Þýskir kvikmyndadagar í sjötta sinn í Bíó Paradís

Úr Elser (13 Minutes).
Úr Elser (13 Minutes).

Þýskir kvikmyndadagar hefjast í Bíó Paradís í sjötta sinn á föstudag. Sýndar verða sex nýjar myndir. Hrönn Sveinsdóttir framkvæmdastjóri Bíó Paradísar er í viðtali við Fréttablaðið þar sem hún fer yfir hátíðina.

Hrönn segir m.a.

En ég er sérstaklega spennt að sjá opnunarmyndina 13 mínútur, Elser en hún fjallar um manninn sem reyndi að drepa Hitler og tókst það næstum því. Það hefði að öllum líkindum gengið ef hann hefði haft þrettán mínútur til viðbótar. Myndinni er leikstýrt af Oliver Hirsch­biegel sem frægur er fyrir kvikmyndina Downfall þannig að það er ljóst að hann er góður í að sýna þennan svarta tíma í þýskri sögu og er eiginlega algjör Hitlersérfræðingur en þetta er margverðlaunuð mynd.

Phoenix finnst mér líka vera mjög spennandi og fólk hefur borið henni ákaflega vel söguna. Svo er mynd þarna sem heitir We are Young. We are Strong (Wir Sind Jung. Wir Sind Stark) og tekst á við viðfangsefni sem er ofarlega á baugi þessa dagana. Hún fjallar um hvernig nýnasistarnir urðu til í Þýskalandi, uppruna þeirra og uppgang, en þremur árum eftir fall Berlínarmúrsins hófust miklar óeirðir gegn innflytjendum í borginni Rostock í Austur-Þýskalandi. Árásir voru gerðar á flóttamannabúðir í jaðri borgarinnar. Þremur dögum eftir árásirnar náði þessi ólga hámarki þegar þrjú þúsund mótmælendur, nýnasistar, kveiktu í búðum þar sem Víetnamar höfðust við. Myndin er byggð á þessum atburðum og er afar sjónræn og spennandi reynsla. Þetta er svart-hvít mynd þar sem leikstjórinn, Burhan Qurbani, leyfir hverju skoti að lifa og nær að láta senurnar skila reiðinni og kraftinum sem ólgaði undir í samfélaginu. Mjög spennandi mynd.

En svo erum við að sýna eina alveg geggjaða mynd sem heitir B-Movie: Lust & Sound in West Berlin 1979-1989. Þetta er svona tónlistar- og tíðarandaveisla með alveg æðislegu myndefni. Þetta var svo geggjaður tími Í Berlín sem var eins og útgáfa af New York á þessum árum og stemningin greinilega alveg mögnuð, Nick Cave í banastuði og allt að gerast. Þannig að það er bara um að gera að koma og njóta.“

Sjá nánar hér: visir.is

Dagskrána og frekari upplýsingar um myndina má skoða hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR