Morgunblaðið um “Reykjavík”: Í draumi sérhvers manns er fall hans falið

Hjördís Stefansdóttir skrifar um Reykjavík Ásgríms Sverrissonar í Morgunblaðið. Hún segir meðal annars að allt frá upphafskynningu sé “sleginn tónn að brotakenndum mikilfengleika,” og að óvenju raunsæjar og mannlegar persónur fái að spinna sinn þráð út frá sínum vonum og þrám og rata í mannlegar flækjur. Hjördís gefur myndinni fjórar stjörnur.

Hjördís segir meðal annars:

Hringur orðar áleitnar hugleiðingar sínar svo í byrjun myndar: „Kvikmyndir hafa samræmi sem lífið hefur ekki“ og segja má að þessi yrðing grundvalli tilvist hans, hvort sem hann reynir að heimfæra lífið upp á listina eða öfugt. Áhorfendur verða þess fljótt áskynja að óbilandi kvikmyndahneigðin litar alla heimssýn, hugmyndir og hugsjónir hans þannig að hann vitnar sífellt í átrúnaðargoðin sín og speglar líf sitt í list þeirra. Búðin hans er til að mynda nefnd eftir kvikmynd François Truffauts, La nuit américaine, en það sem meira er um vert sér hann konurnar í lífi sínu út frá kvikmyndalæsi sínu á stjörnum hvíta tjaldsins fremur en sem sjálfstæðar lifandi verur. Þetta sést best í blátónuðu atriði í upphafi myndarinnar þar sem hann ber ástarleiki sína með Elsu saman við fræga senu með Brigitte Bardot úr mynd Jean-Luc Godard, Le Mépris. Þannig er oft eins og innri hugarheimur Hrings renni saman við sögusvið myndarinnar og framvinduna.

Öll erum við aðalpersónur í eigin lífi, semjum okkar sögu sem svo tvinnast saman við og flosnar frá sögum annarra. Tilveran er flókin og persónuleikar okkar því almennt ansi margbrotnir. Myndinni tekst ágætlega að fanga þessi tilbrigði og persónur hennar eru óvenju raunsæjar og mannlegar. Allar spinna þær sinn þráð út frá sínum vonum og þrám og fá að rata í mannlegar flækjur. Samtöl og samskipti persóna ganga síður en svo snurðulaust fyrir sig því þær virðast oft tala þvert hver á aðra fremur en saman svo samskiptin rata í óleysanlega rembihnúta eða rofna alveg. Úr verður sprenghlægilegt og oft pínlegt sjónarspil enda þekkja flestir á eigin skinni svona aðstæður þar sem samtöl hleypa öllu í bál og brand á örfáum sekúndubrotum svo erftitt er að sjá fyrir sér hvernig vinda má farsællega ofan af þeim aftur.

Umgjörð myndarinnar í heild er nokkuð góð. Allt frá upphafskynningu á aðstandendum myndarinnar og borgarsögusviðinu er sleginn tónn að brotakenndum mikilfengleika. Þar brjóta margir flæðandi blátónaðir rammar upp tjaldið og léttgeggjaður frumsaminn djass eftir Sunnu Gunnlaugsdóttir tekur að óma. Þessi djass spilast svo áfram í stefjum yfir allri framvindunni og virðist í senn hæðast að persónum og undirstrika tilvistarkreppu þeirra. Áreynslulaust eru áhorfendur leiddir inn í tilveru og innri hugarheim Hrings.

Í draumi sérhvers manns er fall hans falið, eins og segir í ljóðinu. Eins og flestir þarf Hringur að velja milli draumkenndra hugsjóna sinna og efnislegrar raunhyggju þar sem veðlán og skuldaskil setja mönnum stólinn fyrir dyrnar. Myndin er því í grunninn afar tilvistarspekileg en hún er einnig ósmár óður til kvikmynda og glúrið tilkall til sögustaðarins Reykjavíkur því í þeirri smáu höfuðborg getur samdráttur fólks endað í kynlegum uppákomum þar sem fyrrverandi makar eða önnur óvænt fjölskyldutengsl geta sett örlagarík strik í reikninginn. Margar fleygar setningar myndarinnar kjarna þá staðreynd, eins og þessi sem Hringur segir við Maríu þegar hann keyrir hana heim eftir daðursflandur þeirra um miðbæinn: „Ég bið svo bara að heilsa mömmu þinni!“

Þegar upp er staðið er Reykjavík mynd sem kemur skemmtilega á óvart með mannlegum ástríðum og glettilegu gríni.

Reykjavík-umsögn mbl

Rétt er að taka fram að ritstjóri Klapptrés er jafnframt leikstjóri og handritshöfundur kvikmyndarinnar Reykjavík.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR