“Þeir sem þora” sýnd á Evrópuþinginu

Jón Baldvin Hannibalsson ræðir við gesti eftir sýningu myndarinnar í Evrópuþinginu.
Jón Baldvin Hannibalsson ræðir við gesti eftir sýningu myndarinnar í Evrópuþinginu.

Heimildamyndin Þeir sem þora um stuðning Íslands við baráttu Eystrasaltsþjóða fyrir endurheimt sjálfstæðis, var sýnd í Evrópuþinginu í Brüssel 23. janúar síðastliðinn. Um 250 þingmenn, flestir frá Norðurlöndum, Eystrasaltsþjóðum og Austur-Evrópu, sóttu sýninguna, ásamt ráðgjöfum og starfsmönnum.

Elmar Brok , formaður utanríkismálanefndar Evrópuþingsins, flutti ávarp, Mariu Lauristin, fv. forseti eistneska þingsins, rifjaði upp dramatíska atburði úr sjálfstæðisbaráttunni, Algirdas Saudargas, fyrrverandi utanríkisráðherra Litáen, lýsti því hvers vegna þeir atburðir sem myndin fjallar um hefðu haft heimssögulega þýðingu og Sandra Kalniete, fyrrverandi utanríkisráðherra Lettlands, kynnti Jón Baldvin Hannibalsson, sem flutti inngangserindi um hinn sögulega bakgrunn myndarinnar.

Í inngangserindi sínu sagði Jón Baldvin Hannibalsson m.a. eftirfarandi:

„Leiðtogar Vesturlanda á þessum tíma töldu sjálfum sér trú um, að þeir stæðu frammi fyrir vandasömu vali, þegar forystumenn sjálfstæðishreyfinga Eystrasaltsþjóða föluðust eftir stuðningi þeirra við endurheimt sjálfstæðis: Ættu þeir að fórna hinum mikla ávinningi, sem stóð til boða með samningum við Sovétríkin við endalok Kalda stríðsins, með stuðningi sínum við drauma þessara jaðarþjóða sovéska heimsveldisins við endurreist sjálfstæði? Eða ættu þeir – í nafni friðar og stöðugleika í heiminum – að fórna sjálfstæði þessara þjóða fyrir það, sem þeir töldu meiri ávinning? Þeir gætu ekki gert hvort tveggja. Þeir þurftu, að því er virtist, utanaðkomandi hjálp til að ná áttum“.

Að sýningu lokinni svaraði Jón Baldvin fjölmörgum fyrirspurnum áhorfenda um efni myndarinnar, og hvað mætti af þessari sögu læra í samtímanum, t.d. um stuðning Vesturlanda við Úkraínu.

Myndin hefur nú þegar verið sýnd í sjónvarpi í Eystrasaltslöndunum þremur og á Íslandi. Hún hefur einnig verið sýnd á kvikmyndahátíðum í Kanada, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Tyrklandi og verður sýnd bráðlega í Úkraínu. Sjónvarpsstöðvar í Barcelona, Katalóníu, fjölluðu um efni myndarinnar í sérstökum umræðuþáttum í vikunni. Sólarhring eftir sýningu myndarinnar í Evrópuþinginu höfðu 130 þúsund manns séð myndina á vef Evrópuþingsins.

Stjórnandi og framleiðandi myndarinnar er Ólafur Rögnvaldsson hjá Ax Films og Kolfinna Baldvinsdóttir er handritshöfundur. Myndin er unnin í samvinnu við kvikmyndaframleiðendur í Riga, Tallinn og Vilníus.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR