríkjandi að gera það sem gera þurfti, oft langt umfram skyldu, til að leysa verkefnin og finna útúr hlutunum vakin og sofin.

En ég held að annað hafi líkað spilað inní.

Sjónvarpið – sem að svo miklu leyti snýst um að vera í sterkum tengslum við gangverkið í samfélaginu auk þess að reyna daglega að uppfylla þær skyldur sínar að fræða, skemmta og upplýsa – er nokkurskonar eilífðarmaskína líkt og spítali eða menntastofnun, apparat með skýran tilgang sem er svo miklu stærri og mikilvægari en maður sjálfur eða nokkur önnur manneskja.

Það er eitthvað í því að lifa og starfa með þessháttar uppleggi.

Ég ólst líka upp við að vinnustaður föður míns skipti samfélagið máli. Erindi Sjónvarpsins – sem og Ríkisútvarpsins alls – hefur alltaf verið skýrt og brýnt við þjóðina og hún ávallt látið sig stofnunina miklu varða. Alveg sér í lagi framan af þegar íslenskt sjónvarp þótti nýlunda, jafnvel undur og stórmerki en líka áfram. Þetta samband er vissulega ekki alltaf blítt en tengslin eru sterk.

Fann sjálfur vel fyrir þessu þegar ég byrjaði að starfa fyrir Sjónvarpið uppúr tuttugu ára afmæli þess; hvert sem maður leitaði í samfélaginu um upplýsingar, aðstoð eða annað tilheyrandi dagskrárgerð voru allir boðnir og búnir að stökkva til, eins og það væri einhverskonar ljúf skylda að taka þátt í þessu apparati í þjóðareign. Ég verð reyndar ennþá var við þessa tilfinningu útí samfélaginu gagnvart Sjónvarpinu/RÚV.

Sem er gott.

Hér er fyrir gæfuríkum næstu fimmtíu árum RÚV-sjónvarps og takk pabbi (og öll hin) fyrir að búa það til.

Hér að neðan eru sjónvarpsstarfsmenn að drösla fyrsta upptökubílnum, Thoru, á land sumarið 1966. Bíllinn kom frá sænska sjónvarpinu. (Myndirnar eru allar úr safni pabba, þetta er bara brot af því sem hann á í fórum sínum. Kannski birti ég fleiri myndir fljótlega.)

Upptökubíllinn Thora dreginn á land

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR