Aukin áhersla á leikið efni í nýjum þjónustusamningi við RÚV

 

RÚV loftmyndÍ dag var undirritaður nýr þjónustusamningur milli Ríkisútvarpsins og mennta- og menningarmálaráðherra. Meðal þess helsta sem snýr að bransanum er að auknu fé verður veitt til samframleiðslu og kaupa á efni frá sjálfstæðum framleiðendum, auk þess sem ráðist verður í sérstakt átak til að auka leikið efni í sjónvarpi.

Á gildistíma samningsins mun Ríkisútvarpið leggja aukna áherslu á íslenskt leikið efni til að stuðla að eflingu kvikmyndagerðar í landinu, með það að markmiði að auka framboð og gæði á íslensku leiknu sjónvarpsefni, segir í fréttatilkynningu frá RÚV.

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segir:

„Það er ánægjulegt að tekist hafi að ljúka gerð þjónustusamnings sem skilgreinir stöðu og framtíðarsýn Ríkisútvarpsins til næstu fjögurra ára samhliða því sem fjármögnun er tryggð út tímabilið. Í samningnum er sérstaða Ríkisútvarpsins sem almannamiðils undirstrikuð og ánægjulegt er að menningarhlutverk RÚV er eflt, ekki síst með því að leggja stóraukna áherslu á framleiðslu á leiknu efni. Sömuleiðis eru undirstrikuð áform um að festa nýja þjónustu okkar, Krakka-RÚV í sessi. Því er ekki að leyna að það eru vonbrigði að Alþingi hafi um áramótin ákveðið að lækka útvarpsgjaldið enn á ný og mun það leiða til þess að RÚV neyðist á næstu mánuðum til að hagræða enn frekar í starfsemi sinni til að tryggja áframhaldandi hallalausan rekstur. Að þeim aðgerðum loknum á samningurinn að tryggja festu í fjármögnun út samningstímann sem mun vonandi leiða til þess að meiri ró verði um RÚV á pólítíska sviðinu á næstu misserum.“

Í fréttatilkynningunni segir ennfremur:

Í samningnum er kveðið á um aukið hlutverk Ríkisútvarpsins við að styrkja og efla sjálfstæða þátta-, kvikmynda- og heimildarmyndagerð. RÚV mun verja auknu hlutfalli tekna sinna til meðframleiðslu og kaupa af sjálfstæðum framleiðendum á næstu árum. Viðskipti við sjálfstæða framleiðendur er skilgreint í samningnum sem lágmarkshlutfall af heildartekjum RÚV og fer á samingstímanum úr 8% í 11% af heildartekjum.

Ríkisútvarpið mun tvöfalda framlag til leikins efnis og skuldbindur sig til að verja árlega 200 milljónum króna hið minnsta til kaups eða meðframleiðslu á slíku efni árin 2017, 2018 og 2019. Þetta markmið er háð því að sérstakt opinbert framlag fáist á samningstímanum.

Gangi þetta eftir þýðir þetta að viðskipti við sjálfstæða framleiðendur munu nema um 650 milljónum króna á fyrsta ári gildistíma samningsins og hækka síðan í áföngum.

Þetta er orðað svona í sjálfum þjónustusamningnum:

2.1.1. Kaup af sjálfstæðum framleiðendum

Ríkisútvarpið skal styrkja og efla sjálfstæða sjónvarpsþátta-, kvikmynda- og heimildarmyndagerð með því að gerast kaupandi eða meðframleiðandi að slíku efni. Á samningstímabilinu skal Ríkisútvarpið kaupa eða vera meðframleiðandi að leiknu sjónvarpsefni, kvikmyndum, heimildarmyndum eða öðru dagskrársefni í miðlum Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið skal verja til þess að lágmarki 8% af heildartekjum á árinu 2016, 9% árið 2017, 10% árið 2018 og 11% árið 2019.

Komi til sérstök fjárframlög frá Alþingi, sbr. 4. tl. 1. mgr. 14. gr. laganna, skulu þau ekki teljast til heildartekna skv. þessari grein og koma til viðbótar við það sem nefnt er hér að ofan. Verði um frekari slík fjárframlög að ræða skal þeim varið til kaupa og meðframleiðslu á efni samkvæmt þessari grein, nema Alþingi ákveði annað.

2.1.2. Aukið framlag til leikins íslensks efnis

Á gildistíma samningsins mun Ríkisútvarpið leggja aukna áherslu á íslenskt leikið efni til að stuðla að eflingu kvikmyndagerðar í landinu, með það að markmiði að auka framboð og gæði á íslensku leiknu sjónvarpsefni. Lögð skal áhersla á aukið samstarf Ríkisútvarpsins við Kvikmyndamiðstöð Íslands og sjálfstæða framleiðendur. Aukið framlag í þennan efnisflokk verður á kostnað annarra efnisflokka í sjónvarpi en þó ekki á kostnað framlags til framleiðslu og kaupa á barnaefni.

Aðgerðir og viðmið:

  • Innan Ríkisútvarpsins skal stofnuð sérstök eining undir heitinu RÚV-MYNDIR.

o Hlutverk RÚV-MYNDA er að stuðla að auknu framboði á leiknu íslensku gæðaefni. Þessari einingu skal stýrt af sérstöku fagráði sem útvarpsstjóri skipar og ber að starfa eftir gegnsæjum og faglegum starfsreglum.

o Ríkisútvarpið mun tvöfalda framlag sitt til leikins efnis og skuldbindur sig til að verja árlega 200 milljónum króna hið minnsta til kaups eða meðframleiðslu á slíku efni árið 2017, 2018 og 2019, með fyrirvara um mótframlög til framleiðslu á efninu.

o Eigi minna en 80% af árlegu framlagi til leikins efnis skal renna til sjálfstæðra framleiðenda sbr. gr. 2.1.1. 4

o Forsenda fyrir auknu framlagi Ríkisútvarpsins til leikins efnis er að innheimt útvarpsgjald lækki ekki að raunvirði á samningstímanum.

Þjónustusamninginn í heild sinni má skoða hér: Þjónustusamningur RÚV 2016.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR