spot_img

Herðubreið um „Reykjavík“: Ákaflega vel unnið verk

Karl Th. Birgisson skrifar á Herðubreið um Reykjavík Ásgríms Sverrissonar og segir hana fallega, bráðskemmtilega og launfyndna.

Karl segir:

Kvikmynd Ásgríms Sverrissonar, Reykjavík, er falleg, bráðskemmtileg og launfyndin. Og hvílík blessun að fá loks að horfa á íslenzka bíómynd þar sem uppistaðan er ekki ofbeldi, dóp eða þunglyndi.

Leikstjórinn hefur lýst sögunni þannig, að hún sé um annars gott og skynsamt fólk sem er að klúðra lífi sínu. Undir þetta get ég ekki tekið. Persónurnar virðast flestar fremur vera fórnlömb sanninda Lennons, Life is what happens when you´re busy making other plans.

Sagan er hins vegar snotur, vel fléttuð og bráðfyndin á sinn lágstemmda hátt. Umgjörðin öll, myndataka og ekki sízt tónlist, ramma inn ákaflega vel unnið verk.

Leikur í myndinni er undantekninglaust góður og áreynslulaus enda toppfólk á ferð, Atli Rafn, Nanna Kristin, Guðmundur Ingi og þau hin. Af hinum yngri hlýt ég þó að nefna sérstaklega til sögu Grímu Kristjánsdóttur. María hennar sprettur ljóslifandi fram í fyrsta ramma, þessi rannsakandi augu og kankvísa bros sem jaðrar alltaf við glott, og hvílíkt daður, herregud.

Svo er hin kornunga María Friðriksdóttir. Það hefur viljað loða við íslenzkar bíómyndir að barnahlutverk eru látin „slæda“, þ.e. ekki eru gerðar sömu kröfur til barna og annarra leikara. Þau eru oft óskýrmælt og tala í tóni sem engin börn nota, hugsanlega af því að þau eru svo meðvitað að leika.

Ekki hér. Edda litla Maríu Friðriksdóttur er svo eðlileg, skýrmælt og svipbrigði öll svo skemmtileg að til eftirbreytni ætti að vera. Við hljótum að þakka leikstjóranum fyrir að laða þessa hæfileika svo vel fram í henni.

Að því sögðu skal nú tuðað svolítið: Karakter Elsu (sem Nanna Kristín leikur) olli mér heilabrotum. Hún vill hafa það gott og fínt, geta keypt ítalska skinku, lífrænan mat og merkjavöru. Er slík kona líkleg til að giftast manni sem rekur það sem er trúlega erfiðasti bissniss landsins (fyrir utan tryggingabransann), sumsé vídeóleigu, hvað þá vídeóleigu með „listrænar“ myndir?

Ég gæti talið upp nokkrar ástæður fyrir því að góð kona ætti að taka saman við Reyni í Aðalvídeóleigunni, en gifting til fjár væri líklega ekki ein af þeim.

Elsa tekur enda skyndiákvörðun um skilnað þegar lífstíllinn er í hættu. En hún gerir fleira sem undraði mig: Hringir kona virkilega í fyrrverandi eiginmann um miðja nótt af því að það er geitungur á baðherberginu? Og ákveður í kjölfarið að hann sé maðurinn í lífi hennar?

Kannske og eflaust eru svona konur til, en minnið mig endilega á að verða ekki á vegi þeirra.

Og svo: Nafn myndarinnar, Reykjavík. Það er fátt séríslenzkt – hvað þá sér-reykvískt – við söguna eða persónurnar. Sögusviðið fyrir hvort tveggja gæti verið lítil borg, Esbjerg eða Augsburg.

Umhverfið er heldur ekki eins reykvískt og vænta má af nafninu. Útiskot eru flest niðri við höfn og yfirlitsskot eru svo grá og köld að þau eru næstum svarthvít. Meira að segja Harpa verður eins og steypuklumpur, sem hún er ekki. Utan frá séð gæti myndin þess vegna gerzt í hvaða Grimsby og Hull sem er.

Að manni læðist óneitanlega sá grunur, að nafnið sé til komið af markaðsástæðum – að auðveldara kunni að reynast að selja myndina í útlöndum af því að Ísland og þar með Reykjavík eru í tízku nú um stundir. Um þetta veit ég ekki, en þankinn sækir að. En það er líka allt í fína og gangi framleiðendum endilega sem bezt.

Um eitt var ég lengi að gera upp hug minn: Samtöl eru víða hræðilega enskuskotin. Ég hefði líklega síður tekið eftir því nema vegna þess að úgáfan sem ég sá var með enskum texta og mér brá reglulega – enska þýðingin var sums staðar næstum óþörf.

Hinu tók ég þó líka eftir, að samtöl voru öll mjög eðlileg og þjál, en ekki á því ritmáli sem lengi vel reið húsum í íslenzkum bíómyndum. Í samhengi sögunnar, þar sem flestar persónurnar hrærast í heimi kvikmynda og annarrar dægurmenningar, eru þessar slettur hins vegar alveg eðlilegar og málhreinsunarsinninn verður að sætta sig við að við slettum öll alveg villevekk dags daglega.

Að lokum: Sérstakt hrós fá búningameistarar fyrir að finna á Atla Rafn jafnljótustu bindin í bænum og þótt víðar væri leitað. Vel gert.

Í stuttu máli: Reykjavík er rósabúnt í hnappagat Ásgríms Sverrissonar og allra aðstandenda. Drífið ykkur nú í bíó.

Sjá nánar hér: Ljótustu bindin í bænum í fallegri og bráðskemmtilegri bíómynd : Herðubreið

Rétt er að taka fram að ritstjóri Klapptrés er jafnframt leikstjóri og handritshöfundur kvikmyndarinnar Reykjavík.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR