DV um „Fyrir framan annað fólk“: Erfitt að eiga við ástina

Svandís Dóra Einarsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Hafdís Helga Helgadóttir og Snorri Engilbertsson fara með helstu hlutverkin í Fyrir framan annað fólk.
Svandís Dóra Einarsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Hafdís Helga Helgadóttir og Snorri Engilbertsson fara með helstu hlutverkin í Fyrir framan annað fólk.

Valur Gunnarsson skrifar um Fyrir framan annað fólk Óskars Jónassonar og segir hana taka mið af samtíma sínum og fara ágætlega af stað, en fljótt fari að halla undan fæti. Hann gefur myndinni tvær stjörnur.

Valur skrifar meðal annars:

Sögusvið myndarinnar er auglýsingastofa, sú var tíð að auglýsingagerðarmenn töldust útsæði Satans en eftir Mad Men eru þeir orðnir menningarhetjur, þeir einu sem eru á fullum launum við skapandi skrif án ríkisstyrkja. Ágætis pælingar sölumannanna um bjartsýni auglýsinga andstætt svartsýni frétta fylgja. Myndin tekur mið af samtíma sínum og fer ágætlega af stað. En fljótt fer að halla undan fæti.

Söguhetjur eru sóttar beint í „rom-com“ fyrirmyndir að vestan, óframfærna aðalpersónan og „slísí“ besti vinurinn sem blaðrar eitthvað um Suður-Evrópu og er með plakat af Berlusconi á veggnum ef við skyldum ekki átta okkur á persónunni. Gallinn er ekki fyrst og fremst hvað persónurnar minna lítið á raunverulegar manneskjur heldur sá að hér er framin höfuðsynd rómantískra gamanmynda: Manni stendur á sama um hvort fólk nái saman eða ekki.

Engin sérstök ástæða er fyrir því að Húbert og Hanna eigi að finna hvort annað, nema þau annars góðu rök að hvorugt virðist geta gert betur, en það dugir ekki í bíó. Hún hefur þann helsta kost að vera frænka þeirrar sem slísí gaurinn reynir við, og hann gerir heldur ekki mikið til að heilla nema að herma eftir Ólafi Ragnari í gríð og erg. Kannski kaus hún á móti Icesave, en það kemur þá ekki fram.

Að sjálfsögðu fær hún fljótt leiða á þessum eftirhermutilburðum, þó löngu á eftir áhorfandanum. Ekki virðist stráksi hafa mikinn persónuleika þar fyrir utan en getur ekki hætt að herma eftir. Og þessi eftirhermumál eru jafn óútskýrð og þau eru ófyndin. Líklegast hefði verið betra að gera hann að uppistandara sem festist í hlutverki sínu, en þá hefði líka þurft að hafa hann skemmtilegan, sem hefði jú verið til bóta í sjálfu sér. Nú, eða þá að láta Pálma Gestsson fara með hlutverk eftirhermunnar fyrst hann er á svæðinu, frekar en að afgreiða hann með einum „meta“ brandara.

Að sjálfsögðu vill Hanna helst snúa aftur til barnsföður síns, og sá vill það sama, en við eigum víst að vona að það gerist ekki. Ekki er gefin nein ástæða fyrir því að fyrrverandi þyki ekki góður kostur önnur en að frænkan hefur eitthvað á móti honum. Brandararnir gera flestir boð á undan sér, gömul kona kemur inn í eldhús og fer að tala um nýmóðins heimilistæki af engri sýnilegri ástæðu og að sjálfsögðu fer okkar maður að herma eftir henni og tala um hjálpartæki ástarlífsins. Eina góða brandarann er að finna á auglýsingaspjaldi myndarinnar. Og enn sem komið er ferst Íslendingum betur að fjalla um einsemdina en ástina.

Sjá nánar hér: Erfitt að eiga við ástina

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR